Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 13:36:02 (3831)

1998-02-13 13:36:02# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[13:36]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka. Frv. þetta hefur verið flutt á þremur síðustu þingum en ekki náð fram að ganga.

Tilgangur frv. er ekki síst sá að gera fjármál stjórnmálaflokka opin og sýnileg og setja stjórnmálamönnum reglur í starfi sínu innan flokkanna. Leynd sem er í kringum fjármál stjórnmálaflokka er einungis til þess fallin að auka á tortryggni almennings í garð stjórnmálaflokka. Sama gildir ef leynd hvílir yfir háum styrkjum frá einstaklingum eða fyrirtækjum til stjórnmálaflokka. Hætta getur skapast í slíkum tilvikum á hagsmunaárekstrum sem leitt geta til óeðlilegrar afgreiðslu mála í stjórnsýslu þar sem fáum aðilum er hyglað á kostnað heildarinnar.

Almennt er lítið vitað um fjármál stjórnmálaflokkanna hér á landi, enda eru þeir hvorki framtalsskyldir né skattskyldir, aðeins bókhaldsskyldir. Þó er greinilegt að mikið fjármagn fer oft og tíðum gegnum fjárhirslur þeirra, ekki síst í kosningabaráttunni. Auk frjálsra framlaga eru íslenskir stjórnmálaflokkar fjármagnaðir úr ríkissjóði og það er einmitt það sem knýr ekki síst á um að setja lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna og að reikningar þeirra verði birtir opinberlega.

Herra forseti. Frv. er ítarlegt og þar er lagt til annars vegar að settur verði almennur lagarammi um starfsemi stjórnmálasamtakanna en hins vegar er kveðið á um fjárreiður þeirra. Segja má að það sem lýtur að fjárreiðum stjórnmálaflokkanna sé einkum tvíþætt. Það er í fyrsta lagi að stjórnmálasamtök verði framtalsskyld og gert að skila skattframtali en reikningar þeirra skuli endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum og birtir opinberlega.

Í öðru lagi að stjórnmálasamtökum verði óheimilt að taka við fjárframlögum eða ígildi þeirra frá einstökum aðilum sem fara yfir 300 þús. kr. á ári nema að birta nafn þess styrktaraðila opinberlega, en víða í vestrænum löndum hafa verið lögfestar strangar reglur í þessu sambandi til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.

Skortur á vönduðum vinnubrögðum í stjórnmálum og stjórnsýslu leiðir oft til trúnaðarbrests milli stjórnvalda og fólksins í landinu. Margt bendir til að ekki gæti nægilega faglegra vinnubragða í stjórnsýslu og stefnumótun hins opinbera á Íslandi. Lagafrumvarpi þessu er ætlað að setja stjórnmálamönnum reglur í starfi sínu innan flokkanna og gera starfsemi stjórnmálasamtaka og fjárreiður þeirra sýnilegri en áður hefur verið.

Herra forseti. Þegar mælt var fyrir þessu máli á undanförnum þingum óskaði ég eftir nærveru forsrh. við umræðu um þetta mál. Hann sýndi okkur þann heiður, að mig minnir á síðasta þingi, að vera viðstaddur umræðuna og láta í ljós álit sitt á þessu frv. sem hér er til umræðu. Það verður að segjast eins og er að viðbrögð hæstv. forsrh. vöktu mér ekki mikla bjartsýni um það að hann væri sérstakur áhugamaður um að ná fram löggjöf um fjárreiður stjórnmálaflokkanna.

En nefnd er að störfum á vegum forsrn. Forsætisráðherra skipaði nefnd árið 1994 til að fjalla um og undirbúa frumvarp til laga um fjárhagslegan stuðning við stjórnmálaflokka og þá þætti sem slíkum stuðningi tengjast. Nefnd hefur verið að störfum síðan 1994 og virðist lítt miða í störfum hennar og síðustu spurnir sem ég hef af starfinu er að hún hefur ekki komið saman í eitt ár. Því er ávallt borið við í umfjöllun nefnda um þetta mál að verið sé að vinna málið á vettvangi forsrn. Ég verð að segja, herra forseti, að ég er nú orðin ansi óþolinmóð að bíða eftir niðurstöðum þessarar nefndar vegna þess að allan vilja virðist vanta til að hún skili niðurstöðum sínum.

