Listskreytingar opinberra bygginga

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 11:08:48 (3808)

1998-02-13 11:08:48# 122. lþ. 67.2 fundur 446. mál: #A listskreytingar opinberra bygginga# (heildarlög) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[11:08]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins, á þskj. 773.

Á vegum menntmrn. hefur verið samið frv. það sem hér er lagt fram um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins. Verði það að lögum leysa þau af hólmi núgildandi lög um Listskreytingasjóð ríkisins, nr. 71/1990, með síðari breytingum. Frv. er að mestu byggt á tillögum tveggja nefnda sem fjallað hafa um þessi mál að tilhlutan menntmrn. á undanförnum árum.

Megintilgangur frv. er að tryggja svo sem auðið er framkvæmd þeirrar meginreglu að listskreyting sé þáttur í hverri byggingu sem reist er á vegum ríkisins með því að lögbinda að 1% af heildarkostnaði við bygginguna skuli varið í þessu skyni. Að því er nýbyggingar varðar verður það á ábyrgð þeirra sem forræði hafa um hverja byggingarframkvæmd að lagaskyldu í þessu efni sé framfylgt en leita skal faglegrar ráðgjafar um listskreytinguna.

Hlutverk Listskreytingasjóðs ríkisins að því er fjárframlög til listskreytinga varðar verður samkvæmt frv. bundið við opinberar byggingar sem fullgerðar eru við gildistöku nýrra laga, svo og útisvæði sem ríkið hefur forræði á. Jafnframt verður stjórn sjóðsins til ráðgjafar um listskreytingu í þeim mannvirkjum sem lögin taka til. Fjárveiting til sjóðsins fer eftir ákvörðun Alþingis í fjárlögum hverju sinni.

Með þeirri tilhögun sem frumvarpið mælir fyrir um er gert ráð fyrir að ákveðnir fjármunir renni milliliðalaust til listskreytingar í hverri nýrri byggingu sem ríkið stendur að en jafnframt leitast við að tryggja faglegan grundvöll ákvarðana um það viðfangsefni eins og aðra þætti byggingarframkvæmdanna.

Lengi var gert ráð fyrir því í lögum að fjárhæð sem svaraði 1% álagi á samanlagðar fjárveitingar ríkissjóðs til byggingarframkvæmda samkvæmt A-hluta fjárlaga rynni til Listskreytingasjóðs ríkisins og stjórn hans úthlutaði styrkjum til listskreytingar á grundvelli umsókna. Lög um þetta efni voru upphaflega sett árið 1982. Allt frá byrjun varð á því mikill misbrestur að þessari viðmiðun um ríkisframlag til sjóðsins væri framfylgt og árið 1995 var hún formlega afnumin.

Í þessu frv. er farin sú leið að tengja fjármögnun listskreytingar hverri einstakri byggingu, enda verði listskreytingin skylduþáttur sem taka skal tillit til við undirbúning og áætlanagerð vegna framkvæmdanna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara yfir einstakar greinar frv. eða athugasemdir við þær en ég hef í þessu stutta máli lýst megintilgangi frv. Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað eftir þessa umræðu til hv. menntmn. og 2. umr.