Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 17:02:04 (3887)

1998-02-16 17:02:04# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[17:02]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Umræðan sem hér hefur farið fram sýnir mér að hæstv. ráðherrar eru í vondum málum og komnir á bullandi flótta. Tillagan sem hæstv. ráðherrar bera hér fyrir þingið er auðvitað alveg fráleit. Hér er um að ræða tvo ráðherra sem liggja undir því að hafa beitt ámælisverðum vinnubrögðum í tilteknu máli og að þingið fari síðan að þiggja einhverjar leiðbeiningar frá þeim um hvernig þingið haldi á málinu í framhaldinu er auðvitað alveg fráleitt. Þingið sjálft er alveg fullfært um að halda á þessu máli, og auðvitað á þingnefnd að fjalla um það og kalla fyrir sig þá aðila sem hún telur þurfa, leita til Lagastofnunar eða fá frekari umfjöllun hjá Ríkisendurskoðun. Það er hin rétta leið. Þetta mál og önnur sem við höfum verið að ræða undanfarna daga, herra forseti, sýna mér að við þurfum að fá raunverulega rannsóknarnefnd með rannsóknarvald sem getur tekið á slíkum málum. Aftur og aftur eru að koma upp mál sem sýna að þess þurfi.

Herra forseti. Ríkisendurskoðun hefur með skýrslu sinni staðfest að meðferð ráðuneyta og innheimtumanns ríkissjóðs í stærsta skattsvikamáli á Íslandi er hreint hneyksli. Við annað verður ekki unað en að þetta mál verði rannsakað ofan í kjölinn og þeir látnir sæta ábyrgð sem ekki hafa gætt hagsmuna ríkissjóðs, eins og þeim er áskilið lögum og reglum samkvæmt. Þó að við á Alþingi fáum iðulega upplýsingar um tugmilljarða útlánatöp opinberra sjóða og fjármálastofnana eða miklar afskriftir hjá ríkissjóði á skattkröfum þá ber enginn ábyrgð. Nú stefnir í það sama, þ.e. að enginn beri ábyrgð þegar í kerfinu er tekið með silkihönskum á stærsta skattsvikamáli sögunnar.

Hvaða skilaboð eru gefin út í þjóðfélagið með því máli sem nú er til umræðu? Að stjórnsýslan og framkvæmdarvaldið beri alls enga ábyrgð á gjörðum sínum? Og að enginn beri ábyrgð þó að stærsta skattsvikamál Íslandssögunnar fái sérmeðferð í kerfinu með þeim afleiðingum að í stefnir að ríkissjóður verði af á annað hundrað millj. kr.

Kjarninn í þessu máli snýst um tvennt, sem ræður ráðherranna áðan hafa í engu hrakið. Þvert á móti bera ræður, greinargerðir og tillögur ráðherranna þess merki að þeir eru á flótta í málinu. Kjarni málsins er í fyrsta lagi embættisafglöp sýslumannsins á Akranesi, sem eru tvíþætt. En sýslumaðurinn virðist fremur hafa litið á sig sem umboðsmann skattsvikarans en ríkissjóðs þegar allar hans gjörðir snúast um að forða ákærða frá fangelsi.

Embættisafglöp sýslumannsins snúast um að hann skyldi ekki þegar eftir fjárnámið á skuldabréfunum að nafnvirði 86 millj. kr. gera kröfu um gjaldþrotaskipti sem gaf tækifæri til að kanna hvort eignum skattsvikarans hafi verið komið undan með ólögmætum hætti og þar með gefið ríkisvaldinu eða kröfuhöfum tækifæri á að rifta slíkum gjörningum áður en það varð um seinan.

Í öðru lagi er það meðferðin á uppboði skuldabréfanna í lok síðasta árs, sem bæði snýr að sýslumanni, fjmrn. og dómsmrn. Þessi tvö kjarnaatriði málsins eru svo alvarlegar embættisfærslur framkvæmdarvaldsins að þær kalla á nánari könnun, eins og við höfum farið yfir, og það af þinginu sjálfu. Ég vil nú fara nánar út í þessi tvö kjarnaatriði málsins.

