Setning reglna um hvalaskoðun

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 16:37:58 (3859)

1998-02-13 16:37:58# 122. lþ. 67.15 fundur 264. mál: #A setning reglna um hvalaskoðun# þál., Flm. KH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[16:37]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um setningu reglna um hvalaskoðun sem er þskj. 332.

Flm. eru auk mín hv. þingmenn Árni M. Mathiesen, Guðrún Helgadóttir, Ingunn St. Svavarsdóttir og Össur Skarphéðinsson.

Eins og flestum mun vera ljóst er ferðaþjónusta sú grein atvinnulífsins sem vaxið hefur og dafnað hvað mest hér á landi á undanförnum tveim áratugum. Vægi hennar í þjóðarbúskapnum er orðið mjög verulegt. Á síðasta ári mun tala erlendra ferðamanna hafa orðið liðlega 200 þúsund og gjaldeyristekjur af þeim numu um 22 milljörðum kr. Erfiðara er skiljanlega að kasta tölu á innlenda ferðamenn en engum dylst að Íslendingar ferðast nú orðið miklu meira um eigið land en á árum áður og skila miklum tekjum inn í ferðaþjónustuna.

Augljóst er hvert helsta aðdráttaraflið er á ferðamenn, hvort heldur þeir eru innlendir eða erlendir. Fyrst og fremst er það sérstætt og fagurt landslag og íslensk náttúra í sinni fjölbreytilegu mynd. Langt fram á allra síðustu áratugi fólst íslensk ferðaþjónusta nánast í því einu að sinna brýnustu þörfum þeirra gesta sem komu til að skoða íslenska náttúru, flytja þá á milli staða, selja þeim mat og gistingu og leiðsögn eftir þörfum. Hins vegar má líkja því við sprengingu er menn áttuðu sig á þeim möguleikum sem felast í afþreyingu af ýmsu tagi. Ég ætla ekki að eyða þeim fáu mínútum sem ég hef í að telja þá möguleika upp eða lýsa nánar þróuninni á þessu sviði en sný mér að tilefni þeirrar tillögu sem hér er á dagskrá.

Æ fleiri íslenskum ferðafrömuðum hefur orðið það ljóst að hafið umhverfis landið er ekki aðeins nýtilegt til veiðiskapar heldur býr það yfir ótal möguleikum til nýtingar í þágu ferðaþjónustu. Nú er siglt með ferðamenn til að sýna þeim eyjar og fuglabjörg, boðið upp á sjóstangaveiði og skoðunarferðir á torsótta staði af landi. Nýjasti möguleikinn er hvalaskoðun. Ljóst er að hvalaskoðun felur í sér mikla möguleika ekki bara á sjó heldur einnig á landi. Víða er unnið að markaðssetningu þessarar tegundar ferðaþjónustu. Mest eru umsvifin þó á Húsavík. Þaðan fóru um 14 þúsund ferðamenn í skipulagðar hvalaskoðunarferðir á liðnu sumri og er búist við um 18 þúsund manns í slíkar ferðir sumarið 1998. Þar er nú í undirbúningi opnun Hvalamiðstöðvar, upplýsinga- og fræðslumiðstöðvar þar sem frætt verður um lifnaðarhætti hvala og sögð saga hvalveiða og nýtingar hvalaafurða á liðnum árum og öldum. Ætlunin er að opna Hvalamiðstöðina á hafnarsvæðinu vorið 1998. Þar hefur reyndar einnig verið sett á stofn Strandmenningarsetrið sem býður ekki aðeins upp á hvalaskoðun heldur ferðir og fróðleik af ýmsu tagi sem tengist hafinu og ströndum landsins.

Ég tel þó óhætt að fullyrða að það eru hvalirnir sem hafa mesta aðdráttaraflið í þessum ferðum. Þátttakendur í skoðunarferðum eru aldeilis ekki sviknir. Ég hef undir höndum logg-bók sumarsins 1997 frá Norðursiglingu á Húsavík. Þar segir að farið hafi verið í 384 ferðir sumarið 1997. Af þessum 384 ferðum sáust hvalir í 382 ferðum. Árangurinn var sem sagt 99,5%. Hrefnur sáust í 363 ferðum, höfrungar í 144 ferðum, hnísur í 35 ferðum, hnúfubakar í 26 ferðum, steypireyðar í 15 ferðum, andanefjur í sjö ferðum, háhyrningar í 5 ferðum og langreyðar í 4 ferðum.

Ferðirnar voru farnar frá apríl til september, flestar í júlí eða 152. Alla þessa mánuði nema einn var 100% árangur. Aðeins í ágúst brást það í tveimur ferðum af 109 að hvalir sæjust. Þessi árangur mun vera á heimsmælikvarða. Sérfræðingar álíta að í þessum efnum séu nánast hvergi jafngóðir möguleikar á því að sýna hvali og hér við land. Því má með sanni segja að hvalaskoðun er leið til umhverfisvænnar nýtingar hvala hér við land. Sérfræðingar telja raunhæft að reikna með að fjöldi hvalaskoðenda muni tvöfaldast á næstu árum og verði komin í 40 þúsund um aldamótin.

Áætlað er að heildartekjur þjóðarbúsins af hvalaskoðun hafi numið allt að 860 millj. kr. á síðasta ári. Margir ætla að talan sé hærri en að sumu leyti er vandasamt að áætla fjöldann. Við skulum halda okkur við þessa tölu, að hún sé a.m.k. í kringum 860 millj. kr. á síðasta ári og geti orðið á annan milljarð eftir tvö til fjögur ár ef þróunin verður sú sem ætlað er. Vegna þessa er mikið í húfi að uppbygging greinarinnar verði á faglegum forsendum og fyllsta öryggis gætt.

