Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 14:25:06 (3838)

1998-02-13 14:25:06# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[14:25]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Það skýrist nú margt í þessari umræðu. En hins vegar sýnist mér ef þetta væri markmið að það væri þá miklu skynsamlegra að fara að dæmi Þjóðverja sem setja bara ákveðnar reglur um það hvað þingmenn yfir höfuð megi hafa miklar tekjur fram yfir það að vera þingmenn og það sé þá eitthvert jafnræði í því. En það er ekkert vafaatriði að það hefur komið mjög sterkt inn í þessa mynd, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að þingmenn hafa verið láglaunahópur miðað við ýmis önnur félagsleg störf sem menn hafa verið að vinna. Bæjarstjórar eða sveitarstjórar svo maður nefni dæmi um störf, hafa oft verið miklu betur launaðir. Það hefur kallað á það sem má kalla sérkenni Íslands í þessum efnum að menn hafa verið í tveimur stöðum oft og tíðum. Og kannski var það grunnurinn að því að menn gætu verið fjárhagslega sjálfstæðir og staðið þannig fastari fyrir, að þeir hefðu meiri tekjur.

En á sama tíma og forseti ASÍ hefur komið fram og hellt sér yfir þingmenn fyrir laun þá hafa allir vitað að hann hefur verið á tvöföldum launum á við þingmenn. Það er því ekkert skrýtið þó að spurt sé: Hvert er markmiðið?

Ég held nefnilega að það sé staðreynd að allar svona reglur eins og þarna er verið að tala um, ef þjóðin vill ákveðna hluti þá kemur það fram í kosningum hvaða leikreglur hún vill að gildi. Ef stjórnmálaflokkum er refsað fyrir það í kosningum að þeir hafa t.d. haft þennan háttinn á og misnotað það, þá á það að koma fram í kosningunum sjálfum. Þjóðin á að vera sá aðhaldsaðili sem lítur eftir þingmönnum umfram alla aðra.