Um það leyti er skattrannsókn í málinu hefst er stofnað til einkahlutafélags af hálfu ÞÞ og aðstandenda hans en áður hafði ákærði í málinu lengi verið með sinn einkarekstur. Skattrannsókn málsins hefst í nóvember 1994 og lýkur fyrri part árs 1995, en þá voru endurálagðir skattar á ÞÞ að upphæð 140 millj. kr. Fyrri hluta árs 1995 kaupir félagið hvers eigendur eru ákærði og synir hans rekstur ÞÞ og greiðir fyrir með skuldabréfi að upphæð 86 millj. kr. Skömmu síðar gerir sýslumaðurinn á Akranesi fjárnám í skuldabréfunum sem var auðvitað eðlilegt og rétt en fjárnámið reyndist árangurslaust að hluta.

En stóra spurningin er: Hvers vegna krafðist sýslumaðurinn ekki gjaldþrotaskipta strax þar sem fjárnámið var árangurslaust að hluta, ekki síst til að láta á það reyna hvort eignum úr búi hins sakfellda hefði verið ráðstafað með ólögmætum hætti og hefðu því verið riftanlegir á þeim tíma, en væntanlega er sá frestur liðinn núna.

Hitt meginatriðið er: Hvers vegna var engin virk hagsmunagæsla fyrir ríkissjóð þegar uppboðið fór fram í lok síðasta árs? Það er auðvitað hreint með ólíkindum að sýslumaðurinn skyldi ekki fresta uppboðinu þegar fram kemur hreint skrípatilboð frá syni þess dæmda upp á 50 þús. kr. í 86 millj. kr. skuldabréf sem metið hafði verið á 36 millj. kr. Ekki nóg með það heldur var gjalddagi næstu greiðslu af skuldabréfinu tveimur mánuðum síðar upp á um 7 millj. kr. sem staðið hafði verið í skilum með á fyrsta gjalddaga. Ég bendi á 67. gr. laga um nauðungarsölu þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Ef sýslumaður telur boðin óhæfilega lág með hliðsjón af líklegu markaðsverði hlutar getur hann orðið við kröfu aðila um að hafna þeim öllum og frestað til annars uppboðs að reyna sölu á ný.``

Mátti ráðuneytunum og sýslumanninum ekki vera ljóst að svona gæti farið? Áttu þá ekki báðir þessir aðilar eða eftir atvikum annar hvor að tryggja að hagsmunagæsla ríkissjóðs væri virk á þessu uppboði til að koma í veg fyrir að skuldabréf upp á 86 millj. kr., sem ríkissjóður var með fjárnám í, væru nánast gefin eins og raunin varð á? Virk hagsmunagæsla felst ekki endilega í því að bjóða í bréfin heldur að koma í veg fyrir að menn léku sér þar með fé skattborgaranna eins og raunin varð á. Skýringar sem fjmrn. gefur á sinnuleysi sínu í þessu máli er óviðunandi með öllu. Í því sambandi bendi ég einnig á frétt í Viðskiptablaðinu 23. des. sl. en þar er haft eftir Indriða H. Þorlákssyni eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Það var búið að meta bréfin og niðurstaðan af því mati var að ekki var talið rétt að bjóða, enda hefði það eingöngu leitt til þess að ríkissjóður væri að borga sektina.``

Hvaða vitleysa er þetta nú, herra forseti? Auðvitað þurfti ekki að mæta á uppboðið fyrir hönd ríkissjóðs og bjóða í bréfin 50 millj. kr. til að ÞÞ gæti greitt sektina sem forðaði honum frá fangelsi, heldur átti ráðuneytið og sýslumaðurinn að tryggja virka hagsmunagæslu á uppboðinu til að koma í veg fyrir þann skrípaleik sem þarna fór fram, þar sem leikið var sér með hagsmuni ríkissjóðs og þar með skattgreiðenda.

