Almannatryggingar

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:39:26 (3966)

1998-02-17 18:39:26# 122. lþ. 69.2 fundur 459. mál: #A almannatryggingar# (endurgreiðsla sérfræðikostnaðar) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:39]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir stjórnarfrv. um breytingu á almannatryggingum. Ég er í hópi stjórnarþingmanna og hef mikinn og einlægan vilja til að styðja mína góðu stjórn, en þó hef ég miklar efasemdir um frv. sem hér er lagt fram, og tel að heldur fljótfærnislega sé að málum staðið. Ég veit mjög vel, enda kemur það fram alls staðar, að við höfum staðið í þessari deilu, Tryggingastofnun og heilbrrn. við lækna og það hefur skapað mjög mikil vandamál hjá sjúklingum. Ég tek undir að það er mjög alvarlegt.

Ég er hins vegar þess fullviss að hið rétta hjá minni góðu ríkisstjórn hefði verið að breyta þeim samningum á þann veg að setja einhliða taxta og ef til þess hefði skort lagaheimildir hefði átt að afla þeirra á Alþingi. Það hefðu verið hin réttu viðbrögð ríkisstjórnarinnar.

Hér er farið, herra forseti, með mjög vafasama hluti, þ.e. að áætla að borga mönnum eftir á það sem þeir læknar unnu sem voru ekki með samning við Tryggingastofnun ríkisins.

Herra forseti. Við verðum að líta þannig á að uppsögn lækna, sem verktaka, við Tryggingastofnun ríkisins sé þrýstiaðgerð vegna kjara, vegna launa. Því er uppsögn þeirra ígildi verkfalls. Ég held að staða okkar sé hörmuleg gagnvart öðrum starfsstéttum landsins ef við stöndum frammi fyrir því að hafa búið til lög sem ákvarða að þeir sem eru í verkfalli eða verkfallsígildi skuli fá greidd laun eftir á. Ég veit ekki hvernig við ættum að svara þeim starfsstéttum sem eru í kjaradeilum, t.d. sjómönnum.

Ég held líka að hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða vegna þess að ég er þess fullviss að mikil samstaða ríkir um það í stjórnmálum Íslands að við stöndum þannig að heilbrigðismálum að til þeirra sé aflað með almennum sköttum og þannig sé staðið undir þeim greiðslum sem til heilbrigðismálanna fara. Ég held að mjög mikil samstaða sé um að gera þetta svona. Að við ætlum að láta samhjálpina í samfélaginu standa undir kostnaði við heilbrigðisþjónustuna og viljum ekki breyta því. Ég held að pólitísk samstaða sé um það meðal allra flokka.

Hins vegar vil ég benda á að t.d. í mínum stjórnmálaflokki, Sjálfstfl. og ég held í fleiri stjórnarflokkum, hafa menn ályktað sem svo að æskilegt væri ef við gætum einkavætt einhvern hluta heilbrigðisþjónustunnar. Ég hef tekið þátt í slíkum samþykktum og er þeim sammála. Ég hef litið þannig á að slík einkavæðing stuðli þá að því að lækka kostnað og reyna að koma upp samkeppni þannig að kostnaður geti lækkað. En til þess að svo geti orðið er ég viss um að við þurfum þá að snúa okkur að því að meta á hlutlægan hátt hver þessi störf eru. Ég veit að núna á annað ár hafa farið fram svokallaðar samningaviðræður milli Tryggingastofnunar og lækna um hvað skuli borga fyrir þessi læknastörf. Ég fullyrði að þeir samningar hafa verið fólgnir í því að hnoðast á þessu, reyna að toga og tosa um það hvað ber að greiða í stað þess sem bráðnauðsynlegt er að snúa sér að, þ.e. að meta störfin á hlutlægan hátt. Alls staðar í kerfinu, hjá Ríkisspítölunum, alls staðar, liggur fyrir kostnaðargreining aðgerða. Vandræðin eru þau að menn hafa því miður tiltölulega lítið viljað hafa með þetta að gera. En allar þessar upplýsingar af þeim gríðarlegu upplýsingum um vinnurannsóknir liggja fyrir hjá spítölunum.

Ég vil líka benda á að við höfum verið að vinna að þessum hlutum á öðrum sviðum. Ég hygg, herra forseti, að Eysteinn Jónsson, fyrrv. fjmrh., hafi byrjað fyrst að vekja athygli á því að koma upp íslenskum stöðlum. Jóhann heitinn Hafstein, fyrrv. iðnrh. gerði mikið átak kringum 1969 og 1970 í íslenskum stöðlum og íslenskt staðlaráð hefur verið að vinna síðustu áratugina að grunnvinnunni til að við gætum unnið samkvæmt nútímanum. Ég er þess fullviss að við gætum nálgast það mjög á þennan hátt að ná yfir þessa kostnaðarliði. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig gengi t.d. hjá Vegagerðinni, Húsameistara ríkisins eða Ríkiskaupum o.s.frv. að bjóða út verk ef engir staðlar væru til. Ég held því að í heilbrigðismálunum sé lífsnauðsynlegt að vinna að því að koma upp slíkum stöðlum, vegna þess að það er lausnin á hinu eilífa reiptogi um þessa liði.

[18:45]

Ég er líka handviss um það, herra forseti, að nauðsynlegt er að höggva á þennan hnút, þessa löngu deilu sem er búin að vera allt of lengi milli sérfræðinganna, og mjög nauðsynlegt að heilbrrn. og Tryggingastofnun hafi húsbóndavaldið í sínum höndum. Sá sem borgar verður að ráða því annars missum við alla þessa hluti úr höndum okkar. Því hefði ég talið, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að hin rétta málsmeðferð ríkisstjórnarinnar hefði verið sú að gefa út einhliða taxta um hvað skyldi borga sérfræðingum. Ef lög leyfa það ekki í dag, þá er að afla til þeirra lagaheimilda. Ég veit að þingið hefði auðfúslega orðið við slíkri beiðni.