Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 17:58:50 (3903)

1998-02-16 17:58:50# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[17:58]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. dómsmrh., meira að segja dóms- og kirkjumrh., ber málflutning sinn upp með því að það hafi verið krafa Ríkisendurskoðunar að við, eins og hann sagði, mættum á uppboði og keyptum bréfin. Þá er næsta spurning þessi: Segir Ríkisendurskoðun það? Ríkisendurskoðun segir það ekki. Ríkisendurskoðun segir hins vegar: Meðan greitt var af bréfunum telur Ríkisendurskoðun að nauðungarsala þeirra hafi verið til þess fallin að valda ríkissjóði fjártjóni. Þetta er aðalatriðið þannig að hér snýst málið ekki um það að Ríkisendurskoðun hafi verið að heimta að menn mættu á uppboði til að kaupa heldur að menn mættu á uppboði til að gæta hagsmuna ríkissjóðs sem gat verið fólgið í því að fresta uppboðinu í þessu tilviki. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er að ég sé ekki betur en þessi málflutningur hjá hæstv. dómsmrh., því miður, nái engu máli. Það þýðir greinilega ekki að ræða þetta við hann því að hann er kominn í einhvern þannig lagaðan pólitískan ham að hann vill rífa málið út úr öllu sem heitir faglegt samhengi. Aðalatriðið er það sem Ríkisendurskoðun var að segja að ekki var gætt hagsmuna skattgreiðenda og þjóðarinnar í þessu máli. Það er aðalatriðið. (Gripið fram í.) Því hefur ekki verið mótmælt. Svo vil ég frábiðja mér það með fullri virðingu fyrir hæstv. ráðherra og Ríkisendurskoðun að kalla mig sérstakan talsmann Ríkisendurskoðunar. Ég vil gjarnan vera það en ég er fyrst og fremst mættur sem þingmaður utan úr þessum sal því að Ríkisendurskoðun á engan sérstakan talsmann í þessum sal í dag.