Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 15:43:54 (3877)

1998-02-16 15:43:54# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[15:43]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. 25. nóvember sl. fór fram hjá sýslumannsembættinu á Akranesi uppboð á tveimur skuldabréfum að upphæð samtals um 87 millj. kr. Bréfin voru seld á 50.000 kr. til einstaklings sem er nátengdur eigendum bréfanna, en hann var eini bjóðandinn.

Mál þetta hefði í sjálfu sér ekki vakið neina sérstaka athygli nema vegna þess hve sérstök forsaga málsins og aðdragandi uppboðsins er. Fjárnám hafði tvisvar verið gert í þessum skuldabréfum vegna skulda annars eiganda bréfanna við ríkið. Skuldirnar, hátt í 200 millj. kr., eru til komnar vegna stórfelldra skattsvika og eina trygging ríkisins fyrir greiðslu þessara skulda voru þau tvö skuldabréf sem boðin voru upp 25. nóvember. Áður hafði húseign viðkomandi einstaklings verið boðin upp.

Fyrir rúmum tveimur árum, í desember 1995, gerir sýslumaðurinn á Akranesi fjárnám í skuldabréfunum vegna ógreiddra opinberra gjalda, þá á annað hundrað millj. kr. Í dag nemur skuldin um 154 millj. Fjárnáminu var ekki fylgt frekar eftir og 1. febrúar 1997, á fyrsta gjalddaga bréfanna, var fyrsta afborgun þeirra um 14 millj. kr. greidd upp í áðurnefndar kröfur.

[15:45]

Rúmlega einu og hálfu ári eftir að fjárnámið er gert, í júní 1997, fellur dómur í Hæstarétti í umræddu skattsvikamáli og var þeim einstaklingi sem í hlut á gert að greiða 50 millj. kr. sekt eða sæta 12 mánaða fangelsisvist ef sektin yrði ekki greidd innan fjögurra vikna frá dómsuppkvaðningu.

Lögmaður þess dæmda gerir þá kröfu fyrir hans hönd um að greiðslur samkvæmt skuldabréfunum verði fyrst látnar ganga til greiðslu sektarinnar, þá opinberu gjaldanna.

Sýslumaðurinn á Akranesi skrifar 3. júlí 1997 bréf til fjmrn. og fer fram á afstöðu ráðuneytisins til þessarar kröfu lögfræðingsins. Fjmrn. svarar með bréfi 15. júlí þar sem það tekur ekki beina afstöðu til erindisins en segir að sýslumaður hljóti að meðhöndla kröfuna vegna opinberu gjaldanna í samræmi við þær reglur sem gilda um innheimtu á opinberum gjöldum. Afrit af þessu svari var sent dómsmrn. sem ábyrgðaraðila varðandi innheimtu sektarinnar.

Á meðan á þessum bréfaskriftum stendur gengur á þann frest sem sá dæmdi hafði til að ganga frá greiðslu sektarinnar sem var aðeins fjórar vikur frá því að dómurinn var upp kveðinn. En það gerist ekkert fyrr en 9. september sl. haust. Þá ákveður sýslumaður að leysa skuldabréfin undan fjárnámi vegna skattaskuldanna en gerir samdægurs nýtt fjárnám þar sem sektargreiðslan er sett á undan skattkröfunni. Svo virðist vera að engin athugasemd hafi verið gerð við þessa ákvörðun og aðgerð sýslumanns, hvorki af hálfu fjmrn. né af hálfu dómsmrn. Er fjárnáminu fylgt eftir með ákvörðun um uppboð á skuldabréfunum. Ráðuneytunum er tilkynnt um þessa ákvörðun og biður fjmrn. um viku frest frá áður ákveðnum uppboðsdegi sem orðið var við.

Sýslumaður virðist hafa gert ráð fyrir því að fjmrn. sem hagsmunagæsluaðili ríkissjóðs mætti á uppboðið og byði í bréfin. Enda kemur fram í nýlegri greinargerð sýslumannsins um málið að sú ákvörðun fjmrn., sem kom sama dag og uppboðið var haldið, að bjóða ekki í bréfin kom honum algerlega í opna skjöldu.

Ráðuneytið mat það svo að bréfin væru ill- eða óseljanleg og því ekki ástæða til að bjóða í þessa einu tryggingu sem það þó hafði fyrir greiðslu skattaskuldar, hátt á annað hundrað millj. kr. Ef til vill hefur það einhverju ráðið um þá ákvörðun fjmrn. að opinberu gjöldin voru ekki lengur forgangskrafa.

