Fæðingarorlof

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 15:29:48 (3851)

1998-02-13 15:29:48# 122. lþ. 67.6 fundur 265. mál: #A fæðingarorlof# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[15:29]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom ekki fram áðan í andsvari hjá mér að þessi hópur hefur ekki erindisbréf sem slíkt. Þetta er hópur sem er að vinna að samhæfingu varðandi fæðingarorlofsmálin. Ég ætlast ekki til að hópurinn komi með endanlegar tillögur því eins og ég sagði áðan þá verða fulltrúar vinnumarkaðarins að koma að því máli, launþegar fyrst og fremst. Hv. þm. spurði líka að því að hverju hópurinn væri að vinna og það kom skýrt fram í ræðu minni að hverju við erum að vinna. Við erum fyrst og fremst að vinna að því að jafna rétt foreldra til fæðingarorlofs og í öðru lagi að lengja það. Þessi tvö atriði eru grundvallaratriði og hópurinn er að koma sér saman um hvernig þeim verður best framfylgt, áður en við köllum til þá sem ég hef hér um rætt og ... (JóhS: En stjórnarandstaðan ...) Hv. þm. kallar fram í og spyr hvort stjórnarandstaðan komi að þessu á frumstigi. Reynsla okkar er sú varðandi svo viðamikil og flókin mál að mikilvægt er að hafa stjórnarandstöðuna með, en fyrst og fremst, af því þetta er samningamál við aðila vinnumarkaðarins, verðum við að vera komin lengra í því áður en stjórnarandstaðan er kölluð til.