Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 17:25:09 (3796)

1998-02-12 17:25:09# 122. lþ. 66.13 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[17:25]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef náttúrlega alls ekki lista yfir það og get ekki svarað spurningunni nákvæmlega sem hv. þm. setur fram hvaða einstaklingar þarna kann að vera um að ræða. En það er ljóst að héraðsdýralæknisstöðunum fækkar eins og fram kemur í lagatextanum ef frv. verður að lögum eins og það lítur hér út þá verða ráðnir færri héraðsdýralæknar en þeir sem nú eru. Gert er ráð fyrir að þeim fjölgi að sama skapi sem kallaðir eru sjálfstætt starfandi dýralæknar og ef svo fer að einhverjum af starfandi héraðsdýralæknum verði sagt upp störfum hljóta þeir að öðlast við það biðlaunarétt eins og kemur fram í umsögn fjmrn. um málið. Ég sé að það er rétt hjá hv. þm. að ekki er gerð grein fyrir því ákvæði í athugasemdum um einstakar greinar sem hefði þó kannski verið full ástæða til að láta koma betur fram hvernig það er hugsað nákvæmlega að koma þessum málum fyrir. Það má vera nokkuð ljóst að í einhverjum tilfellum fer það fram eins og boðað er í lagatextanum og athugasemdum frá fjmrn.

Mig langar þessa sekúndu sem ég á eftir að segja við hv. þm. og þingheim, eða a.m.k. við þingritunina, þannig að það komi fram, að ég deili áhyggjum mínum nokkuð með hv. þm. Það er víða vegið að opinberum störfum á landsbyggðinni. Út af fyrir sig er áhyggjuefni ef velmenntuðu fólki með tiltölulega góð laun fækkar umtalsvert í hinum dreifðu byggðum. Sumt af þessu er nú fyrir það að það eru að skapast aðstæður sem við ráðum ekki við hvort sem okkur líkar betur eða verr.