Dómsmrn. bauð ekki heldur í bréfin. Taldi það ekki í sínum verkahring. Eða eins og segir í skriflegu svari ráðuneytisins við fyrirspurn minni um það hverjar væru ástæður þess að dómsmrn. ákvað að mæta ekki til þessa uppboðs og bjóða í skuldabréfin, þá svarar ráðuneytið, með leyfi forseta:

,,Í spurningu þessari felst sá grundvallarmisskilningur að ætla að ráðuneytinu beri í einhverjum tilvikum að mæta við slík uppboð. Svo er ekki. Eins og áður hefur verið vikið að annast lögreglustjórar innheimtu sekta og eru stjórnvalds\-ákvarðanir þeirra í tengslum við slíka innheimtu kæranlegar til ráðuneytisins. Við innheimtu sekta leita lögreglustjórar allra leiða til að fá sektina greidda eftir atvikum með fjárnámi og í kjölfarið nauðungarsölu og fáist sekt ekki greidd með þeim hætti er gripið til vararefsingar. Sektarinnheimta er ekki fjáröflunarleið fyrir ríkissjóð heldur fullnusta á refsingu sem ákveðin er af dómstólum.``

Enn fremur segir í svarinu:

,,Nú liggur fyrir í málinu [og þetta svar berst um miðjan janúar] að ÞÞ hefur óskað eftir því við sýslumanninn á Akranesi að samið verði um greiðslu sektarinnar í samræmi við almenn hegningarlög eins og þeim var breytt með lögum nr. 57/1997.``

Þessi síðasta setning í svari ráðuneytisins við spurningunni er merkileg í ljósi þeirra samninga sem síðar voru gerðir um greiðslu sektarinnar og viðbragða ráðuneytis. Þá er þetta svar einnig merkilegt í ljósi þeirra staðhæfinga sýslumannsins á Akranesi að í dómsmrn. sjálfu hafi verið gengið frá samningum um greiðslu sektar, eins og ég kem betur að á eftir. En dómsmrn. mætti ekki og bauð ekki í skuldabréfin sem tekið hafði verið fjárnám í sem tryggingu fyrir greiðslu þeirrar sektar sem um ræðir og taldi það alls ekkert vera í sínum verkahring.

Fjmrn. var reyndar á annarri skoðun í þessu máli. Í því svari sem mér barst frá fjmrn. varðandi þetta sama atriði kemur skýrt fram að hvað varðar dómsektina er um að ræða kröfu sem er á forræði Fangelsismálastofnunar sem heyri undir dómsmrn. og því gæti þeir aðilar hagsmuna ríkissjóðs hvað þá kröfu snerti.

Það er vissulega rétt að sektarinnheimta er ekki fjáröflunarleið fyrir ríkissjóð heldur fullnusta á refsingu og sé sektin ekki greidd verður viðkomandi að sæta fangelsisvist. En það er ekki heldur markmið út af fyrir sig að stefna endilega að því að einstaklingur skuli dvelja í fangelsi ef önnur úrræði eru sjáanleg, eins og ég tel að hafi verið í þessu tilviki, og ráðuneytinu beri að fylgja eftir slíkum úrræðum. Ráðuneytinu var fullkunnugt um þá ákvörðun sýslumanns á Akranesi að færa sektina fram fyrir kröfuna vegna ógreiddra opinberra gjalda og gerði að því er virtist enga athugasemd við þann gjörning sem framkvæmdur var vegna þeirrar ætlunar að andvirði bréfanna gengi til greiðslu sektarinnar. Það er því ekkert skrýtið í ljósi þess sem á undan er gengið að það veki furðu, svo ekki sé nú sterkara til orða tekið, að hvorugt ráðuneytanna gerir tilraun til að eignast bréfin.

Það má vera að einhverjir telji að bréfin séu ekki mikils virði en þarna var þó eina tryggingin sem ráðuneytin höfðu fyrir greiðslu skuldanna og á þetta sérstaklega við um fjmrn. Auk þess lá fyrir að fyrsta afborgun bréfanna hafði átt sér stað, 14 millj. höfðu verið greiddar, næsti gjalddagi að nálgast og ekkert benti til annars en að staðið yrði við þá afborgun, líklega á milli 7 og 8 millj. króna. Því hefði mátt gera ráð fyrir að ef fjmrn. ætlaði ekki að eignast bréfin færi það fram á frestun uppboðs um lengri tíma en gert var.

