Biðlistar áfengis- og eiturlyfjasjúklinga

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 15:19:02 (3869)

1998-02-16 15:19:02# 122. lþ. 68.1 fundur 223#B biðlistar áfengis- og eiturlyfjasjúklinga# (óundirbúin fsp.), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[15:19]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr að því hvort það sé rétt sem kemur fram í Morgunblaðinu að harðari fíkniefni séu í umferð og hvort SÁÁ þurfi á meira fjármagni að halda til að fjölga úrræðum og hvort ríkisstjórnin sé með eitthvað í gangi þar af leiðandi.

Ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst verið með visst forvarnaátak í gangi. Við höfum gert samning við SÁÁ um það átak og sveitarfélögin koma þar að. Fyrsti samningurinn var gerður í síðustu viku við Höfn í Hornafirði, sveitarfélagið þar. Við teljum mikilvægast af öllu að efla fyrirbyggjandi starf og að að því komi ekki aðeins foreldrar heldur íþróttafélög, skólar, sveitarfélög og allir þeir sem hafa með uppeldi barna að gera. Þar kemur lögregla líka mjög sterkt inn í því eins og hv. fyrirspyrjandi sagði áðan þá er hér um ólölgleg fíkniefni að ræða og því verður auðvitað að efla lögregluna. Ríkisstjórnin hefur gert verulegt átak þar að lútandi með auknu fjármagni. Það verða sem sagt allir að koma að þessu dæmi.

Spurt var hvort fjölga þurfi úrræðum varðandi afeitranir. Þau eru víðar en á Vogi. Landspítalinn sér líka um það á sinni geðdeild og göngudeildarþjónusta á Landspítala hefur verið stóraukin.