Launamunur verkakvenna og verkakarla

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 13:49:57 (3997)

1998-02-18 13:49:57# 122. lþ. 70.2 fundur 469. mál: #A launamunur verkakvenna og verkakarla# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[13:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Fyrsta spurningin hljóðaði svo: Telur ráðherra jafnréttismála ástæðu til að ætla að ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin þegar upplýst er um verulegan mun á dagvinnulaunum verkakvenna og verkakarla?

Lögum samkvæmt er bannað að mismuna kynjum í launum. Það er samið um sömu launataxta fyrir bæði kyn. Fyrirtækja- og vinnustaðasamningar hljóta að vera undir sömu sök seldir, að það sé óheimilt að greiða mismunandi dagvinnulaun eftir kynjum. Hvað varðar aukagreiðslur, svo sem einstaklingsbónus þar sem mælt er vinnuframlag og afköst er tæplega unnt að tryggja með lögum að einstaklingar, hvað þá kynin, beri nákvæmlega jafnt úr býtum.

Ég treysti mér ekki hér og nú til að fullyrða að jafnréttislög séu brotin eða hafi verið brotin. Slíkt þarf vandaðri athugun en ég hef haft aðstöðu til þess að gera. En það verður tvímælalaust að greiða báðum kynjum sömu dagvinnulaun fyrir sömu vinnu. Meðaltímakaup gefur ekki fullnægjandi mynd þar sem karlar vinna fremur eftirvinnu en konur og eftirvinnutímarnir eru hærra borgaðir en dagvinnan. Kjararannsóknarnefnd hefur skilgreint þetta og ég vil, með leyfi forseta, lesa þá skilgreiningu:

,,Meðaltímakaup er skilgreint sem útborguð laun, þ.e. allar tekjur á tímabilinu, deilt með fjölda unninna stunda. Greidd dagvinnulaun á mánuði eru reiknuð sem margfeldi dagvinnutíma á mánuði og meðaltals greidds tímakaups. Hreint tímakaup er skilgreint sem laun án orlofs fyrir dagvinnu, að viðbættum hvers kyns aukagreiðslum svo sem yfirborgunum, fæðis-, ferða-, fata- og verkfærapeningum, deilt með dagvinnutímanum. Greitt tímakaup er skilgreint sem hreint tímakaup að viðbættu bónusálagi.``

Hér er um nokkuð flókinn útreikning að ræða. Það má hugsa sér að karlar fremur en konur fái t.d. verkfærapeninga og e.t.v. eru fleiri atriði sem erfitt er að bera saman.

Seinni spurningin er: Mun ráðherra með vísan til jafnréttislaga beita sér fyrir því að munur á dagvinnulaunum verkakvenna og verkakarla verði leiðréttur?

Ég hef ritað ASÍ og VSÍ bréf sem ég vil lesa, með leyfi forseta:

,,Félmrh. hefur ákveðið að skipa þriggja manna nefnd er fái það hlutverk að kanna launamun verkakvenna og verkakarla. Nefndin verði skipuð fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands en formaður verður skipaður af félmrh. Hér með er óskað eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands á einum fulltrúa í nefndina.

Ráðuneytið vekur athygli yðar á 12. gr. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna karla, sem segir:

,,Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar og skal ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð.``

Jafnframt skal minnt á að tilnefna ber varamann samanber skýr ákvæði stjórnsýslulaga.``

Sé það tilfellið að slík nefnd komist að því að jafnréttislög hafi verið brotin og launamunur, sem ekki verði skýrður nema með kynferði, viðgangist þá ber mér hiklaust að bregðast við og leita leiða til úrbóta. Ég hef óskað samstarfs við aðila vinnumarkaðarins um þetta mál. Ég er ekki með því að rengja með nokkrum hætti niðurstöður kjararannsóknarnefndar og niðurstöður kjararannsóknarnefndar hljóta að verða mjög mikilvægt málsgagn í vinnu nefndarinnar, en ég tel ástæðu til að fara yfir málið og reyna að finna ef um misbrest er að ræða. Ef launamunur er sem ekki verður skýrður nema með kynferði verðum við að grípa til aðgerða.