Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 14:13:43 (3833)

1998-02-13 14:13:43# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[14:13]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Vestf. yfirgripsmikla ræðu þar sem drepið var á ýmis mál. En eitt atriði í ræðu hans kallar mig upp í ræðustól. Það var að sá annars ágæti og sómakæri hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, skuli hafa verið að fiska í gruggugu vatni með dylgjur um lausafregnir frá árum áður, um meint fjármagn til Alþfl. frá systurflokkum. Hér bætti hann um betur og heldur því fram að ekki hafi verið um að ræða stuðning og samvinnu systurflokka heldur bandaríska dollara frá leyniþjónustunni CIA. Ég átti nú von á öðru en að menn færu að hræra í þessu grugguga vatni og hafa uppi þessar dylgjur. Þær eru auðvitað ekkert annað en órökstuddar vangaveltur sem hefur fyrir löngu verið vísað frá sem fullkomnum ósannindum.

Hins vegar vakna upp spurningar í þessu sambandi. Umræðan var á sínum tíma og hefur allar götur síðan verið á ákveðnum villigötum þegar kemur að samskiptum stjórnmálaflokka við systurhreyfingar í útlöndum.

Ég vek á því athygli að enginn hefur nokkru sinni gert við það athugasemdir þegar systursamtök verkalýðshreyfingarinnar styðja við Íslendinga og öfugt í verkfallsátökum með fjárframlögum og öðru slíku. Ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar og er enn, að að mörgu leyti eru það eðlilegri samskipti að stjórnmálahreyfingar þvert á lönd styðji hver aðra í baráttu sinni fyrir sameiginlegum hugsjónum, geri það fyrir opnum tjöldum, heldur en hitt að stjórnmálaflokkar hér eigi það undir innlendum fyrirtækjum, ég nefni gamlar gróusögur í því sambandi, samvinnuflokkinn og Framsóknarflokkinn. Það er auðvitað gjörsamlega eðlisólíkt þegar við erum að ræða um mikilvægi þess að alþingismenn og stjórnmálaflokkar séu óháðir óeðlilegum þrýstingi. Það eru þeir auðvitað eftir sem áður þó að þeir njóti samstarfs við systurhreyfingar í stjórnmálum.