Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 14:28:23 (3840)

1998-02-13 14:28:23# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[14:28]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Það gætir viss misskilnings hjá hv. þm. varðandi það að meginatriði þingsins er að setja lög og samkvæmt því skipulagi sem hér er, þá búum við ekki við þrískiptingu valdsins. Við búum við það að Alþingi Íslendinga ber ábyrgð á framkvæmdarvaldinu. Við búum við það kerfi að við höfum forsætisráðherra sem ber ábyrgð en ekki forseta sem ber ábyrgð. Þess vegna er ávallt rúmur helmingur þingsins og vel það ekki í eftirlitshlutverkinu. Hann er í því að stjórna landinu beinlínis í gegnum þessa ráðherra sína. Þetta er sannleikurinn um íslenska kerfið. Þetta veit hv. þm. mætavel, hefur verið ráðherra í ríkisstjórnum Íslands. Eftirlitshlutverkið er ekki höfuðhlutverk íslenska þingsins eins og það er útbúið, við erum ekki með bandaríska þingið. Ef Íslendingar vilja breyta þessu, sem væri siðbót út af fyrir sig, þá eigum við að leggja það niður að hafa forsætisráðherra. Þá eigum við að fela forsetanum völdin og hafa þrískiptingu valdsins. Það er grundvallaratriðið. Og þá yrði virkileg siðbót í þessum efnum því að þá fengi Alþingi annað hlutverk. Þá yrði það orðið eftirlitsaðilinn ásamt löggjafanum en ekki að það væri að vasast í framkvæmdarvaldinu.

En mér finnst út í hött að telja að þingmaður geti borið ábyrgð á fjárreiðum ríkissjóðs, stærsta sjóðnum sem um er að ræða. Hvaða sjóður er stærri? Getur það verið meiri spilling að láta mann í stjórn hjá sjóð sem er kannski með 10 millj. en setja mann í stjórn á ríkissjóði sjálfum, sem er stærsti sjóðurinn, sem er með á annað hundrað milljarða undir höndum? Ég næ ekki áttum í því að hægt sé að sakfella annan en undanskilja hinn.