Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:24:43 (3961)

1998-02-17 18:24:43# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:24]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar birtingu á sakargögnum þá hef ég áður gert grein fyrir því máli. Ástæða þess að ég óskaði eftir því við ríkissaksóknara að þessi tiltekni kafli fengist birtur var sú að í bréfi hans kom fram að sá hluti þessara gagna sem lyti að skipulagi lögreglunnar félli ekki undir starfssvið ríkissaksóknara. Með tilliti til þess óskaði ég eftir þessu. Ég hef ekki séð að ríkissaksóknari hafi tekið þannig til orða um aðra þætti í þessum gögnum og ítreka afstöðu mína í því efni.

Síðari spurning hv. þm. laut að ákvörðun fullnustumatsnefndar. Mundi hv. þm. vilja endurtaka það? (JóhS: Hæstv. ráðherra nefndi að honum og fullnustumatsnefnd hefði verið stillt upp við vegg ...) Ég bið hv. þm. afsökunar á því að þetta féll mér úr minni.

Ég gerði ítarlega grein fyrir þessu í upphafsræðu minni, ég veit ekki hvort hv. þm. heyrði það, en þá gerði ég rækilega grein fyrir því að ég teldi lögregluna hafa sett þá ráðherra sem hlut áttu að máli í mjög óeðlilega stöðu. Þá gaf ég um það fyrirmæli og setti nýjar reglur um að lögreglan gerði það ekki aftur. Ég átti við þetta og ekkert annað og gerði skýra grein fyrir því í upphafsræðunni.