Því fjárnámi sem gert var í bréfunum í desember 1995 var ekki fylgt eftir á þeim tíma sem lög gera ráð fyrir. Því má spyrja hvers vegna nú var brugðist við með svo skjótum hætti að fjárnáminu var fylgt eftir með sölu innan tveggja mánaða þegar fresturinn til aðgerða er eitt ár.

Það hefur reyndar komið á daginn að öll vinna og bréfaskriftir bæði lögmanns þess dæmda og sýslumanns vegna kröfu um endurupptöku fjárnáms frá 1995 var óþörf því fjárnáminu hafði ekki verið fylgt eftir innan lögboðins tíma og var því í raun ekki lengur til staðar. En enginn málsaðili virtist hafa áttað sig á því ef marka má greinargerð Ragnars Halls sem hann vann fyrir dómsmrn., en sú greinargerð var reyndar ekki unnin vegna þess að dómsmrn. hefði eitthvað við framgang þessa sérstæða máls að athuga. Þvert á móti er greinargerðin unnin til að mótmæla þeirri niðurstöðu Ríkisendurskoðunar að ekki hafi verið að öllu leyti rétt staðið að málum af hálfu ráðuneytanna hvað varðar hagsmunagæslu fyrir ríkissjóð.

Eins og ég hef áður nefnt sendi ég 7. janúar sl. skriflega nokkrar spurningar um framkvæmd þessa máls til fjmrn. og dómsmrn. Spurningarnar voru í nokkrum liðum og lutu allar að því hvort eðlilega hefði verið staðið að framkvæmd og meðferð málsins með tilliti til hagsmuna ríkissjóðs og fullnustu refsingar.

Svör bárust fljótlega frá báðum ráðuneytunum. Út úr þeim svörum var ekki hægt að lesa annað en það mat starfsmanna eða ráðherra þessara ráðuneyta að fullkomlega eðlilega hafi verið staðið að málum. Þingflokkur Alþb. og óháðra óskaði einnig eftir umsögn Ríkisendurskoðunar. Í þeim svörum kveður við allt annan tón.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir málsmeðferð beggja ráðuneyta og þó fyrst og fremst aðgerðarleysi fjmrn. og aðgerðir eða aðgerðarleysi sýslumannsins á Akranesi. Þær athugasemdir sem Ríkisendurskoðun gerir eru eftirfarandi:

,,Í fyrsta lagi telur Ríkisendurskoðun að fjmrn. hefði átt að synja sýslumanninum á Akranesi um endurupptöku á fjárnámi vegna opinberra gjalda í skuldabréfunum.

Í öðru lagi álítur Ríkisendurskoðun að sýslumaðurinn á Akranesi hafi ekki haft heimildir að lögum til endurupptöku fjárnámsins og þar með að færa sekt fram fyrir opinber gjöld í veðröð. Einnig að þær röksemdir sem sýslumaður styður embættisfærslur sínar við eigi ekki við í málinu, sérstaklega þegar horft er til þess að innheimta sýslumannsins er til komin vegna umfangsmikilla skattsvika.

Í þriðja lagi álítur Ríkisendurskoðun að engin rök hafi verið til að selja umrædd skuldabréf nauðungarsölu. Þar kemur bæði til að reynt hafði verið að selja bréfin á almennum markaði en enginn kaupandi fundist. Það var vísbending um að kaupverð bréfsins á uppboði yrði ekki í samræmi við þá hagsmuni ríkissjóðs sem í húfi voru. Einnig sú staðreynd að ein afborgun hafði verið greidd af bréfinu, sem var í skilum er uppboð fór fram, og benti það til þess að vilji væri hjá ÞÞÞ ehf. til að greiða ríkissjóði afborganir af bréfunum.

