Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 17:49:07 (3898)

1998-02-16 17:49:07# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[17:49]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. nefndi aðeins eitt atriði en ég nefndi það að afborgun hefði ekki komið strax vegna þess að hv. þm. var að gefa í skyn hver væru gæði bréfanna. Ég vildi láta það koma fram að það gerðist ekki með þeim hætti að það hefði verið borgað strax en það má vel vera að hv. þm. hafi orðað það þannig að það hefði verið borgað á sama árinu. En það er út af fyrir sig annað mál.

Sala á bréfum og sala á eignum er það úrræði sem er gripið til og ég held að enginn geti gagnrýnt að það hafi átt að selja bréfin en ekki taka þau sem greiðslu. Ég held að allir séu sammála um það og loksins séu allir farnir að skilja. Menn geta hins vegar deilt um það hvort salan eða uppboðið átti að fara fram þegar ljóst var hvernig boðið var í bréfin. Það er svo önnur saga. (SvG: Það er sama sagan.)

Það skiptir líka máli, þegar sagt er að ríkissjóður sé að tapa fjármunum, ef það gerist að sektin verður greidd. Þetta er atriði sem þarf að fá svar við þegar ráðuneytin eru gagnrýnd. Ef sektin verður greidd þá hefur ríkissjóður ekki tapað neinu. Það er alveg augljóst af afskiptum sýslumannsins á Akranesi og afskiptum lögmanns Þórðar Þórðarsonar að verið var færa greiðslu upp í sektirnar fram fyrir til þess að losna við vararefsinguna. Þess vegna skiptir miklu máli hvort hv. þm. er sammála formanni Alþb. um það að ef sektargreiðslurnar koma þá hefur ríkissjóður ekki tapað neinum fjármunum.