Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 16:10:19 (3938)

1998-02-17 16:10:19# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[16:10]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Að undanförnu hefur átt sér stað mikil umræða um störf fíkniefnalögreglu og má segja að sú umræða hafi þróast yfir í harðnandi orrahríð sem hefur ýmist farið fram innan veggja Alþingis eða í fjölmiðlum nema hvort tveggja sé. Reyndar er athyglisvert að sjá hvernig tengsl ýmissa fjölmiðla og þingsins eru varðandi mál þetta og er út af fyrir sig umhugsunarefni.

Hinn stöðugt vaxandi þrýstingur nokkurra krossfara hefur smám saman þróast með þeim hætti að nú er spjótum beint að hæstv. dómsmrh., fyrrv. hæstv. dómsmrh., ríkissaksóknara og fíkniefnalögreglu og má segja að dagamunur sé hvar áherslan liggi hverju sinni. En það er jafneinkennilegt að þessum aðilum virðist nú stillt upp sem hinum seku, hinum grunsamlegu, meðan fíkniefnasalarnir virðast hvítþvegnir sakleysingjar.

Um hvað snýst málið? Í rauninni snýst það aðeins um eitt: Hvort fíkniefnalögreglan hafi beitt óhefðbundnum aðferðum til þess að upplýsa fíkniefnamál. Hvort fíkniefnalögreglan hafi brotið lög og reglur og hvort yfirmenn þeirra hafi vitað af því. Um það snýst umræðan og hér hefur komið fram og reyndar legið fyrir um hríð að ekkert ólögmætt hefur komið fram um málið. En ég minnist þess varla í eitt skipti að hafa heyrt hina siðvöndu krossfara spyrja grundvallarspurningarinnar, nefnilega þeirrar spurningar hver skyldi vera ástæðan fyrir vinnulagi fíkniefnalögreglunnar.

Herra forseti. Rétt er að vekja athygli á því að fíkniefnalögreglan er ekki að fást við umferðarlagabrot. Veruleiki hennar er allur annar. Það er nefnilega til annar heimur í þessu samfélagi. Það eru svokallaðir undirheimar, heimur glæpa, heimur fíkniefna og hinna alvarlegri brota. Í þeim heimi gildir frumskógarlögmálið eitt. Þar streyma vænar fúlgur fjármagns sem harðsvíraðir og kaldrifjaðir glæpamenn stýra. Hjá þeim gilda engin lög eða reglur aðrar en þær að koma út eitrinu og græða pening með öllum tiltækum ráðum. Hvort neytandinn er karl eða kona, barn eða fullorðinn má einu skipta, bara varan, eitrið sjálft, komist á markað. Þessum kóngum undirheima hefur orðið vel ágengt. Nýjustu fregnir herma að hassneysla sé að verða vel þekkt meðal 12 ára barna á Íslandi. Þessir glæpamenn eru hægt en bítandi að ná tökum á samfélagi okkar þrátt fyrir yfirlýstan vilja almennings til að ráðast gegn þeim. Þeir vaða fram með fullar hendur fjár og beita nýjustu og fullkomnustu tækni. Þeir eru ávallt skrefinu á undan. Svo teflum við fram fíkniefnalögreglu til að halda í við þessa glæpamenn. Hver skyldi vígstaða hennar vera gagnvart öflugum her glæpalýðsins? Hún er fjársvelt, fámenn, illa búin tækjum og bundin lagarömmum sem gefa smyglurum og eiturlyfjabarónum Íslands víðáttumikið svigrúm til glæpsamlegra starfa sinna. Lögreglan er ávallt í þeirri stöðu að vera skrefinu á eftir. Ég spyr: Láir þeim nokkur maður að grípa til óhefðbundinna aðgerða? Þær eru réttlætanlegar í því skyni að komast inn í þann dulda heim sem fíkniefnaheimurinn er. Þær eru nauðsynlegar og réttlætanlegar til að ná árangri. Lögreglumennirnir setja sjálfa sig í lífshættu daglega við að berjast gegn vel skipulögðu sölukerfi dópsalanna.

Ég lýsi því sem skoðun minni að sé lagaramminn þröngur um of þá á að víkka hann. Séu reglur of takmarkandi á að opna þær og af þeim sökum fagna ég því sérstaklega að á vegum hæstv. dómsmrh. skuli starfa nefnd til þess að skoða hinar óhefðbundnu aðferðir fíkniefnalögreglunnar og lögreglunnar með þátttöku reyndra fíkniefnalögreglumanna þar sem ég teldi að einnig ættu að koma að tollverðir og dómarar úr ávana- og fíkniefnadómi. Ég trúi því að sú nefnd muni skila tillögum þar sem tekið er mið af því starfsumhverfi sem þessar hetjur landsins eru að glíma við og að ramminn verði sniðinn að þeim. Það er skylda okkar.