Þegar þing kom saman í haust lagði ríkisstjórnin fram málefnaskrá sína fyrir þetta þing og þar mátti sjá á málaskrá forsrn. að forsrh. hafði í hyggju að leggja þetta mál fram á þessu þingi. Ég er orðin ansi svartsýn á að það geti orðið, ekki síst þegar ég hef þær spurnir af starfi nefndarinnar að hún hafi ekki komið saman í eitt ár. Þess vegna hefði verið æskilegt, herra forseti --- og því dvel ég aðeins við þennan punkt --- að hæstv. forsrh. hefði verið viðstaddur umræðuna þannig að hann hefði getað upplýst þingið um hvað störfum nefndarinnar miðar og vil ég spyrja hvort hæstv. forsrh. sé í húsinu?

(Forseti (GÁS): Nei, hæstv. forsrh. er ekki í húsinu.)

Það er miður að þessari umræðu þurfi að ljúka án þess að við höfum fengið upplýst hvað starfi nefndarinnar miðar. Ég geri ráð fyrir að nefndin sem fær þetta mál til umfjöllunar muni kalla fulltrúa forsrn. fyrir þannig að hægt sé að frá fram, a.m.k. í umfjöllun nefndar um málið, hvað starfi nefndar forsrh. miðar í þessu efni.

Við samningu frv. hefur víða verið leitað fanga og reynt að nýta það sem hefur þótt vænlegt til eftirbreytni en það á sér enga beina fyrirmynd, hvorki innlenda né erlenda.

Sennilega var það á árinu 1975 að Benedikt Gröndal lagði fram frv. til laga um stjórnmálaflokka sem ekki náði fram að ganga. Í því frv. var að finna ítarleg ákvæði um starfsemi stjórnmálaflokka svo og reglur um fjárframlög til þeirra, en frv. náði aðeins til stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis. Einnig hefur Kvennalistinn, ef ég man rétt, flutt þingsályktunartillögu um að hugað verði að því að setja lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Þetta mál hefur því komið fyrir þingið í nokkur skipti án þess að það hafi verið útkljáð.

Í frv. því sem ég mæli fyrir er farin sú leið að setja lagaramma um starfsemi allra stjórnmálaflokka, einnig þeirra sem bjóða fram til sveitarstjórna, en ég sé engin haldbær rök fyrir því að stjórnmálasamtök sem bjóða fram til sveitarstjórna þurfi ekki að búa við nauðsynlegt aðhald löggjafans. II. kafli nær hins vegar aðeins til stjórnmálasamtaka sem bjóða fram til Alþingis, en í ákvæði til bráðabirgða II er lagt til að dómsmrh. undirbúi löggjöf í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga sem tryggi framboðum til sveitarstjórna framlög úr sveitarsjóðum.

Á Íslandi hefur lengi tíðkast að einstaklingar og fyrirtæki styrki fjárhagslega þá stjórnmálaflokka sem þeir styðja. Það getur vissulega skapað tortryggni að leynd skuli hvíla yfir háum styrkjum frá einstaklingum eða fyrirtækjum, enda er það óeðlilegt. Hætta getur vissulega einnig verið á hagsmunaárekstrum.

Auk frjálsra framlaga eru íslenskir stjórnmálaflokkar fjármagnaðir af ríkissjóði. Þetta er gert til þess öðrum þræði að jafna aðstöðu flokkanna. Það samræmist ekki hugmyndum manna um lýðræði ef aðeins fjárhagslega sterk samtök geta boðið fram til Alþingis. Í annan stað sporna ríkisstyrkir við þeirri tegund af fyrirgreiðslupólitík þegar stjórnmálasamtök verða óeðlilega háð styrktaraðilum.

[13:45]

Samkvæmt upplýsingum stjórnmálafræðinga við Háskóla Íslands er upplýsingaskylda stjórnvalda um fjárreiður undantekingalítið fyrir hendi í nágrannalöndum okkar. Innan stjórnmálafræðinnar er talið nauðsynlegt að stjórnmálaflokkar geri grein fyrir fjárreiðum sínum hvort sem um er að ræða ráðstöfun fjármuna af opinberu fé eða framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum. Slík lagasetning í anda þess sem frumvarpið gerir ráð fyrir er nauðsynleg til að eyða tortryggni og auka tiltrú almennings á stjórnmálaflokkum og lýðræðislegum stjórnarháttum.

Í umræðum sem verið hafa á undanförnum árum á Alþingi um frv. hafa komið fram ýmsar ábendingar sem ég tel rétt að nefndin, sem fær málið til skoðunar, kanni sérstaklega. Má þar t.d. nefna hvort hámark eigi að vera á leyfðum framlögum einstaklinga og fyrirtækja til stjórnmálasamtaka, hvort aðskilja eigi kosningastarf frá annarri starfsemi stjórnmálaflokka, hvort setja eigi reglur um prófkjör, þar með talinn fjárhagslegan ramma þeirra, hvort takmarka eigi umfang auglýsinga í kosningabaráttu, hvort setja eigi reglur um birtingu skoðanakannana rétt fyrir kjördag og hvort þingmenn eigi að leggja fram lista yfir öll störf og þátttöku í nefndum utan þings.

