Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 17:27:44 (3797)

1998-02-12 17:27:44# 122. lþ. 66.13 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[17:27]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki sæmandi að leggja málið fyrir með algera eyðu að því er varðar skýringar við ákvæði til bráðabirgða og eftirláta það fjmrn. að koma fram með efnisatriði sem varða málið beint. Þetta hefur hæstv. ráðherra tekið undir og hefði þurft að ráða bóta á því áður en frv. kom fram. Ég hef verulegar áhyggjur af málinu með tilliti til stöðu landbúnaðarins og þeirra sem við hann starfa og eiga að njóta þjónustu dýralækna. Mér sýnist að ekki sé aðeins teflt á tæpt vað varðandi ýmis ákvæði og alveg sérstaklega umdæmin sem verið er að setja upp þannig að ekki verði uppfylltar þær kröfur sem eru þó settar fram í orði í greinargerð að þjónusta skuli ekki versna við þetta. Væri það mælikvarðinn mundi þetta ekki vera sett fram með þeim hætti sem það liggur fyrir. Það er hverju orði sannara að það er stórfellt áhyggjuefni hvernig haldið er á fjölmörgum málum sem varða þjónustu og samskipti hins opinbera við fólk um hinar dreifðu byggðir í landinu. Á sama tíma og ráðandi öfl í samfélaginu, þar á meðal ríkisstjórn landsins, viðurkennir að illa horfi í þessum efnum eru aðgerðirnar sem gripið er til í engu samræmi við þau efni sem menn ráða þó yfir, burt séð frá því sem menn hafa þegar afsalað sér í hendur framandi valds með reglugerðum og öðru slíku og er ákvarðað úti í Brussel fyrir okkur. Hér er þó um að ræða efni sem menn gætu tekið á ef vilji væri fyrir hendi og væri það langt mál að víkja að.

Ég þakka umræðuna. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þátttöku í umræðunni og viðbrögð við athugasemdum mínum. Ég finn ekki að því, síður en svo. Ráðherra hefur brugðist vel við í þeim efnum. Ég hvet hæstv. ráðherra, virðulegur forseti, til þess að taka á í þessu máli og breyta frv. róttækt.