Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 17:51:03 (3899)

1998-02-16 17:51:03# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[17:51]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. er ekki bara rukkari sekta, hélt ég. Ég hélt að hann væri aðallega rukkari skatta. (Fjmrh.: Eingöngu.) Já, eingöngu, takk fyrir. Þess vegna tel ég að miðað við hagsmunagæslu hans fyrir þjóðina hafi spurning hans verið út í hött. En svarið er auðvitað þetta að ef aðilinn borgar allt sem á að borga er það mjög gott. Ég skil ekki hvaða þýðingu spurning af þessu tagi hefur inn í umræðuna því að það liggur alveg í augum uppi að ef viðkomandi kemur á harðahlaupum og borgar alla þessa peninga er það hið besta mál. En ég sé ekki að málið liggi þannig, ég sé ekki betur en það hafi verið haldið þannig á þessu máli að hætta sé á því að ríkissjóður fái ekki neitt upp í kröfur upp á hálft annað hundrað millj. kr.

Varðandi það sem fjmrh. nefndi áðan að það þyrfti að vera hægt að tala við Ríkisendurskoðun erum við algerlega sammála. Ég verð hins vegar að segja að það er dálítill beygur í mér eftir að hafa hlustað á hann varðandi það sem verið er að fara fram á. Mér finnst að hann sé uppi með óskir um það að ef svona nefnd verður til, segjum að það verði til svona nefnd á Alþingi, þá verði hennar hlutverk aðallega að reyna að finna út úr því hvernig Ríkisendurskoðun á að biðjast afsökunar ef hún gerir vitleysu. Allur málflutningur hans hefur gengið út á það að Ríkisendurskoðun hafi tekið eitthvað til baka en gert það á vitlausan hátt. Ef hæstv. ráðherra ímyndar sér að slík nefnd verði eins konar þvottavél fyrir vitleysur framkvæmdarvaldsins er hún einskis virði og þá er ég ekki til í að taka þátt í því að mynda svona nefnd. Hins vegar ef slík nefnd verður til að taka málefnalega á hlutunum með hliðsjón af öllum aðstæðum á hverjum tíma og veita þar öllum aðilum kost á því að flytja mál sitt eðlilega og af sanngirni þá gæti hún verið til góðs.