Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 10:56:35 (3806)

1998-02-13 10:56:35# 122. lþ. 67.1 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[10:56]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það væri velkomið að fara yfir þessi mál enda hef ég mjög oft gert það en það þýðir ekki neitt vegna þess að hæstv. menntmrh. segir alltaf: Það er mjög gott samband við kennarana, mjög gott samband við skólana. Og það er alveg sama hvað sagt er, það er ekki bara sama hvað ég segi, látum það nú vera, það er líka sama hvað kennararnir segja, og ekki nóg með það heldur líka sama hvað þeir skrifa í sín blöð. Menntmrh. segir alltaf: Heyrðu, það er mjög gott samband við kennarana, mjög gott samband við kennarasamtökin, en málið er bara ekki þannig. Hæstv. ráðherra ber höfðinu við steininn, því miður, í þessu máli og hlustar ekki á rök.

Eins er það í því máli er varðar kennaraskrána. Hann fullyrðir að mjög gott samband sé við Kennarasamband Íslands, og kennarasamtökin um kennaraskrána, um meðferð hennar. Það er ekki rétt. Niðurstaða í þeim efnum liggur ekki fyrir. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá Kennarasambandi Íslands fyrir klukkustund kom það greinilega fram að niðurstaða í þessu máli liggur ekki fyrir. Þannig að hæstv. menntmrh. neitar bara að horfast í augu við þær staðreyndir sem eru óþægilegar fyrir hann. Það er vissulega okkar vandi á Alþingi að rökræða við hæstv. ráðherra við slíkar aðstæður en það er sérstaklega vandi skólakerfisins.