Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 15:56:54 (3935)

1998-02-17 15:56:54# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[15:56]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Alltaf versnar nú málið. Mér finnst hv. formaður nefndarinnar draga verulega í land með sína túlkun á þessari bókun. Túlkunin var skýr í nefndinni í morgun. Hún var sú að nefndin gæti leitað eftir því að fá a.m.k. hluta af skýrslu Atla Gíslasonar birta. Minni hlutinn fór ekki fram á að hafa afskipti af ákværuvaldinu heldur einungis að þeirri ósk yrði beint, annaðhvort til dómsmrh. eða til ríkissaksóknara, að fá að fara yfir þessa skýrslu í trúnaði. Hægt væri að fara yfir hluta hennar eða skýrsluna alla, allt eftir því hvað ríkissaksóknari sjálfur ákvæði. Það væri auðvitað í hans valdi að ákveða hvort nefndin fengi skýrsluna, með hvaða hætti hún fjallaði um hana og hvort hún gæti fjallað um einhverja ákveðna hluta hennar.

En meiri hlutinn ætlar að ákveða það strax að nefndin, sem á að sinna eftirlitshlutverki, að hún geti ekki einu sinni beðið um ákveðna kafla í skýslunni, t.d. þann sem snýr að reynslulausninni. Það væri þá auðvitað saksóknara sjálfs að hafna því ef svo bæri undir. Ég tel það ekki óeðlileg afskipti af ákæruvaldinu, langt í frá.