Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 14:30:47 (3841)

1998-02-13 14:30:47# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[14:30]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka. Nýlega er afstaðið hið árlega fárviðri í fjölmiðlum sem á sér gjarnan stað um það leyti sem þingið samþykkir árleg framlög sín til stjórnmálaflokkanna og þegar þeim fjármunum er úthlutað. Við síðustu úthlutun kom glöggt í ljós hve reglur þær sem stuðst hefur verið við eru óskýrar, einkum er varðar stöðu þingmanna utan flokka.

Í allri þessari vinnu kom fram merk yfirlýsing frá formanni þeirrar nefndar sem sér um að úthluta þessu fé um að þörf væri á að setja lög eða a.m.k. skýrari reglur um þessi mál. Þetta var afar merkileg yfirlýsing í ljósi þess að það hefur verið afstaða fulltrúa Sjálfstfl. í þeim nefndum, sem skipaðar hafa verið til að smíða slík lög, að Sjálfstfl. sé á móti opinberum stuðningi við stjórnmálaflokka. Þótt afstaðan hafi verið skýr og kannski vegna þess, hefur það fjármagn sem veitt hefur verið til starfsemi stjórnmálaflokka verið hálfpartinn falið með því að það hefur verið kallað útgáfustyrkur til þingflokka. Þróun úthlutunarreglnanna hefur verið athyglisverð þar sem stærsti stjórnmálaflokkurinn virðist smám saman hafa hagnast á þeim breytingum sem gerðar hafa verið. Til dæmis var 47% af upphæðinni varið þannig að skipt var jafnt milli þingflokka fyrst þegar Kvennalistinn kom að þessum málum, árið 1984, en nú er þessi upphæð komin niður í 12,5% og síðan fer úthlutunin eftir atkvæðum í síðustu kosningum. Með öðrum orðum hefur Sjálfstfl. hagnast mest á því ástandi sem ríkt hefur og þrátt fyrir andstöðu hans við að opinbert fé fari til stjórnmálaflokkanna fær hann mest. Nú tel ég að sú skoðun eigi sér æ fleiri talsmenn að það beri að setja skýrari reglur og helst lög um þessi mál og ég fagna því svo sannarlega ef þeirri skoðun er að vaxa fylgi innan Sjálfstfl. sem og annarra flokka.

Við kvennalistakonur höfum flutt þáltill. á Alþingi um að sett verði lög um þessi mál og því fögnum við því frv. sem liggur fyrir og er til umræðu. Fyrsti flm., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hefur gert skýra grein fyrir frv. og ég ætla því ekki að fara efnislega nákvæmlega í einstakar greinar þess. Ég tel að frv. eigi að fá alvarlega skoðun, hvort sem það verður notað sem hinn endanlegi grunnur fyrir löggjöf eða skýrari reglur um þessi mál sem sátt næst um á Alþingi. Ég sit í hv. allshn. og mun styðja að þetta mál fái alvarlega umræðu þar en það er rétt, eins og kom áðan fram, að þótt þetta frv. hafi verið lagt fram nokkrum sinnum hefur það aldrei fengið efnislega umræðu í nefndinni, fremur en mörg önnur stjórnarandstöðufrv.

Að mínu mati er tími til kominn að íslenska þjóðin og forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna viðurkenni að opinberir styrkir til stjórnmálaflokka eru liður í því að styrkja lýðræðið í landinu. Ég hef kynnt mér hvernig þessum málum er fyrir komið í nágrannalöndunum og það er alveg ljóst að víðast hvar þykir eðlilegt að opinbert fé sé veitt til þessara mála. Annað býður upp á spillingu og skerðir lýðræðið.

