Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 17:20:38 (3890)

1998-02-16 17:20:38# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[17:20]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðasta atriðið þá var það ekkert skoðað. Fyrirspurnin sem kom til fjmrn. snerist ekki um fjárnámið eða endurupptöku þess. Þess vegna var það ekkert kannað. Þetta þarf að liggja algerlega fyrir og af því að ég heyrði að hv. þm. hamraði á þessu í sinni ræðu. Um það var ekki spurt og því lá engin skoðun fyrir hvort það hafi verið í gildi eða ekki. Það kom ekki í ljós, að ég held, fyrr en Ragnar Hall skoðaði málið.

Það er ekkert skrýtið að hv. þm. skuli segja mig viðurkenna tvö atriði. Sýslumenn, innheimtumenn ríkissjóðs, hafa tiltölulega mikið frelsi í umboði sínu til þess að innheimta skattkröfur á grundvelli laga, reglna og þeirra leiðbeininga sem fjmrn. hefur gefið út. Ég hef ekki rætt það sérstaklega hvort óeðlilega langur tími hafi liðið. Í fljótu bragði sýnist mér að þetta sé óvenjulangur tími. Ég hef ekki borið það saman við það sem gerst hefur í öðrum málum.

Svo skal ég fjalla um hvort ástæða hefði verið að biðja um frestun. Ég hefði í sporum sýslumannsins spurt mig að því hvort eðlilegt hefði verið að taka boði upp á 50 þús. kr. þegar fyrir lá að bréfið gæti farið kannski á 30 millj. Hefði þá ekki átt að fresta uppboðinu? Ég tek undir það.

Við megum þó ekki gleyma hinu sem skiptir auðvitað verulegu máli í þessu öllu saman. Það er að enn ekki ljóst hvort sektin verður greidd. Verði hún greidd þá hefur ríkissjóður ekkert farið halloka í þessu máli. Þetta gleymist alltaf. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að skyldmenni skuldarans hafa áreiðanlega keypt þetta bréf. Eins hafði skuldarinn beðið um að sýslumaðurinn tæki sektargreiðslu fram fyrir af þeirri ástæðu að þeir vildu koma í veg fyrir það að vararefsingin næði fram að ganga. Á mæltu máli þýðir það að þeir hafa ætlað sér að greiða dómsektina.