Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 16:58:21 (3885)

1998-02-16 16:58:21# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[16:58]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Enginn hefur meiri áhuga á eða hefur beitt sér frekar fyrir því að þessar breytingar verði gerðar á þingsköpum en forsn. Alþingis sjálf og Ríkisendurskoðun. Það sem hæstv. ráðherra er að leggja til er því ekkert nýmæli. Það er verið að vinna að þessu að frumkvæði þessara aðila en það er ekki aðalatriði málins. Ég skrifaði það orðrétt niður sem hæstv. ráðherra sagði og hann sagði að ,,æ ofan í æ hafi Ríkisendurskoðun grafið undan því starfi sem unnið er í ráðuneytunum``. Hann sagði ekki bara að sumar álitsgerðir Ríkisendurskoðunar væru gagnlegar og aðrar vafasamar. Hann sagði að þessi stofnun á vegum Alþingis hafi æ ofan í æ grafið undan því starfi sem unnið er í ráðuneytunum. Ég geri þá kröfu til hæstv. ráðherra að hann skýri annaðhvort frá því í umræðunum hvernig þetta hefur æ ofan í æ átt sér stað ellegar, ef hann treystir sér ekki til þess, geri ég sömu kröfu til hans og hann til annarra að hann skili þá til forsn. Alþingis og þingflokka skriflegri greinargerð um þau dæmi sem hann telur vera fyrir því að stofnun á vegum Alþingis hafi æ ofan í æ grafið undan starfi ráðuneytanna. Þetta var það sem hæstv. ráðherra sagði orðrétt. Þetta eru stór orð og honum er skylt að finna þeim stað. (Gripið fram í: Eða kalla þau til baka?)