Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 15:10:20 (3929)

1998-02-17 15:10:20# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[15:10]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Á undanförnum mánuðum og missirum hafa iðulega komið upp árekstrar milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Árekstrarnir eru af misjöfnum toga og snúast iðulega um að löggjafarvaldið telur á sig hallað af framkvæmdarvaldinu og veikleikar löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu koma æ betur fram, m.a. að framkvæmdarvaldið hunsi iðulega þingið og ætlist til að þingið sé afgreiðslu- og stimpilstofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Einnig birtist þetta iðulega í að þingið telur að verulega skorti á nauðsynlega upplýsingagjöf frá ráðuneytum og framkvæmdarvaldi og ráðherrar svari oft illa og seint fyrirspurnum og skýrslum frá alþingismönnum, auk þess sem framkvæmdarvaldið skáki í skjóli laga eins og upplýsingalaga og hlutafélagalaga til að leyna Alþingi upplýsingum sem það kallar eftir og fari oft villandi og frjálslega með staðreyndir sem það gefur þinginu.

Sú sem hér stendur hefur ítrekað bent á að Alþingi skorti úrræði til að geta haft nauðsynlegt eftirlit með framkvæmdarvaldinu og tvívegis flutt ásamt öðrum þingmönnum frv. um að komið verði á fót sérstökum rannsóknarnefndum þingsins, líkt og þekkist í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Tvö mál hafa komið upp á þessum síðustu vikum sem staðfesta að nauðsyn sé á slíkum rannsóknarnefndum þingsins sem geti að eigin frumkvæði tekið upp mál og rannsakað og kallað til sín málsaðila.

Allshn. hefur samþykkt á fundi sínum í dag á grundvelli 26. gr. þingskapa að taka til sérstakrar umfjöllunar og athugunar það mál sem við ræðum í dag. Sérstaklega þau atriði sem snúa að störfum og starfsháttum lögreglunnar og að reynslulausninni. Ég tel mjög mikilvægt að nefndin vandi til verka en athugun nefndarinnar á málinu gæti hugsanlega leitt til bættra vinnubragða af hálfu framkvæmdarvaldsins í þessum vandmeðfarna málaflokki og styrkt eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu.

Herra forseti. Ég held að varðandi upplýsingar gagna frá framkvæmdarvaldinu og líka þeirra sem leynt eiga að fara, eigi framkvæmdarvaldið að gera greinarmun á því hvort verið er að veita þingnefndum upplýsingar í trúnaði til að auðvelda þeim að sinna eftirlitsskyldu sinni eða að birta gögn opinberlega. Mál það sem við fjöllum um nú og tengist fíkniefnum, baráttu lögreglunnar við fíkniefnasala og meint óeðlileg afskipti dómsmrn. af því máli er vissulega vandmeðfarið. Makalausar ásakanir dómsmrh. hér áðan um að þingmenn jafnaðarmanna gangi erinda glæpamanna eru alveg með ólíkindum og ekki til þess fallnar að skapa málefnalega umræður um þetta mál. Í baráttunni gegn neyslu fíkniefna, innflutningi þeirra og dreifingu þarf að ríkja breið samstaða og gagnkvæmur skilningur löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, um hvernig taka beri á þessum málum í löggjöf, dómum og framkvæmd mála og fullnustu refsinga á vegum framkvæmdarvaldsins. Ábyrgð hvers aðila fyrir sig þarf að vera skýr í þessu máli og sameiginleg markmið allra þessara aðila eiga vitaskuld að vera öllum ljós. Þannig og aðeins þannig fær fólkið í landinu trú á réttarkerfinu og baráttu stjórnvalda gegn þessum eiturlyfjum sem ógna lífi og framtíð þúsunda einstaklinga í landinu og eru bölvaldur og orsök gríðarlegra vandamála fjölda heimila í landinu. Því er afar brýnt að fólkið hafi trú á réttarkerfinu þegar fíkniefnamálin eru annars vegar og getu þeirra til að vinna eins og kostur er gegn fíkniefnum og kannski það sem mest er um vert að fíkniefnasalar og dreifingaraðilar eitursins fái þannig skýr og afdráttarlaus skilaboð um að tekið sé af fullri hörku í öllu kerfinu af löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi, réttarkerfinu og fullnustuaðilum á þessu máli. Sá hlekkur sem þarf að vera hvað sterkastur til að ná til innflutnings- og dreifingaraðila fíkniefna er vitaskuld lögreglu- og tollyfirvöld. Þess vegna er skylda löggjafar- og framkvæmdarvalds að búa þannig að þessum yfirvöldum að ekkert sé til sparað að þeir geti komið böndum á fíkniefnasalana og stöðvað innflutning og dreifingu fíkniefnanna.