[16:15]

En eftir krossför nokkurra þingmanna sitja fíkniefnalögreglan og yfirmenn hennar skyndilega uppi sem hinir seku, hinir grunuðu. Skyldu ekki barónarnir glotta? Skyldu þeir ekki fagna því hvernig grafið hefur verið undan trúverðugleika fíkniefnalögreglunnar, flett ofan af vinnulagi hennar og þeim þannig fært á silfurfati aðgengi að íslenskum ungmennum með fíkniefni sín? Ég kalla þetta eina aumustu og lágkúrulegustu aðför í pólitísku upphlaupi þar sem aðstandendur virðast kæra sig kollótta um afleiðingarnar. Það er ástæða til að velta afleiðingunum fyrir sér.

En á þessu máli eru fleiri hliðar. Það er umhugsunarefni hvernig ónefndir fjölmiðlar leyfa sér að veitast að æru einstakra manna samhliða því sem þeir boða heiðarlega stjórnsýslu. Sömu fjölmiðlar taka sér dómsvald og skirrast ekki við að svipta dugmikla aðila málsins ærunni. Þar gilda önnur siðalögmál. Þeir sem hætta lífi sínu og limum í baráttunni í hinum grimma fíkniefnaheimi eru gerðir sökudólgar. Hinir eiginlegu glæpamenn gleymast.

Hver er tilgangurinn með því að velta sér upp úr sjö eða átta ára gömlu máli sem þar að auki er talið löglegt að öllu leyti? Gera menn sér ekki grein fyrir því að lögreglan verður að hafa ákveðið sjálfstæði? Henni er nauðsynlegt að starfa með leynd til þess að geta upplýst mál og náð árangri í að vernda börn okkar og unglinga gegn glæpamönnum.

Í mínum huga leikur enginn vafi á að lögreglan á að njóta vafans ef einhver vafi er. Markmið hennar er að berjast gegn eiturlyfjum í þágu barna okkar og unglinga. Þar tek ég eindregna afstöðu með lögreglunni og gegn fíkniefnasölum. Vinnulag krossfaranna í þessu máli minnir á helst á tíðaranda villta vestursins þar sem ekki var óalgengt að fólkið á götunni drægi hina grunuðu úr fangelsum og hengdu í næsta tré án án dóms og laga. Mér finnst samspil krossfaranna og æsifréttablaða vera af svipuðum toga utan það að ekki er sótt í fangelsin heldur ráðist á dugmikla lögreglumenn, embættismenn og stjórnmálamenn og tilraun gerð til að svipta þá mannorði og starfsheiðri. Það skyldi þó ekki vera raunverulegur tilgangur krossfaranna? Málflutningurinn allur ber slíkan keim.

Ekki er langt síðan sú stjórnsýsla tíðkaðist hérlendis að embætti sýslumanna önnuðust rannsókn mála og dæmdu síðan í sömu málum. Þessu var breytt á hv. Alþingi til að skerpa stjórnsýsluna og styrkja aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds. Í kjölfarið þótti eðlilegt að efla sjálfstæði lögreglu og embætti ríkissaksóknara. Í herför krossfara virðast menn hins vegar vilja ryðja þessum þætti til hliðar, kippa stoðum undan sjálfstæði ríkissaksóknara og leggja starfsaðferðir lögreglunnar fyrir almenning, jafnt hina heiðvirðu sem glæpalýðinn. Ég fæ ekki betur séð en krossfarar vilji blanda öllum stigum málsins í einhvern einkennilegan, pólitískan hrærigraut. Hver skyldi hagnast á því? Skyldu það vera börnin okkar, lögreglan, saksóknari eða fíkniefnasalar? Ég tel að þessar árásir á fíkniefnalögregluna og dylgjur um embættisfærslur skili í raun engu öðru en því að veikja löggæsluna og styrkja fíkniefnaheiminn. Það kalla ég lágkúru.

Herra forseti. Mál er að linni. Fíkniefnaváin er ein mesta ógnin við íslenskt samfélag í dag. Gerum okkur grein fyrir því að dópsalinn er sjúkur. Hann leitar stöðugt nýrra leiða til að fjármagna fíkn sína. Í þeirri leit lætur hann sig engu varða hverjum er fórnað. Fórnarlömbin eru í vaxandi mæli börnin okkar og unglingarnir. Skylda okkar er að vernda þau með öllum tiltækum ráðum. Við erum á villigötum ef púðrinu er eytt í að gera þá tortryggilega sem leggja sig hvað harðast fram í þessum vörnum, lögreglumenn, sérmenntað lið í fíkniefnabrotum, embættismenn og stjórnmálamenn. Á meðan flæða eiturlyfin yfir landið og sýna engum grið. Við skuldum börnum okkar það að snúa bökum saman til að styrkja með öllum tiltækum ráðum löggæslu á þessu sviði. Séu leikreglur óskýrar eða lagarammi of þröngur ber okkur að breyta þeim og bæta þannig að lögreglan geti sótt fram af fullri hörku gegn þeirri vá sem eiturlyfin eru. Það er kjarni málsins. Að beina athyglinni að öðru er ekkert annað en eymdarlegt, pólitískt upphlaup sem skaðar þá sem síst skyldi.