Smíði nýs varðskips

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 15:11:12 (3865)

1998-02-16 15:11:12# 122. lþ. 68.1 fundur 222#B smíði nýs varðskips# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[15:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vík orðum til hæstv. dómsmrh. vegna þess að nú hillir loksins undir að löngu tímabær endurnýjun á varðskipaflotanum hefjist. Í tengslum við þau tímamót hefur sú umræða komið upp hvort ekki sé kjörið tækifæri til að nota smíði varðskips sem verkefni til að koma skipasmíðum á Íslandi af stað á nýjan leik og efla þann iðnað. Þetta mál var sömuleiðis rætt nokkuð þegar smíði hafrannsóknaskips var til umfjöllunar en þá töldu menn tormerki á því, m.a. af samkeppnisástæðum, að skilgreina slíka smíði sem tilraunaverkefni, sem ýmsir telja þó að væri hægt, og frá því virðist hafa verið horfið að reyna að nota smíði hafrannsóknaskips í þessu skyni. Reyndar er ýmislegt sérkennilegt í því máli í framhaldinu eins og að ekki virðist eiga að ræða við lægstbjóðendur. Ef tilgangurinn hefur verið sá einn að ná sem hagkvæmustu verði stangast það á við þá staðreynd að ekki hefur enn verið svo mikið sem rætt við þá sem buðu þó lægst smíðaverð.

Varðandi varðskip er hins vegar alveg ljóst að okkur er í sjálfsvald sett að ákveða hvernig við stöndum að smíði þess þar sem viðurkennt er að þegar komið er inn á svið landvarna eða gæslu hafa stjórnvöld ríkari heimildir en ella til að skilgreina það sem hluta af öryggismálum sínum að vera sjálfbjarga á því sviði. Nú er ég ekki að mæla sérstaklega með því að farið verði að líta á varðskipið eða smíði þess sem hluta af hergagnaiðnaði en hitt er ljóst að við gætum vísað til þess að okkur væri þarna í sjálfsvald sett að ráða tilhögun framkvæmdarinnar og engin ástæða til að við gefum þann rétt eftir frekar en aðrir. Ég minni t.d. á að Danir hafa notað þetta rækilega á undanförnum árum, m.a. til þess að styðja við bakið á skipasmíðaiðnaði sínum þegar hann átti í erfiðleikum að byggja þar gæsluskip. Ég spyr því hæstv. dómsmrh. hvort það sé til skoðunar hjá hæstv. ríkisstjórn að nýta þetta tækifæri í þessu skyni.