Umferð báta í námunda við hvali er nú þegar nokkur og fer vaxandi. Sjálfsagt er að gæta varfærni í umgengni við þá, tryggja að dýrin verði ekki fyrir skaða og að mönnum og bátum stafi ekki hætta af hvölunum. Alþjóðahvalveiðiráðið hefur nýverið sett reglur um hvalaskoðun og þau lönd sem boðið hafa upp á hvalaskoðun um árabil hafa einnig sett sér reglur um þessa atvinnugrein sem hafa má til hliðsjónar við samningu reglugerðar fyrir hvalaskoðun hér við land. Okkar tillaga gerir ráð fyrir því.

[16:45]

Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík og leiðsögumaður í hvalaskoðunarferðum hér við land síðustu fimm ár, hefur mótað eftirfarandi tillögur að lágmarksreglum sem hafa beri í heiðri við hvalaskoðun. Þessar tillögur taka mið af reglum sem tíðkast í löndum sem boðið hafa upp á hvalaskoðunarferðir um árabil. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þær upp:

1. Ávallt skal farið eftir almennum reglum sjófarenda og öryggisákvæðum Siglingastofnunar ríkisins.

2. Í upphafi ferðar skal kynna öryggisútbúnað bátsins, staðsetningu björgunarbáta og björgunarvesta. Fara skal yfir öryggisreglur um borð, kynna áhöfn og hlutverk áhafnar fyrir þátttakendum í ferðinni.

3. Þegar bátur nálgast hval skal slegið af vél, hún sett í lausagang.

4. Ef hvalaskoðunarbátur er þegar til staðar við hvalinn/hvalina skal aðkomandi bátur ekki koma nær en 200--300 metra, þar til báturinn sem fyrir er hverfur frá eða gefur til kynna að óhætt sé að koma nær.

5. Þegar bátur nálgast hval skal ekki farið nær honum en 50 metra.

Hér vil ég aðeins staldra við vegna þess að ýmsir hafa reynst hafa áhuga á málinu og hafa haft samband við mig eftir að þáltill. var lögð fram og ein af þeim ábendingum sem ég hef fengið er sú að þetta sé ekki raunhæft. Ég vænti þess að þeir sem fá tillöguna til umsagnar þegar hún er komin til nefndar muni fá tækifæri til þess að koma skoðunum sínum þar á framfæri.

6. Ekki skal nálgast hval beint framan frá né beint aftan frá. Best er að nálgast hann rólega frá hlið aftan frá.

7. Valda skal eins litlum hávaða og ónæði fyrir dýrin og frekast er mögulegt.

8. Gott er að láta bátinn reka í lausagangi, þegar komið er að hvalnum, og jafnvel drepa á vélinni, vilji hvalurinn nálgast bátinn.

Hér má benda á að síðasta tillagan fer ekki saman við reglu nr. 5 þar sem fjallað er um að ekki eigi að fara nær hvalnum en 50 metra, en sannleikurinn er sá t.d. með hrefnur að þær eru mjög forvitnar um umhverfi sitt og nálgast gjarnan hvalaskoðunarbátana mjög mikið, jafnvel svo að það liggur við að fólk geti klappað þeim.

9. Ekki skal keyra vél og skrúfu á fullri ferð í námunda við hvali né breyta snögglega um stefnu.

10. Forðast skal eltingaleik við hvali. Ef hvalur fælist bátinn skal hverfa frá og leita annars staðar.

11. Ekki skal henda rusli til hvalanna eða í sjóinn. Hafa skal sorpílát á áberandi stöðum um borð í bátnum.

Þetta eru þær ábendingar sem koma fram í greinargerðinni og eru einungis tillögur að lágmarksreglum.

Það er ýmislegt fleira sem þyrfti að hafa í huga við uppbyggingu þjónustu á þessu sviði. Vorið 1995 var haldið námskeið í hvalaskoðun hér á landi og augljós þörf fyrir fleiri slík til að tryggja fagleg vinnubrögð þeirra sem starfa í greininni sem er svo ný sem raun ber vitni.

Námskeiðið var haldið að frumkvæði Marks Carwardine, bresks blaðamanns og sérfræðings í hvalaskoðun, sem hefur ferðast mikið og skrifað fjölda greina um Ísland á undanförnum árum. Hann lýsir þeirri skoðun sinni í nýlegri blaðagrein að Ísland hafi algjöra sérstöðu á þessu sviði, það sé orðið Mekka hvalaskoðenda hvaðanæva að. Þann orðstír er brýnt að varðveita.

Í fylgiskjali með tillögunni eru ýmsar tölur úr skýrslu Ásbjarnar Björgvinssonar um hvalaskoðun á Íslandi árið 1997. Þar eru talin upp þau fyrirtæki sem hafa boðið upp á hvalaskoðunarferðir það ár og þau eru þrettán talsins. Ekki er ólíklegt að einhver fleiri fyrirtæki hafi boðið upp á hvalaskoðun í tengslum við sjóstangaveiðiferðir en þetta er það sem tiltækt er. Einnig eru tölur yfir fjölda farþega en þegar skýrslan var samin var heildarfjöldi ferðamanna sem farið höfðu í hvalaskoðunarferðir kominn yfir 20 þúsund og þar af er áætlað að Íslendingar hafi verið um 2.000--2.500 en erlendir ferðamenn 18.000--18.500 manns og þar af gagngert vegna hvalaskoðunarferða 2.000 manns.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara nánar út í þetta enda orðið áliðið á föstudegi og fáir til að hlusta, hvað þá til að taka þátt í umræðunni. Ég vona engu að síður að þetta þingmál hafi fengið þá athygli sem það á skilið og verði tekið til gaumgæfilegrar athugunar. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til síðari umr. og hv. samgn.