Öll þau atriði, sem ég hef nefnt og ábendingar hafa komið fram í umræðum manna í þingsölum um málið, tel ég þess virði að eigi að skoða sérstaklega og t.d. hafa oft komið fram hugmyndir og tillögur um að setja eigi fjárhagslegan ramma sem takmarkar umfang auglýsinga í kosningabaráttuni.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að mótaðar verði lögbundnar reglur um ríkisframlög sem allir stjórnmálaflokkar geti gengið að. Rétt þykir að hafa sérstök lagaákvæði um sérfræðiaðstoð fyrir þingflokka, enda eru greiðslur fyrir sérfræðiaðstoð eingöngu ætlaðar, eins og nafnið bendir til, til aðstoðar þingflokkum. Með því að fella lög nr. 56/1971, um sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokka, inn í frumvarpið verður sjónarmiðum um lagasamræmi náð og krafan um eftirlit með ráðstöfun styrksins verður virkari.

Þegar ég hef mælt fyrir þessu frv. á undanförnum þingum hef ég ávallt lagt áherslu á hve brýnt væri að lögfesta frv. um fjárreiður stjórnmálasamtaka og ég held að þeir atburðir sem urðu í ársbyrjun sýni ljóslega að mjög brýnt er að þingið manni sig upp í að setja lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Það er einu sinni svo að aðeins sérfræðiaðstoðin hefur raunverulega lagastoð en önnur fjárframlög, sem eru einungis samþykkt á fjárlögum, sem fara til annars en sérfræðiaðstoðar. Það á sér því ekki lagastoð nema í fjárlögum og það hef ég gagnrýnt vegna þess að það er stærsti liðurinn í þeim tæplega 180 millj. sem rennur á fjárlögum til stjórnmálaflokkanna.

Ég hef líka gagnrýnt, herra forseti, að nefnd óháðra aðila utan þings skuli ekki ákveða hve há fjárlög eða tillögur um hve háum fjárlögum er varið til stjórnmálaflokka af opinberu fé heldur séu það þingflokkarnir sjálfir sem ákveði hverju sinni hver sú fjárhæð eigi að vera.

Ég held líka að það hafi komið í ljós síðustu vikum að sú nefnd sem hefur það verkefni utan þings að útdeila þessu fé síðan til stjórnmálaflokkanna vinnur eftir mjög ómarkvissum og ósamræmdum reglum og líka hefur komið fram að hún hefur beitt --- ég vil leyfa mér að segja það --- geðþóttaákvörðunum þegar hún hefur ákvarðað hvernig þingmenn utan flokka á hverjum tíma hafa fengið framlög.

Ég ætla ekki að rifja umræðuna frekar upp sem hefur farið fram á síðustu vikum um þetta mál þó að ég gæti vissulega gert það en vil einungis benda á, herra forseti, að hún tekur af allan vafa, ef einhver hefur velkst í vafa um að það væri nauðsynlegt að setja lög um fjárreiður stjórnmálaflokka. Við verðum að geta búið við það að ekki ríki tortryggni úti í þjóðfélaginu í garð stjórnmálaflokkanna um þessi framlög, hvernig þau eru ákvörðuð og hvernig þeim er ráðstafað og auðvitað er grundvallaratriði að flokkarnir séu framtalsskyldir og skili skattframtölum. Ég held að segja megi að allir stjórnmálaflokkar, að ég best veit, hafi birt ársreikninga sína með einum eða öðrum hætti opinberlega nema þá Sjálfstfl. sem er athyglisvert út af fyrir sig. Það er með misjöfnum hætti sem stjórnmálaflokkarnir hafa birt opinberlega reikninga sína. En ef það er gert eins og hér er lagt er til, þar sem væri um samræmd reikningsskil að ræða, þá væri miklu meiri festa í öllum þessum málum og markvissara staðið að því af hálfu stjórnmálaflokkanna að kynna opinberlega ársreikninga sína.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. nema tilefni gefist til. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til 2. umr. og allshn.

Herra forseti. Þetta frv. hefur gengið til allshn. á síðustu þremur þingum. Segja má að það hafi nánast enga umfjöllun fengið á þremur síðustu þingum í allshn. nema að málinu hefur verið vísað til nefndar þrátt fyrir ítrekaða tilraun flm. sem á sæti í þeirri nefnd að fá umfjöllun um málið í allshn. Því mun ég leggja mikið kapp á að nefndin fjalli nú um málið og eftir atvikum mun ég leita atbeina forseta til að málið verði tekið þar fyrir ef nauðsyn krefur.