Þegar fjmrn. neitaði að koma nálægt málinu átti sýslumaðurinn, sem á uppboðinu var í kápu uppboðshaldara, að tryggja að fulltrúi hans, sem var til staðar, kæmi í veg fyrir þennan fáránleika allan, ekki endilega til að bjóða í skuldabréfin heldur til að óska frestunar á uppboðinu. Eða eins og segir í 67. gr. laga um nauðungarsölu, að sýslumaður getur frestað uppboði ef boðið er óeðlilega lágt með hliðsjón af markaðsvirði bréfanna. Hefðu ráðuneytin og sýslumaður tryggt virka hagsmunagæslu ríkissjóðs á uppboðinu hefðu hagsmunir ríkissjóðs verið tryggðir með tvennum hætti. Í fyrsta lagi komið í veg fyrir að skuldabréf að nafnvirði 86 millj. kr., sem var eina trygging ríkissjóðs fyrir skattaskuldinni og skattsektinni, væri nánast gefið aftur til þeirra sem eru útgefendur að skuldabréfinu, þ.e. fjölskylda hins sakfellda. Þessi bréf voru líka eini aðgangur ríkissjóðs að fyrrum fyrirtæki Þórðar því auðvitað má ganga að útgefanda bréfsins, einkahlutafélaginu ÞÞÞ, ef greiðslufall verður á bréfunum.

Fjmrn. heldur því fram að ekki sé heimilt að gjaldfella bréfin vegna vanskila. Þetta er auðvitað útúrsnúningur. Hægt er að gera fjárnám í fyrirtækinu fyrir afborgununum án dóms. Fáist afborgunin ekki greidd er hægt að krefjast þess fyrir dómi að skuldabréfið sé allt fallið í gjalddaga og verulegar vanefndir réttlæta það.

Í annan stað hefði þá reynt á aðra afborgun skuldabréfanna nokkrum vikum síðar upp á 7 millj. kr. Hefði sú afborgun lent í vanskilum hefði verið hægt að ganga að félaginu og þá eftir atvikum með aðfararheimild að gjaldfella allt skuldabréfið og ganga að eignum í félaginu sem stofnað var 1994 um það leyti sem skattrannsóknin á sakfellda fer fram. Þó Þórður hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta þá er einkahlutafélagið í fullum rekstri og á einhverjar eignir. Það vekur athygli hve fjmrn., sem greinilega veit upp á sig sökina, gerir í greinargerð sinni lítið úr því að nokkrar eignir séu til í einkahlutafélagi ÞÞÞ og nefnir að hlutafé sé aðeins 400 þús. kr. Maður veltir fyrir sér: Var kaupverðið á fyrirtæki ákærða, Þórðar, til sona sinna á einkafyrirtækinu fyrir þremur árum síðan bara málamyndagjörningur eða eru virkilega engar eignir að baki 86 millj. kr. skuldabréfi sem synir Þórðar greiddu fyrir fyrirtækið? Var kaupverðið bara markleysa?

Auðvitað læðist að manni sá grunur að einmitt í þessu félagi sé að finna hinn ólögmæta ávinning sem stórfelld skattsvik Þórðar höfðu í för með sér. Bréfin voru gefin út af nefndu félagi til Þórðar og eiginkonu hans til greiðslu á andvirði fyrir einkafyrirtæki Þórðar. Ég veit ekki betur en að félagið sé í eigu Þórðar og sona hans sem stjórna því.

Herra forseti. Í þessu máli hafa talsmenn ráðuneytanna ítrekað haldið því fram að þeim sé almennt óheimilt að taka við skuldabréfum til greiðslu á sköttum og sektum. Að mínu mati er grundvallarmunur á því að ríkissjóður gangi til samninga um greiðslu á skatti eða sekt með skuldabréfum og því að reyna að tryggja hagsmuni ríkissjóðs þegar verðmæti, sem hann hefur gert fjárnám í til tryggingar kröfum sínum, fer fram. Ríkissjóður hefur örugglega margoft eignast bæði fasteignir og lausafé ýmiss konar í nauðungaruppboðum án þess að nokkur athugasemd hafi verið gerð við það.

