Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 14:32:08 (3923)

1998-02-17 14:32:08# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[14:32]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt munað hjá hv. 4. þm. Vestf. að ég var ritstjóri Vísis. Þáv. varaþm. Alþfl. á Vestfjörðum skrifaði höfundargrein undir nafni og höfundargreinar undir nafni í það blað sem samkvæmt prentlögum eru á hans ábyrgð en ekki ritstjórans. Þær voru tilefni til þeirrar utandagskrárumræðu sem ég vitnaði hér til. Ég tók það fram að ég var ekki að líkja þessum málum saman. Ég var að benda á hliðstæðuna, þ.e. hvernig það mál bar að hér inn á Alþingi og hvernig þetta mál ber að í umræðum hér inn á Alþingi. Það var allt og sumt sem ég var að gera. Ég skil bara ekki hvers vegna hv. þm. æsist svona út af þessu. Ég taldi þetta ekki vera neitt erfitt eða viðkvæmt mál fyrir Alþfl. heldur bara eðlilega upprifjun eða ábendingu um hliðstæðu í aðdraganda umræðu. En hv. þm. kemur hér og skelfur og nötrar í umræðunni eins og þetta sé eitthvað alvarleg ásökun. Viðbrögð hv. þm. koma mér algerlega á óvart. Ég verð að segja það alveg eins og er.