Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 18:51:12 (3914)

1998-02-16 18:51:12# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[18:51]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu máli virðist maður þurfa að segja hlutina margoft. Ég hef sagt þó nokkrum sinnum í dag. Nánast á hverju einasta ári frá því stjórnarskrárbreytingin varð sem gerði það að verkum að yfirskoðunarmenn ríkisreikninga voru lagðir af, hef ég sagt að nýtt úrræði vantaði, nútímalegt úrræði. Ég hef margoft farið yfir það að slík úrræði eru til í löndunum í kringum okkur. Þar á meðal í Noregi, kontrollkomité eða eftirlitsnefnd. Þar hefur hún þessu hlutverki að gegna.

Þetta er nefnilega ekki í fyrsta skipti sem það gerist sem er óþolandi að Ríkisendurskoðun og handhafar framkvæmdarvaldsins lenda í árekstri og engin niðurstaða fæst í málinu. Þetta er óþolandi, fyrir báða aðila er þetta óþolandi. Þetta er eins og að tala við guð vegna þess að enginn hér tekur upp hanskann fyrir Ríkisendurskoðun eins og hér hefur verið sagt. Í hæsta máta er eitthvað lesið upp eins og menn séu að lesa úr Biblíunni og fyrir vikið verður umræðan aldrei markviss. Það þarf að ganga þannig frá málum að þingið taki afstöðu til álita Ríkisendurskoðunar og sem betur fer held ég að í mjög mörgum atriðum mundi þingið taka afstöðu með ábendingum Ríkisendurskoðunar og beita sér fyrir breytingum. Það held ég.

Í öðrum tilvikum yrði þetta til þess að menn mundu sjá aðra hlið en frá sjónarhorni Ríkisendurskoðunar og þess vegna væri hægt að hreinsa ráðuneytið af ávirðingum sem settar eru fram, kannski óvart.

Það er auðvitað óþolandi fyrir þessa þrjá aðila að þurfa að stunda sín störf án þess að eitthvað sé gert í þessu máli eins og hér hefur verið bent á.