Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 17:24:37 (3949)

1998-02-17 17:24:37# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[17:24]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Sagt er að einn frægasti stjórnmálamaður Íslands hafi einu sinni verið beðinn um liðveislu til að tryggja að ákveðinn þingmaður færi ekki aftur í framboð og kæmist á þing. Og hann spurði: ,,Er þetta ekki lýðræðislega uppbyggður flokkur?`` Hinir jánkuðu því. ,,Eiga þá ekki asnarnir að eiga sinn fulltrúa líka?`` sagði hann og neitaði alfarið að taka þátt í aðför að viðkomandi þingmanni.

Ef við göngum út frá því að þingmenn séu og verði þverskurður af þjóðinni, eins og ég hygg að þeir séu, hvorki betri né verri, þá hlýtur það ævinlega að gerast að á Alþingi séu menn með mjög skiptar skoðanir á ýmsum málum.

Á undanförnum árum höfum við sameinast um margt í breytingum á réttarkerfi okkar og unnið að því að aðgreina sem mest dómsvaldið og ákæruvaldið. Þar með höfum við reynt að stuðla að því að pólitísk áhrif drottni ekki á nokkurn hátt yfir ákæruvaldinu eða dómsvaldinu. Við höfum ekki stigið þessi skref til fulls, erum ekki búin að ganga jafnlangt og t.d. Bandaríkjamenn hafa gert í þessum efnum. Þeir hafa þá reglu að þegar skipt er um hæstaréttardómara þá hefur forsetinn tilnefningarvaldið en þingið neitunarvald, telji það af einhverri ástæðu að hægt hefði verið að velja hæfari mann. Þetta getur leitt til þess að nokkurn tíma taki að skipa dómara en ég tel að þetta sé til mikillar fyrirmyndar. Hér á landi mundi þetta líklegast eyða grunsemdum um of sterka stöðu einhverra aðila í Hæstarétti Íslands.

Við höfum lagt á það mikla áherslu að sjálfstæði dómsvaldsins sé ótvírætt og ekki um það deilt. Og við höfum jafnframt haft þá stefnu að ákæruvaldið eigi að vera sjálfstætt. Það á ekki að lúta pólitískum duttlungum ráðherra.

Í V. kafla laga um meðferð opinberra mála er vikið að ákæruvaldinu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í 25. gr.:

,,1. Með ákæruvald fara ríkissaksóknari og lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri.

2. Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds. Hann skal skipaður af ráðherra ótímabundið og fullnægja lagaskilyrðum til skipunar í dómaraembætti við Hæstarétt. Hann skal njóta sömu lögkjara og hæstaréttardómarar, eftir því sem við verður komið.``

Með þessu er komið í veg fyrir það m.a. að hann verði settur af, t.d. af ráðherra sem telur hann ekki hafa verið sér þóknanlegan. Mikið þarf að gerast svo hægt sé að setja slíkan mann af, það þarf lögsókn á hendur honum. Ég hygg að það væri skrýtið ef staða ríkissaksóknara væri sú að hægt væri að sópa honum burt eins og hverjum öðrum manni. Það væri þá hægt á þeirri forsendu að verkefni hafi þrotið eða eitthvað þvílíkt eða að sú skoðun yrði ofan á að yngja bæri upp í embættinu. Hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur enda mundi það skerða sjálfstæði ríkissaksóknara.

Ég vona að allir þeir sem fjallað hafa um þessi mál séu sammála um að nauðsyn er að embætti ríkissaksóknara sé sjálfstætt. Pólitískur ráðherra má ekki hafa tök á að ráðskast með það fram og til baka. Þess vegna kemur nú upp sú áleitna spurning: Er það eðlilegt að pólitískt vald í landinu taki ákvörðun um að virða að vettugi þá ákvörðun ríkissaksóknara að birta ekki ákveðna skýrslu, hversu ósammála sem menn eru því, jafnvel þó að aðeins allshn. eigi að fjalla um þá skýrslu?

