Listskreytingar opinberra bygginga

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 11:22:15 (3811)

1998-02-13 11:22:15# 122. lþ. 67.2 fundur 446. mál: #A listskreytingar opinberra bygginga# (heildarlög) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[11:22]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi hlut listamanna að þessu máli þá er það rétt að þeir hafa setið í nefndum. Þeir sátu í nefnd sem hæstv. fyrrv. menntmrh. skipaði og einnig nefnd sem ég skipaði 16. júlí 1996. Þeir hafa komið að þessari tillögugerð. Endanleg gerð frv. er samin í menntmrn. og hefur ekki verið borin sérstaklega undir samtök listamanna. Ég get því ekki vísað til þess að þau hafi formlega sagt álit sitt á þessari frumvarpsgerð. Ég tel eðlilegt að það komi fram í störfum nefndarinnar en hins vegar hafa listamenn verið mjög ákafir stuðningsmenn þess að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag varðandi listskreytingar í opinberum byggingum og fjárveitingar til þeirra.

Ég vænti þess að náist samstaða um þetta mál hér á Alþingi og verði vilja lýst til þess að framfylgja þessu frv. eins og það er, þá komi það til móts við þau sjónarmið sem listamenn hafa haft. Í viðræðum við listamenn hefur komið fram að þeir telja æskilegt að stjórn Listskreytingasjóðs hafi meira vald en gert er ráð fyrir í þessu frv.

Af frv. á að vera ljóst að stjórnin á að vera til ráðgjafar vegna nýbygginga en ákveður ekki listaverk í þeim byggingum. Hún er þar ráðgefandi aðili og ég taldi skynsamlegra að fara inn á þá braut. Með því hefðu byggingarnefndirnar sjálfar endanlegt ákvörðunarvald um listskreytinguna en gætu leitað ráðgjafar hjá stjórn Listskreytingasjóðs. Ég tel að margir listamenn séu þeirrar skoðunar að stjórn Listskreytingasjóðs ætti frekar að taka um þetta ákvarðanir og þá væri, að þeirra mati, tryggður sá faglegi vettvangur sem ætti að ráða þessu. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel að byggingarnefndirnar eigi að hafa síðasta orðið. Ég tel að það verði frekar hvati til þess að menn líti til þessara hluta þegar þeir ákvarða framgang byggingarframkvæmdanna. Eins og hér er sagt og bent hefur verið á, er mælt fyrir um það í 1. gr. frv. að verja skuli einu prósenti af heildarbyggingarkostnaði opinberrar byggingar til listskreytinga hennar og umhverfis hennar.

Ég lít þannig á, varðandi það sem hv. þm. Svavar Gestsson vék að, að þetta fari ekki í umhverfismál frekar en listskreytingar. Ég lít þannig á að það séu listskreytingar í byggingunni sjálfri, listskreytingar utan húss, höggmyndir eða annað slíkt sem þarna er vísað til en ekki verið að vísa til frágangs á lóð. Það eru slík atriði sem menn hafa talað um, þ.e. að unnt sé að kosta af þessu byggingarfé listaverk sem ekki einungis séu innan dyra heldur einnig umhverfis bygginguna eða í nágrenni hennar og þar með hluti af byggingunni. Ég túlka þetta ekki sem framlag til umhverfismála, í þeim skilningi sem menn leggja í það orð, eða lóðafrágang, nema hann sé þá með listrænu sniði og hluti af heildstæðu listaverki. Þannig vil ég túlka þetta ákvæði en sjálfsagt er fyrir hv. nefnd að fara ofan í orðalagið ef þetta teldist ná yfir lóðafrágang sem alls ekki var ætlan mín með flutningi frv.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir spurði hvort ríkisstjórnin væri með þessu að hverfa af þeirri braut sem hún markaði með að hafa ekki bundna tekjustofna. Ég lít ekki á þetta sem bundinn tekjustofn. Ég lít á þetta sem skilgreiningu á byggingarkostnaði, að menn eigi alltaf að reikna með því að 1% af kostnaði við byggingu opinberra húsa fari til listaverka. Ég lít því ekki á þetta sem markaðan tekjustofn, heldur sem meginreglu sem fylgt er, fari menn að frv. og verði það gert að lögum.

Varðandi hlut sveitarfélaganna, herra forseti, hef ég í þeim frv. sem ég flutt, t.d. um almenningsbókasöfn á síðasta þingi og í þessu frv., markað þá stefnu að skuldbinda ekki sveitarfélögin á nokkurn hátt. Sérstök málefni þarf að taka upp í samvinnu við sveitarfélögin en ekki skuldbinda þau með einum eða öðrum hætti.

Í þessu frv. eru engar kvaðir lagðar á sveitarfélögin og því ekki gert ráð fyrir því að þau geti sótt um í Listskreytingasjóðinn. Ef sveitarfélögin vilja eiga aðilda að Listskreytingasjóði, leggja honum til fjármagn og hafa þetta undir einum hatti sameiginlegt verkefni ríkisins og sveitarfélaganna, þá er það athugunarefni sem ekki er gert ráð fyrir í þessu frv. Eins og fram kemur verður breyting á skipan stjórnar Listskreytingasjóðs þannig að fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga hverfur úr stjórninni sem er í góðu samræmi við þá meginstefnu sem frv. mótar.

Þegar talað er um opinberar byggingar, þá eigum við við byggingar á vegum ríkisins en ekki sveitarfélaganna. Þetta er sú einfalda meginstefna sem mótuð var með frv. og talið að gott væri í þessu efni eins og flestum öðrum að hafa hreinar línur í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna. Það er meginástæðan fyrir því að frv. þetta er lagt fram.