Íþróttalög

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 11:39:37 (3815)

1998-02-13 11:39:37# 122. lþ. 67.3 fundur 447. mál: #A íþróttalög# (heildarlög) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[11:39]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég mæltist aðallega til þess að nefndin fjallaði um skýrslurnar til að fá úr því skorið hvort hv. menntmn. teldi ekki, af því hún fjallaði um þær þáltill. sem liggja að baki skýrslunum, að um fullnægjandi verk væri að ræða hjá þeim nefndum sem skýrslurnar unnu. Mér finnst mjög æskilegt í meðferð mála af þessu tagi þegar starf er unnið á grundvelli þingsályktunartillagna að ráðuneytið og aðrir fái ábendingar frá þeirri nefnd sem fjallar um málið í þinginu, hvort það sé eitthvað frekar sem þurfi að athuga í ljósi þess sem gerst hefur og það finnst mér bara til marks um góð og vönduð vinnubrögð.

Í sjálfu sér sé ég ekkert í þeim skýrslum sem kalla á breytingar í þessu frv. enda fjallaði nefndin um eflingu íþróttastarfs sérstaklega um frv. og gat gert hvaða tillögur um breytingar á því sem hún kaus en hún taldi ekki ástæðu til þess að breyta ákvæðum í frv. umfram það sem ég hef þegar rakið.

Ég vil einnig geta þess að í 2. gr. stendur:

,,Samstarf ríkis og sveitarfélaga við hina frjálsu íþróttahreyfingu skal taka mið af gildi íþróttaiðkunar fyrir uppeldis- og forvarnastarf.``

Þarna er mjög mikilvægt nýtt ákvæði sem hefur ekki verið í lögum sem kemur inn á marga þætti. Undir þessu ákvæði er hægt að sinna mörgum þáttum sem menn fjalla einmitt um í skýrslunni um eflingu íþróttastarfs, um stöðu kvenna í íþróttahreyfingunni þannig að þessi ákvæði eru almennt orðuð og í krafti þeirra getur ráðuneytið komið að þessum málum öðruvísi en áður.