Herra forseti. Ég held að í því máli sem við erum að ræða hafi margt farið úrskeiðis og af þessu máli þurfum við að draga ákveðinn lærdóm. Við þurfum að svara þeirri spurningu hvort nægilega sé búið að lögreglunni, sérstaklega fíkniefnalögreglunni, í tækjum, mannafla og úrræðum, þar á meðal óhefðbundnum rannsóknarúrræðum til að fíkniefnalögreglan geti tekist á við það sem við ætlumst til af henni. Ég tel að verulega skorti á að fíkniefnalögreglan hafi yfir nauðsynlegum tækjum að ráða og var það m.a. staðfest í skýrslu forsrh. til mín frá árinu 1996 um fíkniefnamálin. Hvað hitt atriðið varðar um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir og skort á reglum í því sambandi, þá er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að dómsmrn. á verulega sök í því efni að ekki hafa verið settar reglur um slík úrræði.

[15:15]

Eftir þeim reglum hefur verið kallað í mörg ár af lögregluyfirvöldum og má með fullum rökum gagnrýna dómsmrh. og hans ráðuneyti fyrir að hafa ekki beitt sér sem skyldi í því efni sem á nokkra sök á því hvernig þetta sérstaka mál sem hér er til umræðu hefur þróast. Þegar þetta mál var til umræðu snemma á sl. ári sagði hæstv. ráðherra að von væri á slíkum reglum en nú fyrst fyrir nokkrum vikum er skipuð nefnd í málið til að semja slíkar reglur. Þessi vinnubrögð dómsmrh. eru gagnrýnisverð og hefur hann ekki fært fram neina haldbæra skýringu á því að slíkar reglur hafi ekki verið settar þó kallað hafi verið eftir þeim a.m.k. allt frá árinu 1992. Vil ég í því sambandi vitna til þess sem fram kom í dagblaði 19. mars 1997 og haft var eftir Birni Halldórssyni hjá fíkniefnadeildinni. Hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Að sjálfsögðu verðum við að vinna eftir reglum og þess vegna erum við að biðja um skýr fyrirmæli.`` Þetta er haft eftir honum 1992 og ekki bólar enn á þeim reglum.

Þær upplýsingar sem nýverið hafa komið fram og eru tilefni þessarar umræðu um afskipti núverandi og fyrrverandi dómsmrh. um fullnustu refsingar síbrotamannsins og kannski stórtækasta fíkniefnasala hingað til eru afar sérstakar og málsvörn ráðherranna í málinu satt að segja afar hæpin. Að auki er það varla til málsbóta í þessu máli að á reynslulausnartímanum, um mitt ár 1992, var Franklín Steiner handtekinn með fíkniefni og er það hið svokallaða Tunguvegsmál sem er annað þeirra mála sem týndust í kerfinu og aldrei hefur verið dæmt í eða þetta skilorðsrof á reynslulausninni hafi leitt til þess að Steiner hafi verið settur inn á nýjan leik vegna brota á reynslulausninni. Þannig er þetta mál allt hið sérstæðasta og erfitt að sjá nokkuð sem réttlætir reynslulausnina.

Herra forseti. Það hlýtur að hafa verið fullnustumatsnefndar en ekki dómsmrh. að leggja mat á hvort rök fyrir reynslulausn væru þess eðlis að þau réttlættu reynslulausn. Það er afar þýðingarmikið í réttarkerfinu að fullnusta dóma fari fram án afskipta dómsmrn. eða ráðherra, enda er fullnusta lögum samkvæmt á hendi sérstakrar fullnustumatsnefndar sem metur allar umsóknir um reynslulausn og annast veitingu reynslulausna samkvæmt 40. gr. almennra hegningarlaga. Hlutverk dómsmrh. er aftur á móti að búa svo um hnútana að fíkniefnalögreglan geti sinnt sínu verkefni, m.a. með því að setja reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir, sem ekki hefur verið gert, eins og áður hefur fram komið þó að stíft hafi verið eftir því leitað af lögreglunni.