Í fjórða lagi verður að teljast óviðunandi að ekki var mætt á nefnt uppboð fyrir hönd ríkissjóðs þegar haft er í huga hvaða hagsmuni ríkissjóður hafði af því að eiga umrædd bréf. Í ljós hefur komið að samræmdar reglur skortir um hagsmunagæslu fyrir ríkissjóð í heild þegar fleiri en einn ríkisaðili eiga kröfu í sömu eign. Á daginn hefur komið í máli þessu að hver og einn ríkisaðili skoðar málið einangrað út frá eigin hagsmunum en ekki hagsmunum ríkissjóðs í heild. Ríkisendurskoðun telur að hér þurfi að gera breytingu á þannig að einn aðili sé ábyrgur fyrir gæslu hagsmuna ríkissjóðs í heild.``

Þessar niðurstöður Ríkisendurskoðunar er vissulega þungur áfellisdómur. Enda stóð ekki á viðbrögðum. Bæði fjmrn. og dómsmrn. hafa í fréttatilkynningum, viðtölum og í sérstökum greinargerðum mótmælt þessari gagnrýni og niðurstöðum.

Fyrir réttri viku var dreift til allra þingmanna svörum Ríkisendurskoðunar við málflutningi ráðuneyta og sýslumannsins á Akranesi. Eftir stendur að sú upphaflega niðurstaða Ríkisendurskoðunar, að hagsmunir ríkissjóðs hafi verið fyrir borð bornir og ekki hafi verið staðið að málum með eðlilegum hætti á við full rök að styðjast.

Vegna þeirrar afstöðu ráðuneytanna að hér hafi verið staðið fullkomlega eðlilega að málum hlýtur sú spurning að vakna hvort þetta mál eigi sér fordæmi. Ef svo er hversu stórar fjárhæðir, háar kröfur, hafi þannig tapast og hversu mikil áhersla er yfirleitt lögð á það hjá fjmrn. að ná inn kröfum vegna skattsvika. Þetta mál snýst ekki um þann einstakling sem um ræðir í þessu einstaka máli. Málið snýst um málsmeðferðina, um það með hvaða hætti staðið er að innheimtu á kröfum vegna skattsvika og hversu vel því er fylgt eftir að ná þeim inn, hversu vel ráðuneytið sinnir hagsmunagæsluhlutverki sínu fyrir ríkissjóð. Og hvernig dómum er framfylgt og hvort jafnræðis sé gætt í slíkum málum þannig að allir sem brotið hafi af sér sitji við sama borð.

Samkvæmt niðurstöðum Ríkisendurskoðunar skortir verulega á að nægjanlega vel sé að verki staðið og það er vissulega áhyggjuefni og ástæða til að ræða það, megi það leiða til betri vinnubragða. Reyndar má segja að umfjöllun um þetta sérstaka mál hafi nú þegar á vissan hátt skilað sér. Alla vega hvað snertir framgang þess. Á meðan beðið var eftir niðurstöðum úr athugun ráðuneyta og Ríkisendurskoðunar samdi sýslumaðurinn á Akranesi um greiðslur vegna eftirstöðva sektarinnar hátt í 50 millj. króna. Samkvæmt þeim samningi átti sektin að greiðast á einu ári frá því að samningur var gerður. Svo virðist vera að hann hafi ekki borið samninginn undir dómsmrn. enda ráðuneytið lýst því yfir að slík mál beri sýslumanni að leysa. Ráðuneytið fréttir því ekki af samningnum fyrr en viku eftir að hann var gerður og brást ókvæða við, telur samninginn ekki innan þess ramma sem lög leyfa og ógilti hann. Síðan hafa gengið á báða bóga látlausar ásakanir í fjölmiðlum milli embættismanna í dómsmrn. og sýslumannsins á Akranesi. Jafnvel ráðherra hefur fellt sinn dóm í fjölmiðlum. Það er auðvitað með ólíkindum að ráðuneyti dómsmála og löggæslan, í þessu tilviki sýslumaður, skuli vera að rífast opinberlega á þennan máta. Allt þetta mál er því með hreinum ólíkindum eftir því sem fleiri þættir því tengdir koma upp á yfirborðið, hvort sem um er að ræða fjmrn. eða dómsmrn. hvað varðar samskipti þess og sýslumannsins. Það er of langt mál að rekja allar þær ásakanir sem gengið hafa þar á milli. En eitt atriði verður þó ekki komist hjá að nefna.

Það hefur ítrekað komið fram hjá embættismönnum dómsmrn. að algjörlega óheimilt sé að semja um greiðslur vegna sekta til lengri tíma en eins árs frá því að dómur er upp kveðinn. Dómsmrh. lýsti því sjálfur í viðtali 30. janúar að sýslumanni hafi verið óheimilt að semja með þeim hætti sem gert var. Sektir verði að greiða innan ákveðinna tímamarka. Þessi samningur sé ekki innan þeirra.

