Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 15:02:15 (3928)

1998-02-17 15:02:15# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[15:02]

Árni R. Árnason:

Virðulegi forseti. Það er svolítið merkilegt að upplifa það í umræðu hér sem ég vona að sé lokakafli umræðu sem staðið hefur lengi á hv. Alþingi, í hv. nefndum Alþingis og víðar í þjóðfélaginu um málefni löggæslunnar og baráttu hennar við fíkniefnaglæpamenn, að málshefjandi hefur mál sitt ekki á því efni sem tilkynnt var, raunar ekki af forseta Alþingis, heldur einum þingflokksformanni sl. föstudag að yrði umræðuefnið. Ekki síst var merkilegt að upplifa að megintími málshefjanda fólst í að biðjast nánast afsökunar á að hafa ekki fundið fleira ámælisvert en fáein álitamál um framkvæmd óhefðbundinna rannsóknaraðferða lögreglunnar í þessari baráttu. Þess vegna, herra forseti, vil ég benda á að það er rangt að fyrir slíkum aðferðum sé ekki lagagrundvöllur. Umræðuefnið í dag er ekki hvort þær eigi að heimila eða leggja niður, heldur er til meðferðar það mál hvernig eigi að skilgreina heimildir til þeirra, aðferðir og réttarstöðu þeirra sem blandast í þær. Hins vegar er rétt að geta þess og það sé ljóst að réttarstaða lögreglumanna sem stunda þessar aðferðir skyldu sinnar vegna, og yfirmanna þeirra sem hafa upplýsingar um það undir höndum, er alveg klár og hefur komið fram í umræðunni.

Það er rétt, herra forseti, og ástæða til að geta þess aftur og aftur í umræðunni að hvatvís eða óvönduð umræða um störf eða starfshætti lögreglunnar er ekki til þess fallin að hún verði traustari fyrir okkur borgarana, og getur í raun orðið réttarríkinu Íslandi að fótakefli. Af þeim ástæðum verð ég að viðurkenna, herra forseti, að mér hefur oft sýnst álitaefni hvort sumir málshefjendur í þingsölum um þessi mál hefðu ekki átt að láta kyrrt liggja á stundum. Einhverjir hafa spurt sig hvort einmitt þetta geti átt við um rætur umræðunnar, ekki aðeins í dag, ekki aðeins sl. föstudag, heldur allt frá því á síðasta ári þegar hún var hafin, að varkárara hefði verið að fara fetið og hafa jafnvel í huga að stundum er ekki betur af stað farið.

Herra forseti. Ég tel alveg ljóst og það hefur komið fram í þessari umræðu eins og raunar áður, að kröfur til ráðherra um skýr svör við tilteknum spurningum um þau efni sem hafa verið nefnd, hafa ekki verið réttmætar kröfur um upplýsingar sem eigi skilyrðislaust að koma fram heldur hafi jafnvel einhver þeirra verið krafa um að ráðherra brjóti þagmælskuskyldu um að gæta upplýsinga þar sem fjallað er um gögn eða fram eru lögð gögn sem varða persónulega hagi einstakra manna og sem skylt er að lögum að vernda. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég er ekki sannfærður um að við allir, hv. þm., höfum farið rétt með þessi ákvæði.

Nú er ljóst, herra forseti, og það hefur skýrlega komið fram í umræðunni að nokkur ástæða er til að spyrja um heilindi nokkurra þingmanna sem hafa aftur og aftur vakið máls á þessum málum í þingsölum. Það kynni kannski svo að vera að fleiri en einn þurfi að benda á að það sé hugsanlegt eins og áðan var sagt að menn hafi eitthvað betra í huga þegar þeir hófu ræðuna. Ef það er, sem vel kann rétt að vera, verðum við hins vegar að viðurkenna að mikið skelfing hafa mönnum verið mislagðar hendur.

Herra forseti. Það hefur komið fram og var lesið upp í fyrri ræðum við umræðuna að hv. allshn. hefur undanfarna daga og vikur fjallað um erindi minni hluta í nefndinni. Það var einmitt lagt fram með þeim orðum að það væru tilmæli minni hlutans í nefndinni að hún kynnti sér frekar þau mál sem nú hafa verið gerð að umtalsefni. Vegna þess að einn af viðmælendum nefndarinnar hefur sjálfur gert uppvíst það sem hann bað um í nefndinni að yrði haft í trúnaði verð ég að viðurkenna sem nefndarmaður og áheyrandi þeirra orða hans að þau voru öll rétt eftir höfð, en hitt er merkilegt að íhuga að stundum hafa tilteknir nefndarmenn beðið um að sú umræða færi fram í trúnaði og jafnvel haft við þau orð að nefndin væri lokuð nefnd. Það verð ég að viðurkenna fyrir félögum mínum á hv. Alþingi að mér finnst sérkennilegt að þingnefnd geti sjálf álitið sig lokaða nefnd en samt sem áður ryðjast einhverjir ótilkvaddir inn í nefndina til myndatöku eða fréttaöflunar eins og gerðist á einum af þessum fundum.

Herra forseti. Ég held að það sé brýn nauðsyn í þessu samfélagi sem stendur í sívaxandi og síþyngri baráttu við fíkniefnaglæpamenn, einhverja þá erfiðustu sem við höfum kynnst, að við styrkjum og eflum starfshætti og öryggi löggæslunnar svo að við getum sjálf treyst á hana. Ég tel að umræða um að lögreglumenn hafi misfarið með heimildir sínar eða trúnað sé ekki til þess fallin að efla trú á lögregluna sem ég tel að hún verðskuldi. Ég held að rétt sé að við höfum í huga að þau efni sem hér hefur verið vikið að eða dróttað um, að ekki hafi verið rétt með farið, geta varðað lög um ráðherraábyrgð. Þau geta varðað ákvæði í sjálfri stjórnarskránni. Þau geta varðað ákvæði í lögum, sem eru ekki mjög gömul, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, þau geta varðað ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland er aðili að og hefur löggilt sérstaklega. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ef hæstv. ráðherra hefði orðið það á að svara hreint út þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hann í dag og hafa raunar verið bornar upp áður, er vel hugsanlegt að hann hefði orðið ábyrgur gagnvart öllum þessum ákvæðum vegna þess að hann hefði ekki gætt trúnaðar. Ég verð líka að viðurkenna, herra forseti, að ef svo hefði farið teldi ég hugsanlegt að fyrsta mál á dagskrá þessa fundar yrði ekki rætt í dag heldur yrðum við kannski knúin til að leggja fram frv. eða tillögu um að Ísland segði sig frá ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu vegna þess að þá hefði Ísland ákveðið að gæta ekki upplýsinga um persónulega hagi manna. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að það væri ekki það sem ég tel vera aðal réttarríkisins Íslands.

Herra forseti. Ég tel líka að það að krefja lögreglumenn eða yfirmenn þeirra um upplýsingar um mál sem leynt eiga að fara samkvæmt réttindum manna ekki vera aðal réttaríkisins Íslands. Ég tel það, herra forseti, ekki vel til þess fallið að fást við alvarlega glæpi sem verða sennilega börnum okkar mun skeinuhættari en okkur sjálfum, sem erum hér í dag að draga úr aðalsmerkjum og sterkustu kostum réttarríkisins Íslands.