Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 15:25:42 (3930)

1998-02-17 15:25:42# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[15:25]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Töluvert hefur verið rætt um það hér að þetta er í þriðja sinn sem mál tengt afbrotum ákveðins einstaklings, afplánun hans og lausn frá fangelsi er tekið upp í þinginu. Hæstv. utanrrh. gerði það sérstaklega að umtali í ræðu sinni að hann teldi að umræðan hefði orðið til þess að veikja lögregluna og frá því að Mannlífs-greinin birtist, um ákveðinn einstakling, Franklín Steiner og afbrot hans og síðan meðferð mála hans, hafi það allt í rauninni orðið til þess að veikja lögregluna. Jafnvel fannst mér ýjað að því að þarna væri um það að ræða að þeir sem tækju þátt í þessari umræðu og umfjöllun allri væru jafnvel á móti því að tekið væri sérstaklega á varðandi fíkniefnavanda barna. Mér finnst þetta afar mikil einföldun á því sem hér hefur gerst á einu ári.

Fyrir rétt um ári voru hér miklar fjölmiðlafréttir, almennar fjölmiðlafréttir, ekki bara Mannlífs-greinin heldur var í flestum fjölmiðlum fjallað um starfshætti fíkniefnalögreglunnar og ýmsar getgátur voru uppi varðandi þá starfsemi. Rætt var í fjölmiðlum um að ákveðinn einstaklingur hefði fengið undirritað byssuleyfi, starfsmaður lögreglunnar hefði mælt með því að hann fengi byssuleyfi. Sagt var frá því að lögreglan hefði selt sínar gömlu byssur einstaklingum úti í bæ og síðan var talað um að lögreglan keypti upplýsingar. Gagnrýnin fólst kannski fyrst og fremst í því að ekki voru til neinar reglur um slík vinnubrögð. Getgáturnar og fréttaflutningurinn sem var uppi var því fyrst og fremst um það að þarna ætti sér stað ákveðinn þáttur í starfsemi lögreglunnar sem hefði hvergi lagastoð. Um það var verið að tala. Er þetta löglegt eða ekki? Þegar Mannlífs-greinin birtist, hin umrædda Mannlífs-grein, þá tel ég hana vera í rauninni rökrétt framhald af þeirri umræðu sem átti sér stað í þjóðfélaginu. Vegna þess að það var nánast sama hvar maður kom þar sem á annað borð var verið að ræða um fíkniefni, sölu, neyslu, afbrot tengd fíkniefnum, þá voru uppi ákveðnar getgátur þess efnis að fíkniefnalögreglan eða lögregluembættið í Reykjavík keypti upplýsingar af þeim sem selja fíkniefni, fíkniefnasölum og glæpamönnum og það gert án allrar heimildar. Í beinu framhaldi af því er síðan farið að rannsaka málið. Og við skulum ekki gleyma því að í grein Mannlífs, sem tók yfir 20 síður, er talað við mjög marga sem gáfu upp nafn sitt. Ekki var eingöngu um að ræða einstaklinga sem óskuðu eftir nafnleynd, heldur var einnig talað við einstaklinga sem gáfu upp sitt nafn og voru þar af leiðandi tilbúnir til að standa við þær upplýsingar sem þeir gáfu.

Þegar þetta var tekið upp í þinginu fyrir rétt tæpu ári var það vegna þess að í greininni og í viðtölum komu fram mjög þungar ásakanir í garð lögreglunnar, sérstaklega fíkniefnalögreglunnar, sem var gersamlega útilokað fyrir okkur á Alþingi að sitja undir og taka ekki til greina. Við urðum að krefjast þess að rannsókn færi fram. Enda segir í skýrslu dómsmrh. um rannsóknarstörf fíkniefnadeildar lögreglunnar, sem lögð er fram samkvæmt beiðni, um ástæðu þess hvers vegna var farið í að vinna þessa skýrslu, þar sem haft er eftir fyrirspyrjanda --- en ég fór fram á að dómsmrh. beitti sér fyrir því að þessi skýrsla yrði unnin --- þá segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

[15:30]

,,Hins vegar er full ástæða til þess að Alþingi krefjist þess að fram fari rannsókn á því hvort þessar fullyrðingar eru réttar, [þ.e. þær sem komu fram, ekki bara í Mannlífs-greininni heldur í fjölmiðlum yfirleitt] þar sem um er að ræða starfsheiður manna og ekki síður vegna þess að sagt er þannig frá starfsaðferðum fíkniefnalögreglunnar að útilokað er fyrir Alþingi að láta sem vind um eyru þjóta.``

Síðan segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Í framhaldi af þessum umræðum ritaði dómsmálaráðherra ríkissaksóknara bréf þann 19. mars sl. en þar segir:

