Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 15:43:29 (3932)

1998-02-17 15:43:29# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[15:43]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil nefna fjögur atriði sem mér eru ofarlega í huga við þessa umræðu. Í fyrsta lagi að á Íslandi eins og í mörgum öðrum löndum er fíkniefnaneysla vaxandi vandamál. Unglingar og börn ánetjast neyslu þessara efna og þjóðin stendur frammi fyrir gífurlegum vanda og berst vanmáttug gegn þeirri vá.

Í öðru lagi að við harðsvíraða glæpamenn er að fást sem stunda innflutning og sölu ólöglegra efna og er öllum hugsanlegum brögðum beitt til að koma þeim inn í landið og í hendur neytenda.

Í þriðja lagi. Enginn mælir því gegn að hefðbundnar aðferðir lögreglu duga skammt til að koma böndum á glæpamennina. Því hefur þurft að beita því sem kallað hefur verið óhefðbundnar aðferðir af hálfu lögreglu og er það einnig gert á meðal annarra þjóða.

Í fjórða lagi. Stjórnmálamenn hafa haft stór orð á hv. Alþingi um þennan gífurlega vanda og formaður Alþfl. hefur um tvenn áramót gert unglingavandamálið að aðalatriði í áramótahugleiðingum sínum. En hvað gerist þá? Þessum vandamálum sem varða börnin okkar og framtíð þeirra er ýtt til hliðar. Aðalatriðið í augum jafnaðarmanna, hv. þm. Alþfl. og nokkurra annarra þingmanna stjórnarandstöðunnar, hefur síðustu vikurnar verið hvernig fíkniefnalögreglan starfar og er hún gerð tortryggileg í alla staði, þrátt fyrir að rannsókn hafi farið fram á störfum hennar og æðsti handhafi ákæruvaldsins hafi ákveðið að ákæra ekki í málum lögreglunnar, þ.e. starfsaðferðir lögreglunnar brjóta ekki í bága við lög og hún hefur ekki gerst sek um brot í opinberu starfi.

[15:45]

Síðan gerist það að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í allshn., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir og Guðrún Helgadóttir, koma fram með tillögu um að nefndin taki málið upp. Þetta mál átti nefndin að taka upp að eigin frumkvæði samkvæmt 26. gr. þingskapa, að því er mér virtist, fyrst og fremst til að komast yfir skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra, Atla Gíslasonar hæstaréttarlögmanns, sem hefur að geyma rannsókn á störfum fíkniefnalögreglunnar. Ríkissaksóknari hefur tekið þá ákvörðun að birta skýrsluna ekki opinberlega. Sú ákvörðun ríkissaksóknara byggir á þeirri reglu að birta ekki gögn úr rannsókn sem ekki leiðir til ákæru. Sú regla styðst við meginreglu um vernd persónuupplýsinga. Það að birta skýrsluna gæti varðað mannréttindasáttmála Evrópu.

Í skýrslunni er að finna yfirheyrslur yfir fimm tugum einstaklinga sem í dag hljóta að teljast saklausir þar sem ekki hefur verið ákært í málinu. Vegna orða síðasta ræðumanns, hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, þá er það sérkennilegt að hv. þm. kemur upp í andsvari við sinn formann til þess að koma því á framfæri að hún hafi ekki óskað eftir frekari umfjöllun um málið. Þetta er dálítið ruglingslegt. Hún segir síðan frá bókun sem hún lagði sjálf fram.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það kom aldrei nægilega skýrt fram í nefndinni, hvað hv. þm. vildu gera með skýrslu Atla Gíslasonar hæstaréttarlögmanns og hvernig ætti að ljúka málinu. Ég undrast að formaður Alþb. skuli taka undir það að skýrslan skuli birt og tekin fyrir í nefndinni, miðað við það hvernig málið er vaxið. (MF : Hluti af henni.) Niðurstaða nefndarinnar í morgun var hins vegar sú að hafna beiðninni, eins og hér hefur þegar komið fram hjá þeim sem þar voru staddir, tveir hv. þm. voru fjarstaddir, hv. þm. Sólveig Pétursdóttir og Guðrún Helgadóttir. Meiri hlutinn hafnaði því að beiðni kæmi frá nefndinni um að skýrslan skyldi birt í heild sinni en hins vegar var hún sammála um bókun sem felur í sér að málið verði tekið til meðferðar skv. 26. gr. þingskapa, en með almennum takmörkunum. Bókunin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Tillaga hefur verið lögð fram í allsherjarnefnd, með vísan til 26. gr. þingskapa, að nefndin taki til athugunar efnisatriði í skýrslu dómsmálaráðherra um rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar sem unnin var samkvæmt beiðni (92. mál, þskj. 685). Samkvæmt þeirri grein er þingnefnd heimilt að ákveða að eigin frumkvæði að fjalla um önnur mál en þau sem Alþingi vísar til hennar. Um slík mál getur nefnd gefið þinginu skýrslu telji hún ástæðu til.