Í 31. gr. laga um fjárreiður ríkisins er beinlínis gert ráð fyrir því að ríkisaðilar í A-hluta geti án sérstakrar lagaheimildar keypt eignir við nauðungarsölu á grundvelli veðréttar eða skilmála að baki áfallinna ábyrgðaskuldbindinga. Eignir sem keyptar eru með þessum hætti ber að selja jafnskjótt og það er talið hagkvæmt. Af þessu má ráða að lög geri beinlínis ráð fyrir því að ríkissjóður mæti á uppboð sem þessi og tryggi hagsmuni sína í hvívetna, eins og staðfest er í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Herra forseti. Þegar lesin er málsvörn dómsmrn. sem kemur fram í fréttatilkynningu 29. janúar sl. er hún vægast sagt allsérkennileg. Við lestur hennar vaknar sú spurning hvernig á því gat staðið yfirleitt að sýslumanni hafi liðist það að færa sektina framar í veðröð með því að taka fjárnámið upp. Mér finnst að ráðuneytið verði að skýra nánar hvað það á við í fréttatilkynningunni þegar fullyrt er að hefði sýslumaður keypt bréfin á uppboðinu sem innheimtumaður sektarinnar hefði sektin talist greidd miðað við mat á markaðsverði bréfanna samkvæmt 57. gr. laga um nauðungarsölu. Þarna gefur ráðuneytið sér, eins og segir í skýrslu Ríkisendurksoðunar, að markaðsvirði bréfanna sé a.m.k. jafnhátt hinni vangoldnu sekt. Það er enginn að tala um að bjóða tugi millj. kr. í þau heldur einungis að ekki yrði fallist á skrípaboð frá syni uppboðsþola sem jafnframt er framkvæmdastjóri félagsins, sem er skuldari samkvæmt skuldabréfunum. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort misræmi sé hjá innheimtumönnum ríkissjóðs að fylgja eftir skattkröfum eða greiðslu sekta og hvort önnur viðbrögð gildi um fyrirmenn í héraði en aðra.

Í þessu stærsta skattsvikamáli sögunnar þarf að fá skýringu og svör við eftirfarandi, herra forseti:

Í fyrsta lagi. Af hverju gætti fjmrn. ekki hagsmuna ríkissjóðs með því að synja sýslumanninum á Akranesi um endurupptöku á fjárnámi vegna opinberra gjalda?

Í öðru lagi. Vissi ráðuneytið að fjárnámið var fallið úr gildi þegar leitað var endurupptöku á fjárnáminu?

Í þriðja lagi. Telja ráðherrar eðlilegt að tvö ár hafi liðið frá því að fjárnám var gert þar til skuldabréfin fóru á uppboð og hafa þeir kynnt sér af hvaða sökum það var ekki gert?

Í fjórða lagi. Hvaða rök lágu að baki því að bjóða ekki í skuldabréfið eða biðja um frestun --- biðja um frestun á nauðungaruppboðinu þó ekki væri meira --- og koma þannig í veg fyrir að skuldabréfin yrðu nánast gefin?

Í fimmta lagi væri einnig nauðsynlegt að fá það fram hjá hæstv. dómsmrh. hvort þau sjónarmið og aðferðir við innheimtu og nauðungarsölu sem sýslumaðurinn á Akranesi reifar í svari sínu til dómsmrn. séu í samræmi við þær reglur sem gilda almennt um sektarinnheimtu í öðrum umdæmum landsins eða hvort ósamræmi gildi í málsmeðferð slíkra mála hjá umdæmunum.

Og í sjötta lagi spyr ég bæði dómsmrh. og fjmrh. hvort þeir telji rétt að uppboðið á skuldabréfunum verði ógilt, séu til þess forsendur.

[17:15]

Herra forseti. Í mínum huga er ljóst að þessu stærsta skattsvikamáli sögunnar má ekki ljúka án þess að við fáum frekari vitneskju um það. Af því sem fram hefur komið í dag er sýnt að Alþingi og þingnefnd verður að fara nánar í málið en tök eru á við þessa umræðu. Við verðum að hafa það klárt og kvitt hvar ábyrgðin liggur og ég tel að efh.- og viðskn. sé rétti vettvangurinn til að taka málið og skoða, á grundvelli 26. gr. laga um þingsköp og kalla fyrir sig þá sem hún telur þurfa.

Það er ekki gott að þurfa að taka við leiðbeiningum og tillögum frá framkvæmdarvaldinu um frekari málsmeðferð meðan handhafar framkvæmdarvalds eru bornir sökum um ámælisverð vinnubrögð í sama máli. Auðvitað á þingið að fjalla um þetta mál og eftir því sem fram hefur komið hér í dag verður ekki við annað unað en farið verði nánar í málið en við höfum tækifæri til við þessa umræðu.