Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 14:36:49 (3926)

1998-02-17 14:36:49# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[14:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef lítið blandað mér í þá umræðu sem hefur verið hér á Alþingi undanfarið ár og mér finnst að hafi verið hálfgert gerningaveður. Ég hélt satt best að segja þegar fyrir liggur skýrsla um það að lögreglan í landinu hafi ekki gert neitt ólöglegt, að þá væri kominn tími til að snúa umræðunni við, snúa blaðinu við og standa við bakið á lögreglunni í því að berjast við fíkniefnasalana.

Ég tel að þessi umræða hafi veikt lögregluna til muna hvað svo sem þingmönnum Alþfl. finnst um það. Mér þykir hins vegar vænt um að heyra að svo var að skilja á framsögumanni að honum fyndist komið nóg, væntanlega eftir þennan dag, og nú ættu menn að taka höndum saman um að styðja lögregluna og ég vona að það geti orðið niðurstaða þessarar umræðu þrátt fyrir ýmislegt sem kann að koma þar fram.

Mitt nafn hefur komið inn í þessa umræðu vegna þess að ég gegndi starfi dómsmrh. í stuttan tíma á árunum 1988 og 1989. Það er rétt að menn úr lögreglunni komu til mín oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og ég gekk líka á fund þessara lögreglumanna inn á lögreglustöð og skoðaði aðstæður þeirra. Ég taldi það vera skyldu mína vegna þess að ég bar ábyrgð á þessum embættum og þeirra embættisfærslu.

Það liggur ljóst fyrir að þessir aðilar áttu með mér og einum embættismanni í dómsmrn. tvo fundi á árinu 1989 þar sem fjallað var um þetta erfiða mál í algjörum trúnaði, enda veit ég að hv. þm. skilja það. Ég vildi ekki útiloka það að lögreglumennirnir notuðu þessar óhefðbundnu aðferðir. Og hvers vegna vildi ég ekki útiloka það? Vegna þess að mér var sagt að hægt væri að koma upp um mjög alvarleg fíkniefnamál sem menn hefðu grun um en ekki væri hægt að upplýsa öðruvísi. Átti þáv. dómsmrh. fyrst hann var settur í þessa stöðu umhugsunarlaust að vísa því frá eða var kannski eðlilegt að hann hugsaði til þeirra fjölmörgu ungmenna sem verða þessum vanda að bráð og hvort hugsanlegt væri að koma í veg fyrir að eitthvert þessara fórnarlamba yrðu sölumönnum dauðans að bráð? Ég skal ekkert segja um það hvernig aðrir hefðu brugðist við í því sambandi en ég trúi því að enginn hv. þm. hefði algjörlega umhugsunarlaust hafnað því, enda væri ljóst að hér væri um löglega aðgerð að ræða.

Síðan fór ég fljótlega úr dómsmrn. Það lá alveg ljóst fyrir að þetta yrði aldrei gert ef það kæmi ekki að gagni. Síðan hafði núv. dómsmrh. samband við mig skömmu eftir að ég fór úr ríkisstjórn 1991 og ræddi þetta mál við mig og í ljósi þeirra aðstæðna sem hann þar lýsti og uppi voru var ég sammála honum um að ekkert annað væri að gera en senda málið til fullnustumatsnefndar. Það var gert og menn vita framhaldið.

Það er hins vegar mjög alvarlegt að upplýsingar sem þessar leki út eins og hér hefur gerst og kannski miklu alvarlegra mál en margir gera sér grein fyrir. Ég tel að það gerningaveður sem hófst á Alþingi hafi með réttu eða röngu leitt fram þessa niðurstöðu. Ég tek því undir með hv. frummælanda að menn ættu að gæta að sér í þessari umræðu þó mér fyndist hann farinn að gæta sín mun betur í þeirri ræðu sem hann flutti hér núna en mér hefur fundist hann gera oft áður.

Spyrja má: Komu þessar tilteknu upplýsingar að einhverju gagni? Já, þær komu að gagni og þær komu að miklu gagni --- það hef ég fengið upplýst --- í tveimur mjög stórum málum. En það er ekki líklegt að slíkt komi að miklu gagni í framtíðinni því allir hljóta að skilja að erfiðara verður að nota óhefðbundnar aðferðir í þessari baráttu eins og nú er komið málum þó það liggi fyrir að ekki er hægt að berjast við þennan vágest nema með óhefðbundnum aðferðum.

Hvað gerir Alþingi Íslendinga? Mér skilst að allshn. þingsins eða stjórnarandstaðan í allshn. þingsins hafi verið að hamast síðustu daga og krefjast þess að allt yrði birt, allt yrði gert opinbert. Gera menn sér enga grein fyrir því hvað þingmenn eru með í höndunum? Gera nefndarmenn stjórnarandstöðunnar í allshn. sér ekki grein fyrir því að í þessari skýrslu eru trúnaðarupplýsingar sem ekki er rétt að birta og er heldur ekki rétt að birta til þingnefndarinnar? Af hverju í ósköpunum vill þingnefnd liggja inni með slíkar trúnaðarupplýsingar? Það er náttúrlega af og frá og er ekki hlutverk Alþingis, að mínum dómi, nema menn vilji breyta Alþingi í einhvers konar lögreglustofnun og að hér eigi að fara fram yfirheyrslur. Það er ekki hlutverk Alþingis. Það er Alþingis að setja lög og það er Alþingis að sjá til þess að þeir sem berjast gegn fíkniefnunum hafi aðstæður til þess og standa við bakið á þeim því að ég vænti þess að við séum sammála um að einn versti glæpur sem fyrir getur komið sé að koma fíkniefnum inn á fólk og stuðla að útbreiðslu þeirra. Það hlýtur að vera skylda okkar að nota öll tiltæk lögleg ráð til þess að koma í veg fyrir það.

[14:45]

Ég tek undir með núv. dómsmrh. að það er erfitt fyrir ráðherra á hverjum tíma að vera í slíkri aðstöðu. Það kemur fyrir í þessum störfum, þó að það virðist ekki vera mjög ríkt í umræðunni, að ráðherrar þurfa að gera ýmislegt fleira en gott þykir. Það mun aldrei verða hægt að koma í veg fyrir að ráðherrar standi ekki í erfiðri aðstöðu. Þá er mikilvægt að þeir ráðherrar hafi góða embættismenn sér við hlið og hafi réttlætiskennd til að taka réttar ákvarðanir. Auðvitað má deila um þær ákvarðanir, það má gagnrýna þær. Ég tel að réttilega hafi verið staðið að málum og ég skora á Alþingi og alþingismenn að taka höndum saman í baráttunni gegn fíkniefnum og standa fast við bakið á þeim ágætu mönnum sem hafa verið að reyna að ráða við þennan vanda á undanförnum árum. Sá aðili sem rannsóknin beindist fyrst og fremst gegn hefur orðið fyrir ómaklegum árásum. En nú liggur fyrir að hann hefur ekkert ólöglegt gert. Er þá ekki kominn tími til að hætta þessu?