Biðlistar áfengis- og eiturlyfjasjúklinga

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 15:16:47 (3868)

1998-02-16 15:16:47# 122. lþ. 68.1 fundur 223#B biðlistar áfengis- og eiturlyfjasjúklinga# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[15:16]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Í Morgunblaðinu 27. jan. sl. er viðtal við Þórarin Tyrfingsson, yfirlækni á Vogi. Í viðtalinu kemur fram að að mati þeirra hjá SÁÁ er meira um fíkniefni nú í umferð á Íslandi en nokkru sinni áður og einnig eru tíðkaðar nýjar aðferðir við neyslu. Yfirlæknirinn fullyrðir að ástandið hafi versnað að mun frá 1995, mun meira af ólöglegum fíkniefnum sé í umferð, fleiri séu að nota alls konar efni og neysluaðferðirnar fjölbreyttari. Yfirlæknirinn fullyrðir einnig að lækning sé mun erfiðari en var fyrir þremur til fjórum árum.

Hann segir að þetta skapi mikinn vanda hjá sjúkrahúsinu Vogi þar sem fólk sem er illa á sig komið og í afeitrun þurfi mikla umönnun og Vogur hafi hreinlega ekki undan, sjúklingar sem þurfi að sinna séu á biðlistum en göngudeildir og vaktir stóru spítalanna leggi fram mikla vinnu í þágu þeirra. Hann fullyrðir að mikill skortur sé á skyndiþjónustu fyrir áfengissjúklinga og allt að 300 sjúklingar séu á biðlista, misjafnlega illa á sig komnir.

Þess vegna beini ég þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. hvort ríkisstjórnin sé, í ljósi þess mikla vanda sem nú blasir við og mjög versnandi ástands í þessum efnum, með einhverjar aðgerðir í huga til að fjölga úrlausnun fyrir afeitrun af þessu tagi.