Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 14:29:44 (3922)

1998-02-17 14:29:44# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[14:29]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hafi einhver farið með dylgjur úr þessum ræðustóli í umræðunni er það hæstv. dómsmrh. sjálfur. Hann er gamall ritstjóri og veit mætavel að trúnaður sérhvers ritstjóra er fyrst og fremst við þá stofnun sem hann vinnur við. Skiptir þá ekki máli hvort viðkomandi er varaþingmaður einhvers flokks, þingmaður einhvers flokks eða flokksbundinn sjálfstæðismaður eins og varaþingmaður Alþfl. á Suðurl. er nú orðinn. Það er trúnaður hans við stofnun sína sem ritstjóri sem skiptir máli.

[14:30]

Ég spyr hæstv. ráðherra. Hann sagði að þetta væri samsæri þingmanna og varaþingmanna Alþfl. eins og orðið hefði áður í máli sem var tekið til umræðu gagnvart þáv. dómsmrh. Það blað sem hafði forustu um þá umræðu var dagblaðið Vísir. Þar komu þessar umræður fyrst fram. Ritstjóri og ábyrgðarmaður þess blaðs var þá Þorsteinn Pálsson. Voru upplýsingar hans sem ritstjóra og ábyrgðarmanns þess blaðs, þegar sú umræða fór fram, sóttar til glæpamanna og undirheimalýðs? Hvers konar ásakanir og dylgjur eru þetta, virðulegi forseti? Það að þingmaður og varaþm. Alþfl. eigi með samsæri að hafa stjórnað allri fjölmiðlaumfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu, á tveimur sjónvarpsstöðvum, í DV og hvarvetna, er svo út í hött að það þarf ekki einu sinni um það að tala. Hæstv. ráðherra hlýtur að gera sér grein fyrir því sem gamall ritstjóri að ritstjórar meta fréttir eftir fréttagildi og trúnaður ritstjóra (Forseti hringir.) er við það blað og þá stofnun þar sem þeir vinna.