4. febrúar sl. lýsir sýslumaður því yfir í viðtali á Bylgjunni að hann viti til þess að dómsmrn. hafi gert a.m.k. fjóra samninga um greiðslu sektar með afborgunum þar sem samningurinn hljóði upp á það að sektin skuli greiðast á fimm árum. Áður hafði sýslumaður lýst því í fréttaviðtali að hann væri ekki lögbrjótur eins og komið hefði fram í máli embættismanna dómsmrn. og benti háttsettum embættismanni ráðuneytisins á að líta sér nær þegar hann leitaði að eða lýsti menn lögbrjóta.

Þetta eru svo alvarlegar staðhæfingar að ekki verður fram hjá þeim litið, og vart dæmi þess að slíkar ásakanir hafi gengið opinberlega í milli embættismanna áður. Dómsmrn. verður að svara þessum alvarlegu ásökunum og ef þær eiga við rök að styðjast verður að greina frá því í hvaða tilvikum dómsmrn. stóð að því að gerðir voru samningar um greiðslur sekta og til hversu langs tíma þeir samningar voru gerðir. Þessar staðhæfingar sýslumannsins á Akranesi hafa ekki einungis komið fram í fjölmiðlum, heldur einnig í greinargerð sem sýslumaðurinn skrifaði um afskipti embættisins af máli ÞÞÞ. En í þessari greinargerð segir um samningagerð dómsmrn., með leyfi forseta:

,,Dómsmrn. hefur á undanförnum árum gert nokkra samninga um greiðslu sekta með afborgunum. Svo sem skýrt er tekið fram í 52. gr. almennra hegningarlaga hefur ráðuneytið ekki neina lagaheimild til að gera slíka samninga.``

[16:00]

Og síðar í sama kafla greinargerðarinnar:

,,En ekki aðeins hefur ráðuneytið án heimildar í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, tekið sér vald til að gera slíka samninga heldur hefur það og í nokkrum stórum sektarmálum gert samninga við sökunaut um greiðslu dæmdrar sektar með afborgunum á allt að 5 árum. Því má halda fram að samningar um greiðslufrest til svo langs tíma breyti eðli refsidóms og brjóti einnig af þeirri ástæðu í bág við lög.`` --- Og áfram heldur sýslumaður í greinargerð sinni: --- ,,Slíka samninga hefur ráðuneytið ekki gert einungis við þá, sem dæmdir hafa verið til greiðslu sektar, en verið peningalausir og jafnvel gjaldþrota eins og Þ.Þ., heldur við menn, sem taldir voru auðugir á samningsstundu ...``

Hæstv. dómsmrh. Gagnrýni sýslumannsins á Akranesi á starfsemi dómsmálaráðuneytisins er hörð og ekki hægt að horfa fram hjá því að sýslumaðurinn er í þessari greinargerð að gefa í skyn að alvarleg spilling þrífist í dómskerfinu.

Fullyrðingar hans eru sýnu alvarlegri ef horft er til þess að þær stangast á við þau svör er mér bárust um málið frá dómsmrn. Ég spurði hvort einstaklingur sem hefur verið dæmdur til að greiða sekt geti samið um að greiða hana með skuldabréfi eða öðrum sambærilegum hætti. Svarið sem barst frá ráðuneytinu er í engu samræmi við það sem fram kemur í greinargerð sýslumannsins. En í svarinu segir, með leyfi forseta:

,,Það hefur verið afdráttarlaus stefna ráðuneytisins til þessa að heimila mönnum ekki að greiða sekt með skuldabréfi. Byggist sú afstaða á því að krafa samkvæmt skuldabréfi er annars eðlis en krafa um greiðslu sektar í ríkissjóð, en viðtaka á skuldabréfi um greiðslu fyrir sekt fæli í sér fullnaðargreiðslu á sektinni án þess þó að ljóst væri hvort skuldarinn myndi að endingu greiða umrædda fjárhæð með afborgunum af umræddu skuldabréfi. Hins vegar eru lögreglustjórum veittar heimildir í almennum hegningarlögum, 52. gr., til að semja um að sekt sé greidd með afborgunum en ekki er þó heimilt að veita lengri greiðslufrest en eitt ár frá því að sekt kemur til innheimtu.``

Hér er ekki eitt orð um þá samninga sem sýslumaður fullyrðir að gerðir hafi verið þó spurt sé um þá. Það er alvarlegt ef fullyrðingar þær sem koma fram í greinargerð sýslumannsins reynast réttar og ráðuneytið þá vísvitandi gefið rangar upplýsingar. Svör ráðuneytisins við spurningum sem ég sendi voru meðal þeirra gagna sem Ríkisendurskoðun byggði niðurstöður sínar á.