Mikil umræða hefur átt sér stað um rannsóknarskýrslu Atla Gíslasonar hrl., setts rannsóknarlögreglustjóra, dags. 11. júní 1997. Samkvæmt beiðni lagði dómsmálaráðherra fram skýrslu um rannsóknina sem rædd var á Alþingi 2. febrúar 1998. Þar að auki hefur dómsmálaráðherra birt opinberlega þann hluta rannsóknarskýrslunnar sem fjallar um stjórnunarleg atriði viðvíkjandi almennt skipulag og vinnubrögð ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Loks hefur dómsmálaráðherra óskað eftir því við Ríkisendurskoðun að framkvæmd verði stjórnsýsluendurskoðun hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík.

Þrátt fyrir þessa ítarlegu umfjöllun telur allsherjarnefnd í ljósi alvöru þessa máls eðlilegt að fjalla frekar um það, með vísan til 26. gr. þingskapa, sérstaklega þau atriði er snúa að störfum og starfsháttum lögreglunnar og að reynslulausn fanga. Nefndin telur þó eðlilegt að umfjöllun um þann þátt málsins sem lýtur að störfum og starfsháttum lögreglunnar ljúki ekki fyrr en niðurstaða stjórnsýsluendurskoðunar Ríkisendurskoðunar liggur fyrir.

Frá árinu 1961 hefur ákæruvaldið verið í höndum ríkissaksóknara og er hann æðsti handhafi þess. Afskipti löggjafarvalds af ákæruvaldi samrýmast ekki meginreglum réttarríkis. Í samræmi við vinnubrögð embættis ríkissaksóknara hefur hann ákveðið að birta ekki opinberlega rannsóknarskýrslu Atla Gíslasonar. Sú regla að birta ekki opinberlega gögn úr rannsókn sem ekki leiðir til ákæru styðst m.a. við meginreglur um vernd persónuupplýsinga. Nefndin mun ekki gera meðferð ákæruvalds í þessu einstaka máli að umfjöllunarefni í skoðun sinni en áskilur sér rétt til þess að óska eftir upplýsingum frá dómsmálaráðherra um eftirlit hans á meðferð ákæruvalds, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð opinberra mála. Jafnframt áskilur nefndin sér rétt til að leita frekari gagna frá opinberum aðilum, sé það samrýmanlegt lögum að veita umbeðnar upplýsingar. Nefndin er reiðubúin til að gæta trúnaðar um slíkar upplýsingar.

Allsherjarnefnd minnir á að í áliti hennar með frumvarpi til upplýsingarlaga á þskj. 899 á 120. löggjafarþingi lagði nefndin áherslu á að endurskoðun á lögum um meðferð opinberra mála sem boðuð var af dómsmálaráðherra yrði hraðað eins og kostur væri og að sérstaklega yrði hugað að í rétti til upplýsinga í lögum um meðferð opinberra mála. Hyggst nefndin kanna stöðu þessa máls.``

Lýk ég þar með vitnun í þá bókun sem samstaða náðist um í hv. allshn. í morgun.

Hæstv. forseti. Þetta er að mörgu leyti nokkuð sérkennileg umræða en hún hefur þó einkum beinst að reynslulausn Franklíns Steiners. Hæstv. dómsmrh. og hæstv. utanrrh. hafa farið yfir það mál. Þar voru engin lög brotin eins og hefur komið fram hjá allshn. en að sjálfsögðu orkar allt tvímælis þá gert er. Það getur þó engan veginn verið aðalatriði í fíkniefnavanda þessa þjóðfélags hvort sá síbrotamaður, sem ég að sjálfsögðu hef skömm á, fékk reynslulausn eftir að hafa afplánað dóm sinn að hálfu eða tveimur þriðju ef það leiddi til þess að fleiri glæpamenn næðust og hugsanlega yrði einhverjum forðað frá eitrinu.

Á þessum tíma var löng hefð fyrir því að náðun ætti sér stað þegar afplánun væri hálfnuð, þó ekki tíðkaðist það með alvarlegri brot. Í þessu tilfelli var ekki um náðun að ræða heldur reynslulausn.

Ég vil að lokum segja það að áherslur margra hv. þm. í þessu máli eru mér illskiljanlegar þegar um svo alvarlegt mál er að ræða, þ.e. fíkniefnavandann. Ég ætla ekki að kveða upp úr um það hvort ákveðnir fjölmiðlar stjórna hv. þm. eða öfugt. Þó er víst að ef þessari umræðu fer ekki senn að ljúka, á þeim nótum sem hún hefur verið, þá verður efnt til mikillar veislu í undirheimum glæpamannanna.