Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 15:00:26 (3844)

1998-02-13 15:00:26# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[15:00]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég var ekki kominn á leiðarenda að fjalla um greinar frv. og ætla að snúa mér að 10. gr. þar sem sett er hámarksupphæð um hvað einstaklingur eða félag má greiða til stjórnmálasamtaka án þess að þess sé getið hver sá einstaklingur er. Þetta er út af fyrir sig fallegt á pappírnum en ég held að í framkvæmd yrði þetta þannig að það yrði enginn sem færi yfir þessa upphæð. Það yrðu bara skrásettir ótal margir leppar sem sæju um að koma þessum peningum á framfæri. Ég sé ekki að það ætti að vera mikið vandamál fyrir stjórnmálaflokkana yfir höfuð að gæta þess að enginn borgaði nema 299.990 kr. Það er nefnilega svo að hægt er að fara í kringum þetta út og suður. Það er líka hægt að fara í kringum þetta á þann hátt að flokkarnir gefa út happdrættismiða og þeir seldir. Það er hvergi skylda að skrá það hver kaupir happdrættismiðana. Hver ætlar að segja fyrir um það ef Sjálfstfl. gefur út happdrættismiða að eitthvert stórfyrirtæki kaupi ekki bara helminginn af miðunum? Hvernig ætla menn að sjá við þessu? Heldur þetta? Eru menn ekki að útbúa sér leikreglur sem eru einskis virði vegna þess að þær halda ekki nokkurn skapaðn hlut? Mér sýnist nefnilega að það þurfi að hugsa þetta mjög ,,grundigt``. Ef menn eru í alvöru að setja svona lagað upp í þeirri trú að þeir séu að skapa einhverjar leikreglur væri miklu meiri spurning að setja þak, hversu mikið stjórnmálaflokkur mætti vera með af fjármunum miðað við hvern alþingismann í umferð í kosningum, en þá vaknar hin spurningin: Er ekki hægt að fara í kringum það líka? Geta fyrirtæki ekki haft starfsmenn á launum og skráð þá hjá sér, en látið í reynd viðkomandi starfsmann vinna fyrir stjórnmálaflokk? Er sú leið ekki opin? Er ekki hægt að skrá síma á einhvern annan en þann sem borgar hann? Leyninúmer sem hringt er úr. Það eru ótal möguleikar. Er ekki hægt að hafa rangt verð á húsnæði? Geta ekki stéttarfélög komið inn í þetta mál líka og notað sína starfskrafta, sem þeir eru með þó nokkuð mikið af, til að taka þátt í aðalátökum kosninga, og er þetta ekki einnig gert? Heldur þetta?

Ég ætla að víkja örlítið aftur að 3. og 4. gr. og lesa þær saman, því ég las 4. gr. þegar ég vakti athygli á því að mér sýndist að Kvennalistinn yrði útilokaður. Ef 3. og 4. gr. eru lesnar saman gæti það t.d. gerst að Sjálfstfl. tæki ákvörðun um að 5.000 félagar í Reykjavík skyldu allir ganga í Kvennalistann. Það er skylda samkvæmt 3. gr. að taka á móti þeim. Og svo er næsta kvöð. Það er skylda að hafa jafnræði meðal þeirra sem eru komnir í félagið. Og þá er ég nú hræddur um að þrátt fyrir að hv. 19. þm. Reykv., Guðný Guðbjörnsdóttir, sé sannfærð um að þær héldu velli, er ég ekki viss nema svo færi að þær lentu bara undir Sjálfstfl. undir þessum kringumstæðum. Ég er bara ekki viss nema það mundi gerast. Þær yrðu þá að safna ansi vel liði ef þær ættu að sleppa. Það er nefnilega kannski hollt að hugleiða þetta dálítið út frá því hvernig slíkt kerfi hefði virkað þegar þeir sem stjórnuðu landinu eða öðrum löndum vildu hafa svona kerfi til að koma stjórnarandstöðu undir. Hvernig hefði Hitler notað slíkt kerfi? Hefði hann haft dómsmálaráðherra til að taka á móti skráningum og þar fram eftir götunum? Hefði hann tapað gögnunum? Týnt þeim bara, eða nokkurn tímann tekið á móti þeim? Það hafa nú horfið pappírar hér hjá embættum. Ég veit ekki betur en Alþfl. hafi verið krítískur á dómsmrn. En allt í einu á að setja allt traust á dómsmrn. Er búið að ræða þetta mál við þingmann flokksins frá Suðurlandi, ég spyr nú bara beint að því, ef þetta er skipulagið? Er eitthvað sem segir að Alþingi Íslendinga sé í þeirri stöðu, og þingið og flokkarnir, að það þurfi nauðsynlega að setja þetta undir framkvæmdarvaldið? Geta menn þá ekki alveg eins treyst forseta þingsins til að taka á móti skráningu stjórnmálaflokka í landinu? Eða er talið fullvíst að þar sitji slíkur skúrkur að honum sé síður treystandi en dómsmrh.? Þetta verða menn að gera upp við sig. Vilja menn endilega að þingið sé alltaf sett undir framkvæmdarvaldið, að passað sé vel upp á það? Ég segi nei.

