Flutningur húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 13:36:16 (3992)

1998-02-18 13:36:16# 122. lþ. 70.1 fundur 345. mál: #A flutningur húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[13:36]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vitna til ágætra ummæla minna í fjölmiðlum, sem hann gerði réttilega. Ég hef ekki skipt um skoðun síðan ég sagði það sem hann vitnaði til.

Í byrjun síðasta árs skipaði ég nefnd til að vinna að endurskipulagningu á rekstri og skipulagi Húsnæðisstofnunar. Í nefndinni eiga sæti Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður minn, Einar K. Guðfinnsson alþingismaður, Halldór Árnason úr fjmrn., Hákon Hákonarson, stjórnarformaður húsnæðismálastjórnar, Sigurður E. Guðmundsson, forstjóri Húsnæðisstofnunar, og Sigríður Lillý Baldursdóttir, skrifstofustjóri í félmrn. Starfsmaður nefndarinnar er Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félmrn., og Sigurður Kr. Friðriksson viðskiptafræðingur sem starfaði með nefndinni um tíma.

Hlutverk nefndarinnar var að gera víðtækar tillögur um framtíðarskipan húsnæðislánakerfisins. Hún hefur enn ekki skilað af sér endanlegum tillögum en starf hennar er á lokastigi. Eitt af verkefnunum er að gera tillögur um framtíð húsbréfakerfisins. Nefndinni um endurskipulagningu Húsnæðisstofnunar var m.a. ætlað að styðjast við niðurstöður stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar og niðurstöður annarrar nefndar sem skipuð var í ársbyrjun 1996 og starfaði undir forsæti Magnúsar Stefánssonar alþm. Þeirri nefnd var falið að kanna möguleika á að draga úr ríkisábyrgð í húsbréfakerfinu og færa starfsemi húsbréfadeildar frá Húsnæðisstofnun ríkisins til lánastofnana.

Nefndin um endurskipulagningu Húsnæðisstofnunar ræddi sl. vor við fulltrúa viðskiptabanka og sparisjóða um yfirtöku og afgreiðslu húsbréfa. Bankar og sparisjóðir annast nú þegar framkvæmd greiðslumats vegna umsókna viðskiptamanna sinna um húsbréfalán. Þær hugmyndir sem ræddar hafa verið eru að bankar og sparisjóðir taki yfir alla forvinnslu umsókna um húsbréfalán. Þetta yrði gert með þjónustusamningi milli Húsnæðisstofnunar og banka og sparisjóða þannig að ekki yrði um neina viðbótargjaldtöku af hálfu banka og sparisjóða að ræða. Forsenda ráðuneytisins fyrir því að teknar verði upp viðræður um að öll þjónusta og afgreiðsla húsbréfakerfisins verði færð frá húsbréfadeild til viðskiptabanka og sparisjóða er að með því náist fram aukin hagkvæmni við afgreiðslu húsbréfa, bætt þjónusta við neytendur og öryggi og jafnrétti til þess að lán raskist ekki.

Viðskiptabankar og sparisjóðir telja að til þess að geta tekið á sig aukna ábyrgð við afgreiðslu og umsýslu húsbréfa þurfi að koma til bætt aðgengi lánveitenda að upplýsingum um fjárhagsstöðu einstaklinga. Þeir telja jafnframt að nýjar reglur þurfi að koma um gerð greiðslumats húsbréfaumsækjenda.

Í samvinnu við viðskrh. skipaði ég nefnd 4. apríl sl. til þess að kanna hvernig bæta megi aðgengi lánveitenda að upplýsingum um fjárhagsstöðu lántakenda. Í nefndinni áttu sæti, auk fulltrúa ráðuneytanna, fulltrúar Neytendasamtakanna, tölvunefndar, húsnæðismálastjórnar, viðskiptabanka og sparisjóða. Starfshópurinn hefur skilað af sér skýrslu með niðurstöðum og tillögum, en þar er lögð rík áhersla á að bætt aðgengi að upplýsingum um fjárhagsstöðu einstaklinga fari ekki gegn markmiðum laga um persónuvernd og verði ekki veittar nema með heimild viðkomandi viðskiptamanns.

Samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða milli þessara aðila var undirritað 27. janúar sl. Vinna starfshóps um greiðslumat er á lokastigi og er gert ráð fyrir að á næstunni liggi fyrir tillögur um nýtt greiðslumat þar sem m.a. verði tekið tillit til neyslustaðla, fjölskyldustærðar og barnafjölda.

Frumvarpsgerð um endurskoðun húsnæðismálalöggjafarinnar er enn fremur á lokastigi og þau frumvörp koma væntanlega til meðferðar á Alþingi innan skamms. Ég tel rétt að bíða með að semja við bankana um aukna þjónustu þar til nýtt skipulag húsnæðismála hefur tekið gildi. En ég endurtek að forsendan fyrir þessum breytingum er að mínu mati að þjónustan við viðskiptamennina batni, öryggi aukist, jafnrétti til húsbréfalána raskist ekki og nýtt skipulag verði neytendum ekki dýrara en það sem við höfum búið við.