Afar margt í greinargerð sýslumannsins á Akranesi kemur einkennilega fyrir sjónir, sérstaklega hvað varðar samskipti embættisins við dómsmrn. Í mörgu er sýslumaðurinn ósammála niðurstöðu Ríkisendurskoðunar en styður þó afdráttarlaust eina af meginathugasemdum hennar en það er sú niðurstaða að fjmrn. hafi brugðist í hlutverki sínu sem hagsmunagæsluaðili ríkissjóðs hvað varðar tilraunir til innheimtu títtnefndrar skattaskuldar.

Sýslumaður tekur skýrt fram að hann hafi ekki efast um að fjmrn. léti bjóða í skuldabréfin 25. nóv. sl. því þannig fengi það mikil verðmæti og tryggði að ríkissjóður næði einhverju af skuldinni inn.

Í skýrslunni segir hann, með leyfi forseta: ,,Ekki lét ráðuneytið heldur mæta við uppboðið. Þau viðbrögð ráðuneytisins komu mér gersamlega í opna skjöldu, því ég áleit fjármálaráðuneytið hafa á hendi fjárhagslega hagsmunagæslu ríkisins í hvívetna.``

Sýslumaður telur að á uppboðinu hafi ríkið hlunnfarið sjálft sig og ÞÞÞ með þeirri ákvörðun að bjóða ekki í bréfin. Hlunnfarið ríkið með því að gera ekki tilraun til að halda í mikil verðmæti. Hlunnfarið ÞÞÞ með því að hann átti rétt á sannvirði fyrir skuldabréfin sem aftur hefði nýst honum til greiðslu sektarinnar og skuldar vegna vangoldinna opinberra gjalda.

Það að ríkið hafi hlunnfarið sjálft sig með því að mæta ekki á uppboðið eða stýrt málum öðruvísi en eðlilegt var, er í raun meginniðurstaða greinargerðar Ríkisendurskoðunar varðandi þetta mjög svo sérstæða mál. Þeirri niðurstöðu Ríkisendurskoðunar hefur ekki verið hnekkt þrátt fyrir þær greinargerðir og athugasemdir sem ráðuneytin hafa sent frá sér.

Virðulegi forseti. Þetta mál er um margt ótrúlegt. Sú ákvörðun ráðuneyta að mæta ekki og bjóða í skuldabréf sem voru nánast eina trygging ríkissjóðs til þess að ná inn einhverjum hluta þeirra hátt í 200 millj. kr. krafna sem ríkið átti í þessu einstaka tilviki er illskiljanleg. Hafi ákvörðunin áður verið óljós eða lítt skiljanleg þá er ákvörðunin óskiljanleg eftir lestur allra þeirra greinargerða sem birst hafa um málið.

Fjárhagslegir hagsmunir ríkissjóðs eru, eins og kröfurnar sýna, mjög miklir. Því er ekki nema von að við veltum því fyrir okkur hvort rétt og eðlilega hafi verið staðið að því að ná inn þeim kröfum sem ríkissjóður á í þessu tilviki. Hér er einnig um að ræða sérstakt mál vegna þess að krafan er vegna stórfelldra skattsvika og því horft á málið í ljósi þeirrar staðreyndar.

Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er sú að hagsmuna ríkissjóðs hafi ekki verið gætt sem skyldi í þessu máli. Ekkert hefur enn komið fram sem hnekkir þeirri niðurstöðu.

Í framhaldi af viðbrögðum ráðuneytanna er eðlilegt að velta fyrir sér hvort þessi dómur Ríkisendurskoðunar eigi við í fleiri tilvikum en því sem hér um ræðir. Spurningar hljóta einnig að vakna varðandi fullnustu dóma og hvort sakamenn sitji þar allir við sama borð. Ef marka má orð sýslumannsins á Akranesi og þá umfjöllun Friðriks Þórs Guðmundssonar sem birtist um þennan þátt málsins í Degi nú í janúar, þá virðist jafnræðis ekki vera gætt. Virðulegi forseti. Það eru alvarleg tíðindi.