Ég vil undirstrika það, alveg eins og mér er ljóst að ég hygg að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi noti löggilta endurskoðendur til að fara yfir sína reikninga, gæti verið jákvætt að láta birta þessa reikninga. Það gæti verið jákvætt, og að setja einhverjar leikreglur um það. En ég vara mjög ákveðið við því að menn falli niður í gryfjuna sem farísearnir fóru í forðum, að setja reglur um allt og trúa að þeir hafi frelsað heiminn með tiltækinu. Þeir voru búnir að ganga þannig frá því að ef asninn datt í brunninn á sunnudegi mátti ekki hífa hann upp. Menn urðu að standa hringinn í kringum brunninn og horfa á hann drukkna þar og eitra vatnið fyrir fjölskylduna. Þannig voru reglurnar. Það mátti heldur ekki lækna sjúka á sunnudegi. Þeir urðu að deyja drottni sínum. Farísearnir voru með þetta allt á hreinu og höfðu reglur fyrir alla hluti.

Ég vona að þeir sem setjast niður og skoða þetta átti sig á því að það eru hin óskráðu siðalögmál samfélagsins sem hljóta að fylgja hverri þjóð og það er það sem gerir þjóð að menningarþjóð og aðgreinir hana frá öðrum þjóðum sem láta það gerast trekk í trekk að einræðisherrar hrifsi völdin og haldi þeim. Spurningin er hve rík er lýðræðisástin í brjósti íslensku þjóðarinnar, hefur hún þrek til að fylgja því eftir? Þarf alltaf að vera einhver húsbóndi sem skipar fyrir sem siðameistari? --- Svona átt þú að vera. Ég held að það sé ekki gott kerfi. Ég held að aðhaldið hljóti alltaf að verða að koma frá kjósendunum í landinu. Þeir setja þessa menn til valda. Ef þeir bregðast eru það kjósendurnir sem eiga að setja þá af. En ég er líka sannfærður um að bandarískt lýðræði er miklu fullkomnara en það íslenska og miklu meira vald sem kjósendur þar hafa til að hafa áhrif í kosningum en hér á landi. Þeir fá að kjósa um miklu fleira og það er miklu eðlilegra.

Ég vil líka minna á, af því við erum að takast á um þessa hluti, að núverandi forseti Íslands flutti mjög athyglisvert frv. á Alþingi Íslendinga sem snerist einmitt um skiptingu valdsins, þ.e. hverjir ættu að skipa hæstaréttardómara, og taldi að það ætti að vera þingið sem hefði neitunarvald gagnvart skipuninni en ekki bara ráðherra einn sem skipaði þá. Ég teldi það mikla framför ef þetta kæmist á. Og ég ekki með neinar aðdróttanir til þeirra dómsmálaráðherra sem hafa skipað menn í þessar stöður. Ég er aðeins að undirstrika að með þessu móti mundu þeir líka losna við að hafa einhverja leppalúða á herðunum sem endilega teldu að þeir ættu nú rétt á starfinu þótt flestir aðrir vissu að þeir væru ekki hæfir til starfsins. Það væri hægt að segja: Við getum prófað hvort þingið samþykkir.

Ég veit að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flytur þetta frv. í góðri trú. Það er ég sannfærður um. Ég hef verið á Alþingi alllengi með þeim þingmanni og mér er ljóst að góðar hugmyndir eru á bak við, þ.e. viljinn til að skapa meira réttlæti, en hættan liggur í því ef menn trúa að hægt sé að stjórna öllu með reglum og lögum. Það er ekki hægt að stjórna siðvæðingu þjóðar með reglum og lögum. Það verður að koma innan frá að miklu leyti.