[17:30]

Ég vona að allir sem um þessi mál hafa fjallað séu sammála um að mikil nauðsyn er og mikil alvara að embætti ríkissaksóknara sé sjálfstætt og að ekki sé hægt af neinum pólitískum ráðherra að ráðaskast með það fram og til baka. Þess vegna hlýtur sú spurning að vera mjög áleitin hvort það sé eðlilegt, hafi hann tekið þá ákvörðun hvort sem okkur líkar hún vel eða illa, að leggja til að ákveðin skýrsla sé ekki gerð opinber og að pólitískt vald í landinu taki ákvörðun um að breyta því jafnvel þó að menn segi að það eigi aðeins að vera á þann veg að allshn. fjalli um þá skýrslu. Það er þó nokkuð stór ákvörðun að leggja slíkt til.

Eins og ég gat um í upphafi máls mín eru stjórnmálamenn þverskurður af þjóðinni, allsherjarnefndarmenn eru það sömuleiðis og gamli málshátturinn segir: Þjóð veit þá þrír vita. Þetta eru nú hin gömlu sannindi. Þess vegna hljótum við að spyrja okkur þeirrar spurningar mjög alvarlega hvort rétt sé undir slíkum kringumstæðum að leggja á það mikinn þrýsting að breyta afstöðu slíks manns.

Nú hef hvorki ég né aðrir hér inni lesið þessa skýrslu og erum við því ekki dómbærir á það af þeirri ástæðu hvort þetta sé röng eða rétt ákvörðun. Kannski mundum við breyta um skoðun ef við læsum skýrsluna, kannski kæmumst við þá að því að við hefðum talið rétt að birta hana. En hitt er staðreynd að ef við viljum beita pólitískum þrýstingi til að þvinga það fram að skýrslan verði birt, þá erum við að draga úr styrkleika þessa embættis, þá erum við aftur að færa það til fortíðarinnar þar sem ákæruvaldið var mjög tengt dómsmrh. sjálfum prívat og persónulega. Þetta segi ég hér og nú vegna þess að mér finnst að þessi skýrsla geti aldrei verið svo stór og geti aldrei verið slíkur örlagavaldur að rétt sé að stíga það skref til baka. Ég held að það væru mikil mistök ef það væri gert.

Þetta er annað af þeim stóru málum sem hér hafa verið til umræðu. Ég skil út af fyrir sig vel þá aðila sem telja að birting þessarar skýrslu mundi gefa þeim betri stöðu til að verja sitt mál og sínar gerðir. Ég skil þess vegna vel afstöðu lögreglustjóra Reykjavíkurborgar og ég skil líka út af fyrir sig afstöðu þeirra sem hafa sótt þetta mál. Þeim finnst að þeir eigi aðeins litla sókn eftir til að fá allan vilja sinn fram. En engu að síður hljóta menn að verða að gera það upp við sig í þessu máli hvort við ætlum að stíga skrefið til baka. Ætlum við að leggja það til að ríkissaksóknari verði háður stjórnmálum landsins á þann hátt að hann verði þjónn þeirra þó það sé ekki nema í því tilfelli að hann þurfi þvert um geð að afhenda skýrslu sem hann telur rétt að sé bundin trúnaði? Ég hef gert grein fyrir skoðun minni í þeim efnum og ætla ekki að fjalla nánar um það.

Hitt atriðið sem ég tel rétt að víkja að er að samkvæmt 33. gr. laga um meðferð opinberra mála er vikið að yfirheyrslu yfir sakborningi, og með leyfi forseta vildi ég fá að lesa þá grein:

,,Sakborningur skal við yfirheyrslu fyrst spurður um nafn, kennitölu, stöðu og heimili. Ef sakborningur kýs að gefa skýrslu um sakarefnið skal brýnt fyrir honum að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kann að skipta.

Spurningar skulu vera skýrar og ótvíræðar. Ekki má rugla sakborning með ósannindum eða á annan hátt eða beita hann neins konar ólögmætri þvingun í orði eða verki. Sakborningi má ekki gefa fyrirheit um ívilnanir eða fríðindi ef hann meðgangi, enda séu slík fyrirheit ólögleg eða ekki á valdi yfirheyranda að veita þau.