,,Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að beina því því til yðar, herra ríkissaksóknari, að fram fari opinber rannsókn á samskiptum lögreglunnar í Reykjavík og Franklíns Kristins Steiners. Markmið þeirrar rannsóknar yrði að staðreyna sannleiksgildi fullyrðinga um að Franklín Steiner stundaði umfangsmikil fíkniefnaviðskipti, sem varði við refsilög, með vitund og samþykki lögreglunnar. Með því yrði sannreynt hvort lögreglumenn hafi, einn eða fleiri, gerst sekir um brot í opinberu starfi eða eftir atvikum gerst brotlegir við refsilög``.``

Dómsmrh. tók undir í þeirri umræðu að full þörf væri á að vinna slíka skýrslu og beitti sér fyrir því að skýrslan yrði unnin. Það hefði því kannski verið eðlilegt í ljósi þess að beiðnin kom fram á Alþingi að Alþingi fjallaði með einum eða öðrum hætti um skýrsluna. Ég hef fram til þessa verið algerlega mótfallin því að skýrslan væri birt í heild sinni. En miðað við hvernig umræðan hefur þróast tek ég undir þá beiðni, sem ég veit að hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur lagt fram í allshn., að skýrslan verði skoðuð þar í fullum trúnaði. Það hefur enginn farið fram á það í stjórnarandstöðunni, mér vitanlega, að innihald þeirrar skýrslu verði birt algerlega opinberlega, og að öllum verði ljóst allt sem í henni stendur. Það hefur ekki verið farið fram á það, enda eru þessar skýrslur þannig að þær eiga ekkert erindi fyrir almenningssjónir, þ.e. yfirheyrsla yfir fólki sem hefur réttarstöðu grunaðra manna þegar niðurstaðan er síðan sú að ekki er talin ástæða til að sækja það til saka í framhaldi af yfirheyrslum. Það er niðurstaðan. Þá hafa slíkar yfirheyrslur ekkert að gera fyrir almenningssjónir en ýmsir aðrir þættir í skýrslunni geta skipt máli. En hættan er sú, sem hlýtur að hafa komið upp við umfjöllun málsins, að mörg önnur mál tengd þessum einstaka sakamanni og afbrotaferli hans, sem staðið hefur yfir í mörg ár, hljóta að hafa komið fram í þessari skýrslu. Um það hefur hins vegar ekkert verið fjallað hvernig var farið með. Var unnin upp sérstök greinargerð um hvert mál? Eða var það bara látið liggja? Um það hefur ekkert verið fjallað. Það eru slíkir einstaka þættir sem væri kannski ástæða til að taka fyrir til umfjöllunar og þá kannski fyrst og fremst í ljósi þess að beiðnin kemur frá þinginu, en yfirheyrslur yfir einstaka mönnum á ekki að birta. Ef við kæmumst að þeirri niðurstöðu að gera þá kröfu að slíkar yfirheyrslur yrðu birtar, hvar ættum við þá að stoppa í þeim efnum? Og ætlar Alþingi að taka á sig þá vinnu að fara yfir þau gögn og yfirheyrslur í stórum sakamálum sem þeim tilheyra hverju sinni? Eða ætlum við bara að gera það í þessu einstaka tilviki að fara yfir yfirheyrslurnar? Ég ætla ekki að leggja mat á það hvort sú skýrsla sem hér birtist í þingsölum inniheldur öll þau atriði sem ég hefði talið rétt að kæmu fyrir þingið, a.m.k. finnst mér að það hefði mátt gera betur grein fyrir þeim sakamálum sem tengjast þeim einstaklingi sem hér um ræðir, sem ég veit að eru nokkur.

Ég tel að umræðan hafi frá upphafi ekki snúist um annað en það að við höfum ekki búið nógu vel að þessum málum almennt. Þess vegna eru þessi mál tekin upp aftur og aftur og aftur því að ítrekað hefur komið fram að reglur vantar um hinar óhefðbundnu rannsóknaraðferðir. Það vantar fjármagn til fíkniefnalögreglunnar og við bregðumst ekki við með þeim hætti sem við ættum að gera. Mér finnst gott að heyra frá hæstv. utanrrh. að hann ætli nú að beita sér alveg sérstaklega fyrir því að tekið verði á fíkniefnavandamálum barna og unglinga þannig að til dugi. Við þingmenn þekkjum það mjög vel því við erum með slík vandamál nánast daglega á borðum að ekki hefur verið tekið á þeim hvorki hvað varðar lögreglu, forvarnastarfsemi né meðferðarúrræði. Þessi umræða er hluti af því en hún hefur því miður snúist upp í það að ákvörðun sem tekin var fyrir nokkrum árum um hvort beina ætti því til fullnustumatsnefndar að ákveðinn einstaklingur, Franklín Steiner, fengi reynslulausn. Þeirri beiðni er beint til dómsmrh. að hann óski eftir að nefndin fjalli aftur um hvort hann eigi að fá reynslulausn. Það finnst mér ekki rétt. Þetta mál snýst ekki um það. Það snýst ekki um reynslulausn þessa einstaklings. Og ég spyr: Er einhver hér inni sem hefði tekið aðra ákvörðun?

