Biðlistar áfengis- og eiturlyfjasjúklinga

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 15:22:56 (3872)

1998-02-16 15:22:56# 122. lþ. 68.1 fundur 223#B biðlistar áfengis- og eiturlyfjasjúklinga# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[15:22]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hæstv. heilbrrh. fullyrðir að úrræðum hafi fjölgað. Ég hef vissar efasemdir um það. Heimilinu að Tindum var lokað og nú blasir við að þeim sem leita lækninga á Vogi og eru undir 20 ára aldri hefur fjölgað um helming á örfáum árum. Ég tel að það standi í sambandi við það að úrræðum hafi einmitt verið fækkað fyrir fólk á þessum aldri.

Ég tel auðvitað mjög gott að göngudeildarþjónustu hafi verið komið á fót og þess þurfti. En það blasir samt við að fjölga verður afeitrunarplássum fyrir langt leidda vímuefnaneytendur þar sem 300 manns bíða á biðlista, margir í mjög slæmu ásigkomulagi. Vill þjóðin taka ábyrgð á slíku?