Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 18:38:10 (3907)

1998-02-16 18:38:10# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[18:38]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær upphæðir sem ég nefndi áðan, þ.e. 154 millj. kr., eru ekki samanlagðar skattaskuldir og sektarkrafan. Þessar 154 millj. kr. eru eingöngu opinberar skattaskuldir en staða ógreiddrar dómssektar er í dag um 44 millj. kr. Þetta eru upplýsingar sem koma beint frá ráðuneytinu.

Það er alveg rétt að sýslumaðurinn starfar á grundvelli laga og reglna og hann á að gæta hagsmuna bæði ríkissjóðs og eins þess skuldara sem í hlut á og hann færði rök fyrir öllum sínum athöfnum. Ákvarðanir hans og gjörningar hafa verið gagnrýndir af Ríkisendurskoðun en ekki síður í þeirri skýrslu sem Ragnar Hall skilaði inn til dómsmrn. og hæstv. fjmrh. hefur örugglega lesið. Þar gagnrýnir Ragnar Hall nánast í öllum liðum ákvarðanatöku sýslumannsins á Akranesi varðandi þetta mál.

Sýslumaðurinn sjálfur er sammála þeirri niðurstöðu Ragnars að hagsmuna ríkissjóðs hafi ekki verið gætt eins og skyldi því að hann fer yfir það í skýrslu sinni að hann reiknaði með því að fulltrúi fjmrn. mætti. Og hann segir m.a. í sinni skýrslu, með leyfi forseta:

,,Ekki lét ráðuneytið heldur mæta við uppboðið. Þau viðbrögð ráðuneytisins komu mér gersamlega í opna skjöldu, því að ég áleit Fjármálaráðuneytið hafa á hendi fjárhagslega hagsmunagæslu ríkisins í hvívetna.``

Hann nefnir ekki að þarna sé hann sérstakur fulltrúi fjmrn., ekki einu orði. Og hann segir líka þar sem hann fjallar um heiðursmannasamkomulag sitt og Helga V. Jónssonar um greiðslu sektar ÞÞ, á einum stað, með leyfi forseta:

,,Samkomulag okkar Helga V. Jónssonar hrl. var heiðursmannasamkomulag, sem miðaði að því að bjarga því sem bjargað yrði í máli, sem var komið í óefni fyrir mistök af hálfu ríkisins.``

Þetta stendur í skýrslu þessa ágæta manns þannig að hann er í raun og veru sammála Ragnari Hall (Forseti hringir.) og Ríkisendurskoðun um að ekki hafi verið staðið þarna rétt að málum. En að vísu gleymir hann að geta þess að hann var sá sem átti að framkvæma.