Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 17:25:08 (3892)

1998-02-16 17:25:08# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[17:25]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það vefst fyrir hvorugum ráðherranum, fjmrh. og dómsmrh., að kasta allri ábyrgð á sýslumanninn á Akranesi. Já, hann er sekur. Hann hefði átt að setja málið í gjaldþrot o.s.frv. Þeir eru algerlega sammála um það. En þeir bera enga ábyrgð í þessu máli. Nei, af og frá. Þeir eru báðir sammála um það líka. En sýslumaðurinn, það er allt í lagi að hengja hann. Hann ber ábyrgð í málinu.

Vissulega ber hann mikla ábyrgð í málinu. Ég hef margfarið yfir það. En ráðherranir gera það einnig og ég er alls ekki sammála hæstv. ráðherra um að þarna hafi verið um að ræða skuldabréf án gjaldfellingarmöguleika. Hvaða möguleika hefði ríkissjóður haft ef afborgun af þessu skuldabréfi hefði ekki verið greidd núna í febrúar? Það hefði verið hægt að ganga að fyrirtækinu og gjaldfella alla skuldina með dómi. Það er rangt hjá hæstv. dómsmrh. að hér sé um að ræða skuldabréf án gjaldfellingarmöguleika.

Mér finnst mjög sérkennilegt að hæstv. dómsmrh. þessa lands skuli halda slíku fram.