Almannatryggingar

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:50:22 (3969)

1998-02-17 18:50:22# 122. lþ. 69.2 fundur 459. mál: #A almannatryggingar# (endurgreiðsla sérfræðikostnaðar) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:50]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við verðum ekkert sammála um þetta, ég og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Út af fyrir sig er það allt í góðu lagi. En ég ætla að minna hv. þm. á það að ef hann hefði fylgst með þessum samningaviðræðum sem hafa verið í alvarlegri umræðu síðan í september sl., þá komst fyrst hreyfing á málið eftir að þetta var ákveðið, þ.e. að fara þessa leið. Og það er búið að semja við meginþorra þeirra 17 sérfræðigreina sem verið er að semja fyrir. Þar sem hnífurinn stendur í kúnni eru einstaka skurðlæknissvið sem gengur illa að semja við, ég viðurkenni það fúslega, og kröfur hafa verið alveg út úr öllu korti. En þar sem hreyfing var að komast af stað og við vorum að ná jafnvægi í þessari umræðu, þá var rétt að minna sjúklinga á að halda sínum reikningum til haga. Um það snýst þetta frv. sem hér liggur fyrir.