Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 15:41:04 (3931)

1998-02-17 15:41:04# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[15:41]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að hafa það sem réttara reynist var það ekki ég sem óskaði eftir frekari rannsókn á skýrslu dómsmrh. heldur kom hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir með þá tillögu í hv. allshn. Þegar við höfðum fengið skýrslu hæstv. dómsmrh. fyrir þingið þar sem vafaatriði komu fram eins og reynslulausn sakamanna, fíkniefnagreiðsla fyrir upplýsingar, byssuleyfi til sakamanna, rannsóknargögn sem fjarlægð höfðu verið o.s.frv. var ekki óeðlilegt að hv. þm. kastaði því fram í nefndinni hvort ekki væri ástæða til að fara nánar ofan í þessa skýrslu. Hv. formaður nefndarinnar, sem nú er við skíðaiðkanir í Ameríku og er ekki til andsvara, kom þá með langa bókun. Nefndin tók undir þessa beiðni hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur en hv. þm. Sólveig Pétursdóttir kom með langa bókun um hvað við ættum ekki að biðja um. Það var þá sem ég bókaði beiðni mína og hún er svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Allshn. Alþingis [ég á við alla nefndina] samþykkir með vísan til 26. gr. þingskapa að nefndin fái að athuga nánar efnisatriði í skýrslu dómsmrh. um rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar sem unnin var skv. beiðni, 92. mál þingsins (þskj. 685). Felur nefndin forseta þingsins að sjá svo til.``

Það var einmitt þess vegna sem ég bar fram þá bókun, að ég vildi ekki taka fram hvað við mættum fá að skoða, það er annarra að ákveða það. Nefndin þurfti ekki að svara sér sjálf. En auðvitað vildi meiri hluti nefndarinnar, sem er skyndilega kominn upp í hv. allshn. sem hefur hingað til ekki skipst í pólitíska vængi, koma í veg fyrir að við fengjum að skoða nokkurn skapaðan hlut. Þetta vildi ég að kæmi fram hér.