Ofgreidd skráningargjöld

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 15:06:42 (3862)

1998-02-16 15:06:42# 122. lþ. 68.1 fundur 221#B ofgreidd skráningargjöld# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[15:06]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Því miður hef ég ekki kynnt mér þetta mál nákvæmlega en stundum ber við að áhorfsmál er hvernig túlka beri lög. Það getur að sjálfsögðu gerst að ákvæði falli úr lögum og það hefur farið fram hjá mönnum þannig að tekið sé við greiðslum sem eiga sér ekki stoð í lögum.

Varðandi þetta tiltekna mál og önnur skyld í þeim lögum sem hv. þm. vitnaði til er þó rétt að hafa í huga að ekki eru mörg ár síðan öll þessi gjöld voru tekin án lagaheimilda. Það var ekki fyrr en í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að við settum í lög reglugerðir sem voru áður taldar vera nægilega sterkar heimildir til þess að hægt væri að fara fram á greiðslu fyrir hin og þessi viðvik sem alls konar þjónustugjöld eða skráningargjöld.

Á undanförnum árum hefur verið farið vandlega yfir þessi ákvæði, bæði reglugerðarákvæði og lagaákvæði og ég vonast til þess að framkvæmdin í þessum málum sé betri en áður. Ég get ekki svarað því hvort þetta verður endurgreitt meira en tvö ár aftur í tímann né heldur get ég tryggt að slíkt endurtaki sig ekki í framtíðinni. Það eina sem ég get sagt er að það verður að sjálfsögðu reynt að haga bæði lögum og reglum þannig að stætt sé á því að taka inn gjöld á grundvelli þeirra.