Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 15:12:33 (3846)

1998-02-13 15:12:33# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[15:12]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að allmargir hafi tekið þátt í þeim prakkaraskap á Íslandi að vilja hafa áhrif í skoðanakönnun á önnur stjórnmálaöfl en þeir hafa stutt í gegnum tíðina. Ég held að það sé ekkert nýtt og benti einfaldlega á þá leið sem þarna væri opnuð. En út af fyrir sig hef ég engar áhyggjur af 3. gr. Hún stenst einfaldlega ekki stjórnarskrána, svo einfalt er það mál. Félagafrelsi byggist á því annars vegar að mega stofna félög og mega setja sér reglur um hvaða skilyrði menn þurfa að uppfylla til að geta gengið í þau félög. Menn yrðu þá að afnema stjórnarskrána ef þeir ætluðu að gera þetta ákvæði að lögum. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu því þetta er út af fyrir sig bara nokkuð sem mönnum getur dottið í hug að setja í lög en hefur þó ekki lagagildi.

Hitt er svo annað mál að við erum eftir ýmsum leiðum að reyna að skapa leikreglur sem við teljum góðar og heiðarlegar og mönnum finnst að þá eigi ekki að horfa neitt á hvernig hægt væri að fara í kringum þær. Það sé bara hlutur sem eigi ekki að líta á. Samt er það nú svo t.d. þegar við setjum skattalög, þá hefur það fyrst og fremst gildi í lagasetningunni hvort mönnum hafi tekist að búa lögin þannig úr garði að ekki sé auðvelt að fara í kringum þau. Hafi það mistekist hefur lagasetningin sem heild líka mistekist. Það var þetta atriði sem ég vildi vekja athygli á, en ekki hitt að einhver einn sérstakur stjórnmálaflokkur þyldi þetta ekki. Ég held það yrði svo að ekki nema einn stjórnmálaflokkur gæti þolað það að öllum væri alveg frjálst að ganga í hann. Ég held að hinir hafi ekki fjölmenni til að ráða sínum málum ef það væri þannig að allir mættu ganga í alla stjórnmálaflokkana.