Mannréttindasáttmáli Evrópu

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:30:22 (3964)

1998-02-17 18:30:22# 122. lþ. 69.1 fundur 466. mál: #A mannréttindasáttmáli Evrópu# (samningsviðauki nr. 11) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:30]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994. Frv. þetta er samið í dómsmrn. en í því er lagt til að samningsviðauki nr. 11 um mannréttindasáttmála Evrópu verði lögfestur hér á landi. Samningsviðauki nr. 11 var fullgiltur af Íslands hálfu 29. júní 1995 í kjölfar ályktunar Alþingis 25. febrúar sama ár. Í viðaukanum felst endurskipulagning á eftirlitskerfi mannréttindasáttmálans. Meginbreytingin er sú að mannréttindanefndin og Mannréttindadómstóllinn verða lögð niður í núverandi mynd og stofnaður nýr dómstóll, Mannréttindadómstóll Evrópu, er kemur í stað þessara stofnana.

Með samningsviðauka nr. 11 stefna aðildarríki Evrópuráðsins að því að gera eftirlitskerfi sáttmálans skilvirkara en kerfið hefur reynst þungt í vöfum og með auknum kærufjölda hefur afgreiðslutími mála verið talinn óviðunandi. Þegar sáttmálinn var lögtekinn hér á landi var farin sú leið að lögfesta hann í heild sinni, þ.e. ekki einungis efnisreglurnar um mannréttindin, heldur einnig ákvæði um stofnanirnar sem leysa úr kærum vegna brota á sáttmálanum og meðferð mála fyrir þeim. Í samræmi við það er lagt til í frv. að samningsviðauki nr. 11 verði lögtekinn hér á landi. Í frv. er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. nóvember 1998 en þann sama dag tekur viðauki nr. 11 gildi, ári eftir að öll aðildarríkin hafa fullgilt hann.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir tilgangi frv. en mun nú víkja nánar að þeim breytingum á mannréttindasáttmálanum sem samningsviðauki nr. 11 felur í sér.

Í fyrsta lagi eru gerðar breytingar á II.--IV. kafla upphaflega samningsins þar sem nú er að finna ákvæði um mannréttindanefndina og Mannréttindadómstólinn og þau sameinuð í einn kafla, II. kafla.

Í öðru lagi er samningsviðauki nr. 2 sem fjallar um vald Mannréttindadómstólsins til að láta uppi ráðgefandi álit felldur brott sem sjálfstæður viðauki en ákvæði hans í staðinn felld inn í meginmál sáttmálans í hinum nýja II. kafla.

Í þriðja lagi eru gerðar breytingar á nokkrum ákvæðum núverandi V. kafla samningsins og viðaukum nr. 1, 4, 6 og 7 sem leiðir af breyttu eftirlitskerfi.

Í fjórða lagi er einstökum köflum og greinum mannréttindasáttmálans og viðauka við hann gefin fyrirsögn í samræmi við efni sitt.

Í fimmta og síðasta lagi er samningsviðauki nr. 9 felldur úr gildi en hann hefur ekki verið fullgiltur af Íslands hálfu.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.