Fullnustumatsnefnd veitir að jafnaði ekki reynslulausn fyrr en liðinn er helmingur refsitímans, eins og segir í reglugerð um upphaf og lok refsivistar frá 1988, ef um meiri háttar fíkniefnabrot er að ræða eða ef um síbrotamann er að ræða. Hvort tveggja var fyrir hendi í þessu máli, margítrekuð meiri háttar fíkniefnabrot og um síbrotamann var að ræða. Auk þess segir í reglugerðinni að fanga verði ekki veitt reynslulausn nema sérstakar ástæður mæli með því og nefnt í reglugerðinni framúrskarandi hegðun fangans í refsivistinni. Engu að síður hefur komið fram að þegar Franklín Steiner sat inni varð hann tvisvar uppvís að agabrotum og fíkniefnaneyslu innan fangelsisins sem varla getur talist framúrskarandi hegðun í refsivistinni eins og segir í reglugerðinni.

Hæstv. dómsmrh. ber fyrir sig að ráðuneytið hafi engin efnisleg afskipti haft af málinu. Hvað eru efnisleg afskipti, herra forseti? Eru það ekki efnisleg afskipti þegar dómsmrn. telur rétt að fengnum þeim upplýsingum að fyrrv. dómsmrh. hafi veitt lögregluyfirvöldum leyfi til að afla upplýsinga hjá fíkniefnasalanum gegn vilyrði fyrir reynslulausn, að senda málið aftur til fullnustumatsnefndar þannig að hún gæti tekið afstöðu í ljósi nýrra upplýsinga?

Hæstv. ráðherra hafði í ræðustól áðan eftir Jónatan Þórmundssyni að fullnustumatsnefnd hafi verið sett upp við vegg með sama hætti og ráðherra. En ég spyr ráðherra, sem ég vona að hlýði á mál mitt: Sett upp við vegg af hverjum? Af hverjum var fullnustumatsnefnd og ráðherra settur upp við vegg? Var það e.t.v. af fyrrv. dómsmrh. sem hafði tekið ákvörðun í þessu máli eða var ráðherra og fullnustumatsnefnd sett upp við vegg af einhverjum öðrum? Því hefur ekki verið svarað í þessari umræðu og ég óska eftir skýrari svörum frá hæstv. ráðherra um það.

Herra forseti. Hvaða leið átti fullnustumatsnefnd í málinu ef reynslulausn hafði í reynd verið ákveðin í dómsmrn. hver svo sem tímasetning þeirrar ákvörðunar var í tíð fyrrv. eða núv. dómsmrh.? Ég ætla ekki að fullyrða að hæstv. dómsmrh. hafi gefið Alþingi villandi eða rangar upplýsingar um þetta mál en a.m.k. er full ástæða til að skoða það sérstaklega.

Herra forseti. Mér finnst líkt og fyrirspyrjanda afar athyglisvert sem fram kom á Alþingi 17. mars á sl. ári þar sem hæstv. ráðherra sagði að það væri refsivert að semja um að menn gætu sloppið við viðurlög. En orðrétt sagði hæstv. ráðherra:

,,Í þessu efni er rétt að taka fram að óheimilt er með öllu og refsivert af hálfu lögreglu að hylma yfir grun um refsiverða háttsemi, semja um að menn geti sloppið við viðurlög eða ákæru eða á nokkurn annan hátt að láta grun um refsiverða háttsemi afskiptalausa.``

