Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:19:34 (3956)

1998-02-17 18:19:34# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:19]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að játa það að seinni ræða hæstv. dómsmrh. var með allt öðrum brag en sú sem hann flutti fyrr í dag. Ég þakka fyrir að hann skuli hafa komist niður á jörðina.

Vegna þess að ég skoraði á hæstv. dómsmrh. að benda á hvar sá sem hér stendur eða aðrir þingmenn jafnaðarmanna hefðu verið með dylgjur eins og hann lýsti hér fyrr í dag held ég að nauðsynlegt sé að vekja athygli á því að þingflokkur jafnaðarmanna átti frumkvæði að því að taka þetta mál á dagskrá með beiðni um skýrslu í haust. En allur málflutningurinn um samsærið og allt það sem hann setti fram í dag tengist tímanum áður en þingflokkur jafnaðarmanna kom að þessum málum. Ætli það sé ekki hálft ár eða svo? Þessum staðreyndum þarf að halda til haga.

Í öðru lagi fór þingflokkur jafnaðarmanna, að mínu frumkvæði, fram á að umræðan um skýrslu þá sem hæstv. dómsmrh. lagði fyrir þingið yrði 2. febr. sl. Þingflokkurinn fór fram á að fá skýrslu um málið áður en það var tekið til umræðu. Svo sitjum við undir því í dag að við höfum verið að brjóta niður lögregluna, staðið í einhvers konar samsæri, og raunar náði ég nú ekki nema broti af þeim dylgjum sem heyra mátti í því leikriti sem hæstv. dómsmrh. flutti í fyrri ræðu sinni.

Í seinni ræðunni var hæstv. ráðherra þó aðeins að ná áttum og ég er sáttur við það. En ég vil ítreka þá fyrirspurn sem ég lagði fyrir hann áðan og hann treysti sér ekki til þess að svara: Hvaða dylgjur hefur sá sem hér stendur eða aðrir þingmenn jafnaðarmanna verið með í garð hæstv. dómsmrh.? Ég held að nauðsynlegt sé að það komi fram svo við vitum hvernig því beri að svara.