Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 18:53:28 (3915)

1998-02-16 18:53:28# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), ÓE
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[18:53]

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil segja örfá orð í lok umræðunnar sem ég reikna með að sé að ljúka.

Bæði hjá hæstv. fjmrh. og hv. 8. þm. Reykv. hefur það komið fram að Ríkisendurskoðun eigi sér engan málsvara hér í þinginu. Það má allt saman rétt vera. Hv. 8. þm. Reykv. sagði að það væri kannski helst forseti Alþingis sem ætti að bregðast við og verja gerðir Ríkisendurskoðunar ,,en allir vissu að hann mundi ekki gera það``.

Það er rétt hjá hv. þm. að ég taldi ekki rétt að blanda mér í þessar umræður núna. Það var ekki vegna þess að ég teldi að forseti Alþingis gæti ekki tekið til máls í umræðum um mál sem koma fyrir hv. Alþingi. Ég tel það hins vegar ekki sérstakt hlutverk mitt að bregðast við og verja gerðir Ríkisendurskoðunar, þótt hún sé stofnun sem starfar á vegum Alþingis. Ég tel það ekki endilega vera hlutverk forsetans. Þetta vildi ég að kæmi fram.

Ég lýsi sérstakri ánægju minni með það sem fram hefur komið í máli hæstv. fjmrh. og raunar fleiri um að það vanti nefnd til að taka mál eins og þetta, skýrslur Ríkisendurskoðunar og álit, til umræðna. Hæstv. fjmrh. verður að virða það við mig þó ég muni ekki eftir honum sem sérstökum baráttumanni fyrir þessu. Hann hefur aftur á móti ítrekað sagt í ræðum sínum að hann hafi margsinnis mælt með þessu og ég fagna því.

Þetta mál hefur verið til sérstakrar umfjöllunar í sambandi við þá endurskoðun sem staðið hefur yfir núna undanfarin missiri á þingsköpum Alþingis. Ég hef ekki orðið var við annað en að í þeim hópi sem þar hefur komið að verki sé mikil og rík samstaða um að slíka nefnd þurfi að setja á laggirnar í þinginu. Hún mundi fá viðfangsefni sem þetta til umfjöllunar. Hún mundi fá allar skýrslur sem lagðar eru fyrir þingið, ekki eingöngu hinar árlegu skýrslur Ríkisendurskoðunar og skýrslu umboðsmanns, heldur einnig skýrslur sem einstakir hæstv. ráðherrar leggja fyrir þingið, bæði að eigin frumkvæði og fyrir beiðni einstakra þingmanna. Þannig fengi Alþingi tækifæri til að álykta í málunum. Í þessari umræðu hefur þörfin á slíkri nefnd sýnt sig. Eins og ég segi fagna ég sérstaklega stuðningi hæstv. fjmrh. við þessa hugmynd. Það munar um hans stuðning í sambandi við þetta mál. Ég hlýt að láta í ljós þá von að slík ákvörðun verði tekin nú á þessu þingi.

Ég vil svo aðeins ítreka það sem ég sagði fyrr úr forsetastól. Það er sjálfsagt að forsn. Alþingis taki til umfjöllunar þá tillögu sem hæstv. ráðherrar lýstu í umræðunni fyrr í dag. Það mun forsn. kanna og sjálfsagt að kanna hvort einhver önnur úrræði eru fær til að ræða þetta mál frekar. Það munum við ræða í forsn.