Mér finnst að þetta þurfi frekari skýringa við af hálfu hæstv. dómsmrh. vegna þess að líta verður á það að hér hafi verið samið um að þessi tiltekni maður gæti sloppið við viðurlög. Mér finnst líka að orð og gerðir hæstv. dómsmrh. fari ekki saman þegar hann fullyrðir á Alþingi eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Ráðherra er með öllu óheimilt að hlutast til um það hvaða rannsóknargögn eru birt.`` Engu að síður óskaði hæstv. ráðherra eftir að fá birtan þann hluta úr skýrslu Atla Gíslasonar sem snýr að skipulagi lögreglunnar en sá hluti skýrslunnar er vafalaust unninn upp úr rannsóknargögnum. Ef hæstv. ráðherra heldur því fram að sá kafli í skýrslu Atla Gíslasonar sé ekki rannsóknargagn, þá spyr ég hæstv. ráðherra: Af hverju hlutaðist hann ekki til um að sá kafli sem snýr að meintum afskiptum dómsmrn. af reynslulausninni yrði einnig birtur opinberlega eða a.m.k. fyrir þingnefnd? Sá kafli sem snýr að meintum afskiptum framkvæmdarvaldsins snertir varla rannsóknargögn sem leynt skulu fara samkvæmt lögum. Ég er hér að tala um framkvæmdarvaldið og afskipti ráðherra af málinu. Hvers vegna í ósköpunum birti ráðherrann ekki um leið þann kafla sem snýr að reynslulausninni á sama hátt og hann birtir opinberlega, ekki fyrir þingnefnd, þann kafla sem snýr að skipulagi lögreglunnar? Það getur varla fallið undir ákæruvaldið og sjálfstæði þess. Það er fyrst og fremst dómsmrh. sem getur ákveðið eða leitað til saksóknara um að sá kafli verði birtur og það vekur furðu mína að ráðherra skuli ekki hafa beitt sér í því efni. Það hefði e.t.v. sparað okkur þá umræðu sem hér fer fram í dag.

Ég tel eðlilegt að hæstv. ráðherra muni með sama hætti og hann gerði varðandi skipulag lögreglunnar óska eftir því við saksóknara að sá þáttur dómsmrn. varðandi reynslulausnina verði birtur. Ég minni á að fram hefur komið í fjölmiðlum að Jónatan Þórmundsson, sem var formaður fullnustunefndar á þeim tíma þegar reynslulausn var veitt, hefur óskað eftir því að sá kafli verði birtur opinberlega. Það er reyndar mín skoðun í þessu máli öllu að hæstv. dómsmrh. hefði strax þegar þess var óskað í þingsölum að allshn. fjallaði um málið á grundvelli 26. gr. þingskapa að greiða fyrir því að lokuð þingnefnd eins og allshn. fengi þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru til að Alþingi gæti a.m.k. í trúnaði sinnt eftirlitsskyldu sinni í málinu. Mér finnst það afar sérkennilegt að dómsmrh. skyldi ganga til verka eins og hann gerði að birta opinberlega eingöngu þann kafla sem snýr að skipulagi lögreglunnar þó að gagnrýnin í þingsal hafi einnig og ekki síður beinst að meintum afskiptum dómsmrn. í því máli. Sú spurning er því áleitin: Af hverju bar að óska eftir birtingu á þeim kafla sem snýr að lögreglunni? Hvar er upphafið? Hver braut trúnað og þá gagnvart hverjum? Af hverju hlutaðist hæstv. dómsmrh. bara um birtingu kaflans í skýrslunni gagnvart lögreglunni en ekki ávirðingum dómsmrn. sem ekki er rannsóknargagn í málinu um meinta íhlutun ráðuneytisins í fullnustu reynslulausnar? Ef ráðherrann hefur ekkert að fela í því efni og afskipti hans og ráðuneytisins fyrr og síðar hafa verið með eðlilegum hætti, þá er sú spurning áleitin af hverju hæstv. dómsmrh. hlutaðist ekki um leið um birtingu þess kafla sem snýr að hans ráðuneyti.

Herra forseti. Týnd gögn í fíkniefnamálum hjá lögreglunni, sérkennileg meðferð upptækra fíkniefna hjá lögreglunni, meint afskipti dómsmrh. af ákvörðun fullnustumatsnefndar sem heimilaði ekki reynslulausn síbrotamanns sem síðar er heimiluð vegna afskipta ráðherra í stað upplýsingagjafa um aðra fíkniefnasala, sinnuleysi dómsmrn. um að setja reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir í fíkniefnamálum, allt eru þetta mál sem kalla á svör og sem skoða þarf sérstaklega, kryfja til mergjar og læra af til að á nýjan leik sé hægt að byggja upp þá þéttu varnargirðingu sem þarf að vera til staðar til að sporna gegn innflutningi, dreifingu og neyslu fíkniefna. Það er mikið undir því komið að hæstv. dómsmrh. takist að eiga eðlilegt samráð og samskipti við þingið og allshn. sem að eigin frumkvæði fær nú málið til efnislegrar skoðunar sem leitt getur til úrbóta í góðri samvinnu löggjafar- og framkvæmdarvalds.