Við erum nú að fara inn í algerlega nýtt umhverfi. Vita þingmenn ekki að ekki eru mörg ár síðan örfáir einstaklingar voru á Litla-Hrauni eða í fangelsum landsins vegna afbrota sem tengdust fíkniefnum eða eiturlyfjum, fyrir utan brennivín og víndrykkju? Það hefur gerbreyst, þetta er algerlega nýtt umhverfi. Við höfum engar reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir sem eru tíðkaðar alls staðar. Og þegar tveir lögreglumenn vinna eftir bestu vitund að því að upplýsa tvö stór fíkniefnamál sem eru liður í að koma upp um mjög alvarlegt fíkniefnamál --- sem hefur hinar ógnvænlegustu afleiðingar og ég bendi á að sölumenn fíkniefna hafa stundum verið kallaðir réttilega sölumenn dauðans --- óska þeir eftir því að þetta sé tekið til endurskoðunar, menn vísi því aftur til fullnustunefndar hvort þessi einstaklingur geti hugsanlega fengið reynslulausn vegna þess að hann býður þeim upplýsingar um þessi tvö stóru mál sem þeir höfðu verið að rannsaka og ekki komist lönd né strönd, þá vísaði ráðherra málunum áfram og nefndin kemst að þessari niðurstöðu.

Við erum á vissan hátt að kaupa upplýsingar. Við höfum engar reglur. Og ég held að hver og einn hljóti að velta því fyrir sér hvort hann hefði tekið aðra afstöðu á þeim tíma. Ég held ekki. En þetta verður hins vegar til þess að reglurnar verða settar. Þessi umræða og sú þróun sem hefur orðið í þjóðfélaginu verður til þess að reglurnar verða settar. Og lögreglumennirnir hefðu aldrei verið settir í þá stöðu að leita eftir þessu í dómsmrn. hefðum við haft reglur, hefðu þeir þekkt þetta umhverfi og kunnað að bregðast við því á annan hátt.

Við verðum að skoða alla þætti þessa máls. Ég tel að reynslulausnin sé ekki það versta. Hins vegar bregst lögreglan þegar viðkomandi einstaklingur brýtur af sér á tíma reynslulausnar. Þá á auðvitað að húrra honum beint í fangelsið aftur, að sjálfsögðu, því aldrei var talað um að maður á reynslulausn mætti brjóta af sér að vild á þeim tíma. Að sjálfsögðu ekki. Um leið og hann gerist brotlegur við lögin á hann að fara eins og skot inn í fangelsið aftur. Þar bregst lögreglan af einhverjum ástæðum, sem mér skilst að lögreglustjóri sé að rannsaka en hafi ekki enn komist að neinni niðurstöðu um hvernig standi á því að gögn máls hafi týnst. Það er vissulega mjög slæmt en hæstv. dómsmrh. hefur beint þeirri spurningu til hans hvort þetta hafi gerst í fleiri tilvikum.

Við skulum ræða þetta út frá því þjóðfélagi og þeim veruleika sem við bjuggum við á þeim tíma sem atburðurinn á sér stað og þeim veruleika sem við búum við í dag, hvernig við bregðumst við og hvað réttlætiskenndin segir okkur, því í þessu tilviki verður jafnvel að fara meira eftir henni en einhverju öðru. Hvað bauð hún að gera á þeim tíma?

Við skulum ekki snúa þessari umræðu í persónulegar orðahnippingar, eins og mér finnst hafa gengið hér á báða bóga. Umræðan um Franklín Steiner, greinarskrifin í Mannlífi, umfjöllun fjölmiðla, umræðan á þingi hefur aðallega snúist um eitt: Að við lærum að bregðast við þeim vanda sem við blasir, þ.e. aukinni eiturlyfjaneyslu sem þýðir aukna eiturlyfjasölu og fleiri glæpi. Þess vegna erum við fyrst og fremst að ræða þetta. Ég skora á hæstv. utanrrh. að beina reiði sinni annað en til okkar þingmanna, t.d. í þann farveg að auka fjármagn til lögreglunnar, í forvarnastarfsemi og til meðferðarúrræða.