Varðandi ábendingu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar áðan um að 4. gr. frv. stríði gegn starfsemi Kvennalistans ég ekki verið sammála honum um það en í 4. gr. segir: ,,Stjórnmálasamtök skulu gæta jafnræðis milli félagsmanna sinna í starfi sínu og skipulagi.`` Karlar eiga rétt á að ganga í Kvennalistann og þar eru vissulega nokkrir karlar meðlimir en það þarf þó alls ekki að tryggja að þeir komist á framboðslista eða í fulltrúastöður. Ég leyfi mér að fullyrða að hlutfallslegt misrétti sé ekki meira innan Kvennalistans en í öðrum flokkum, þ.e. þar eru víðast hvar margar konur meðlimir en ákaflega fáar sem komast í fulltrúastöður. En þessa grein þarf hv. nefnd að sjálfsögðu að kanna vel eins og aðrar og ég mun svo sannarlega vera til í þá umræðu.

Annað sem kom fram í orðum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar var að í Bandaríkjunum sé stuðningur beint við þingmenn en ekki við stjórnmálaflokka. Mér er ekki ljóst hvort hann er þarna að tala um eitthvað sem við mundum kalla sambærilegt við sérfræðiaðstoð, eða hvort hann er að tala um það sem við köllum útgáfumál þingflokka þannig að ég get ekki rætt það nákvæmlega. Ég velti því fyrir mér hvort þetta fyrirkomulag í Bandaríkjunum skýri hugtök sem voru t.d. notuð í greinargerð þeirrar nefndar sem úthlutaði styrk til stjórnmálaflokkanna þar sem talað var um þingmannshluta sem er að mati okkar út í hött vegna þess að skiptingin og sú regla sem hefur verið notuð er sú að 12,5% hefur verið skipt jafnt milli þingflokka og hinum 87,5% til flokkanna eftir atkvæðum í síðustu kosningum. Ég tel að þarna séu hugsanlega einhver áhrif frá bandarísku kerfi sem fram kom hjá formanni þessarar nefndar en hér hefur yfirleitt ekki verið talað um þingmannshluta vegna þess að þetta er skiptiregla sem hefur ávallt verið notuð um þessa upphæð, a.m.k. svo lengi sem ég veit til. Það er hins vegar nokkuð frábrugðið með sérfræðiaðstoðina því að hún fer annars vegar eftir þingmannafjölda og hins vegar fer samkvæmt lögum nokkur hluti til þingflokka.

Ég skal ekkert fullyrða um það, hæstv. forseti, hvaða reglur eigi að nota ef ný lög verða sett, en vek athygli á því að víða tíðkast sú regla að flokkur sem er í stjórnarandstöðu fær meira fé en flokkar sem eru í stjórn vegna þess að stjórnarflokkarnir eiga yfirleitt mun greiðari aðgang að sérfræðingum ráðuneyta og ríkisstofnana en stjórnarandstaðan. Þetta ætti að mínu mati að hafa í huga en lykilatriðið er að reglur verði skýrar og helst lögbundnar þannig að ekki verði hentistefna sem ræður því hvernig úthlutun er hverju sinni.

Hæstv. forseti. Að lokum tek ég fram að öll fjármál Kvennalistans eru yfirfarin af löggiltum endurskoðendum og fjármálin og reikningarnir eru opnir hverjum sem vill. Svona hefur þetta verið lengi. Samtökin kosta miklu til og leggja mjög mikla áherslu á að allar fjárreiður Kvennalistans séu á hreinu. Samtökin gefa út tímaritið Veru og tvö fréttabréf og þau voru skuldlaus við síðustu áramót.

Virðulegi forseti. Vonandi verður það að veruleika fyrir næstu áramót að þessi mál verði komin í betra horf en þau eru nú. Fulltrúi Kvennalistans í nefnd þeirri, sem á formlega að vera að búa til lög eða reglur um þessi mál, hefur beðið um fund í nefndinni eða mun gera það á næstu dögum í þeirri von að flýta fyrir málefnalegri lausn á þessu mikilvæga lýðræðismáli og að þegar til næstu úthlutunar kemur geti málið gengið friðsamlega fyrir sig.