Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 17:56:44 (3902)

1998-02-16 17:56:44# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[17:56]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla Ríkisendurskoðunar og álit hennar um að ráðuneytin hefðu átt að mæta á uppboði og kaupa skuldabréf. Það er ekkert annað til umræðu. Ég er þess vegna ekki að víkja mér undan aðalatriðum málsins. Ég er að tala um það atriði sem er til umræðu og það er miklu frekar hv. þm. sem er að beina því inn á aðrar brautir. Ég þarf ekkert að vera ósammála honum um það hvernig hefði átt að standa að uppboðinu.

Það sem við erum að fjalla um er að Ríkisendurskoðun hefur borið sakir á dómsmrn. fyrir að kaupa ekki þessi bréf á uppboðinu og taka þau þannig sem greiðslu á sektinni. Undan því erum við að víkja okkur. Ríkisendurskoðun hefur aldrei talað um að það hefði átt að fresta uppboðinu eða þar fram eftir götunum. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið með hv. þm. en við erum að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar og þær ávirðingar sem hún hefur borið á okkur tvo ráðherra í ríkisstjórninni. Hv. þm. getur ekki vikið sér undan því að ræða þann kjarna málsins. Hann lýtur að því að ekki er hægt að neyða okkur til þess að kaupa slík bréf á uppboði og taka slík skuldabréf sem sektargreiðslu. Hvað halda hv. þm. að hefði verið sagt ef málið hefði komið þannig upp að fjmrh. og dómsmrh. hefðu lagt fram peninga á uppboði til þess að kaupa skuldabréf og þar með hefði þessum tiltekna aðila verið gefinn kostur á því að greiða sektina á 20 árum? Ég er hræddur um að það hefði hvinið mjög réttilega bæði í hv. þm. og úti í þjóðfélaginu ef við hefðum staðið að þannig mismunun. Undan þessu erum við að víkja okkur og ætlumst til þess að sé rétt málefnalega en ekki með útúrsnúningum.