Sakborningi er heimilt að ráðgast við verjanda sinn um réttarstöðu sína meðan á yfirheyrslu stendur, enda trufli það ekki skýrslutöku að mati yfirheyranda. Nú greinir yfirheyranda og verjanda á við yfirheyrslu, og skal henni eigi að síður fram haldið, en rétt á verjandi að gera í stuttu máli grein fyrir afstöðu sinni með bókun.``

Hérna er fjallað um þetta stóra ágreiningsefni sem er á þann veg í íslenskum lögum að þú kaupir þér ekki frið fyrir gjörðir þínar þó að þú upplýsir sakir á annan mann.

Í bandarískum rétti er þetta á annan veg. Það hefur komið mjög skýrt fram í umræðunni að sá saksóknari sem skipaður hefur verið til að sækja að forseta Bandaríkjanna virðist hafa vald til þess að geta boðið vissa hluti ef viðkomandi aðili skýrir frá málum sem snerta forsetann. Mér finnst þetta mjög tvíbent því mér finnst eiginlega að með þessu móti sé óbeint verið að gera því skóna að hægt sé að kaupa mann til að bera ljúgvitni. Nú getur verið að viðkomandi segi satt og hann viti eitthvað um annan mann og það með réttu. En ef hann aftur á móti veit að hans sakir verði minnkaðar lýsi hann einhverju yfir, þá er freistingin vissulega mikil að bera ljúgvitni gagnvart einhverjum og tryggja sér þannig léttari refsingu en hann hefði ella hlotið. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það orki mjög tvímælis hvort nokkurt vit sé í því að breyta þessu ákvæði.

En ég vil ekki að þessu ákvæði sé ruglað saman við hitt, hvað gerist eftir að maður hefur verið dæmdur og situr í fangelsi. Eftir að maður hefur verið dæmdur og situr í fangelsi, þá er það svo að við höfum það í okkar venjum að hugsanlegt sé að hann fái náðun. Ég tel að náðunarkerfið sé eins og hver önnur vitleysa ef því er beitt á þann hátt að það sé sama hvernig maðurinn hegðar sér eða hvað hann gerir, hann skuli alltaf fá náðun. Þá þýðir það í reynd ekkert annað en að dómurinn er í praxís styttri en upp er kveðinn. Ég tel að einmitt þarna hljóti það að koma inn í hvort maðurinn á einhvern hátt reyni að verðskulda náðun. Ég er þeirrar skoðunar að ef fangi sem situr inni og hefur, hvort sem við teljum af góðum eða slæmum hvötum, breytt hátterni sínu og vill stuðla að því að vera löghlýðnari borgari en hann hefur verið, þá sé beint og óbeint ómögulegt annað en að fullnustunefnd taki tillit til slíkra hluta.

Við skulum hugsa okkur bankaræningja sem steinþegði yfir því hvar hann hefði grafið 100 millj. þegar hann var settur inn. En eftir að hann væri búinn að sitja í steininum helminginn af sínum tíma, þá vill hann upplýsa hvar féð er og skila því. Mundum við ekki telja rétt að taka tilboðinu og taka þátt í að náða hann til að fá peningana til baka? Þetta virðist kannski of einfalt dæmi til að réttlætanlegt sé að nota það sem dæmi.

Mundum við ekki líka hugsa okkur um tvisvar ef maður sem væri aðili að mjög stóru eiturefnamáli, og við vissum að fleiri aðilar hefðu staðið að því með honum og búið væri að dæma hann og hann kominn inn, tæki þá ákvörðun að upplýsa meira um málið? Mundum við ekki á þeirri stundu telja það mjög freistandi að verða við þeirri beiðni og reyna að gera eitthvað til að ná meiri tökum á því máli sem við áður höfðum óupplýst að stórum hluta, hvort sem hann mundi stunda eiturlyfjasölu eða ekki eftir það? Þess vegna finnst mér að ekki sé með öllu sambærilegt hvort menn eru að tala um það sem fram kemur í 33. gr., hvað er gert meðan réttarhöld fara fram eða áður en búið er að dæma, eða hvað er gert á þeirri stundu þegar menn taka ákvörðun um að náða mann.

Ég vil bæta því við í lokin að mér er illa við og tel það ávallt mjög hæpið mál að fara með umræður um einstaka sakamenn á Alþingi Íslendinga.